Það má segja að tilviljun ein hafi ráðið því að fimm konur á miðjum aldri og rúmlega það, tóku sig saman og gáfu út bók með ljóðum, örsögum og smásögum. Þær Brynhildur Auðbjargardóttir, Hrefna Róbertsdóttir, Hrund Apríl Guðmundsdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir og Sveinbjörg Sveinsdóttir kynntust á ritlistarnámskeiði í covid. Þessar hugrökku konur segja félagsskapinn hressandi og skemmtilegan og að ferlið að gefa út bók hafi verið þroskandi en í bókinni eru viðfangsefni eilífrar uppsprettu sem oft snerta við fólki og það getur speglað sig í, eins og ástin, bernskan, samskipti, náttúran, dauðinn o.fl. Og þannig er það í þessari bók og kannski ekki síður vegna þess að höfundarnir koma úr ólíkum áttum með mismunandi bakgrunn. Þetta allt gerir bókina sterkari, eða eins og ein þeirra kemst að orði, að orð hinna glæði hennar og öfugt. Þær segja það í senn vera stuðning, skuldbindingu og skjól að gefa út bók svo margar saman, líklega hefði þeim ekki dottið í hug að gera þetta hver í sínu lagi.
Þær stöllur, eða Kápurnar, eins og þær kalla sig, eru nokkuð vissar um að þessi bók sé einungis byrjun þeirra í skáldskap. Með Kápunum er vísað í mynd í bókinni sem tekin var af höfundunum þar sem þær minna á Utangarðsmenn,“ segja þær sposkar.
Hvað tengir ykkur svo mikið að þið ákváðuð að gefa út bók? „Það var þannig að við hittumst á ritlistarnámskeiði hjá Vigdísi Grímsdóttur árið 2020, í covid. Við ákváðum í kjölfarið að hittast og skrifa áfram saman en við þekktumst ekkert fyrir,“ segir Brynhildur.
Hrund: „Við sáum þetta námskeið auglýst, sóttum um og lentum allar á biðlista en þegar við mættum á námskeiðið vorum við einu þátttakendurnir, hinir hættu við vegna faraldursins. Námskeiðið var sex heilir laugardagar í röð, við vorum með grímur í fyrstu skiptin og í 2 m fjarlægð, sprittuðum allt þannig að við náðum ekki almennilegum tengslum.“ Og Hrefna bætir við að þær hafi stundum aðeins tekið niður grímurnar og náð smá tengingu en í raun einungis verið að kynnast á námskeiðinu.
Á námskeiðinu lásu þær gjarnan upp það sem þær skrifuðu þannig að efnið sem var í ýmsu formi birtist þeim öllum. Þetta hafi fyrst og fremst verið fjölbreyttar æfingar og textar; örsögur, ljóð og endurminningar ásamt ljósmyndum sem skrifað var út frá til að fá flæði í frásögnina.
Brynhildur segir að þær hafi látið grímurnar falla að ákveðnu leyti. „Við opnuðum okkur og á ýmis mál sem við vorum að opinbera fyrir framan ókunnugt fólk, þannig séð. Það myndaðist sérstök stemning og traust. Við vorum mjög persónulegar og stundum runnu tár við upplesturinn.“
Grín sem varð að veruleika
Hvað gerist svo eftir námskeiðið? „Við höfum hist reglulega síðan þá og í raun berskjaldað okkur í sögunum hver fyrir annarri. Það er líka ótrúlega dýrmætt að eignast nýja vini á fullorðinsaldri. Maður eignast oft vinina í menntaskóla eða háskóla. En allt í einu eignast maður fjórar vinkonur á einu bretti,“ segir Steinunn. Hrund bætir við: „Þegar við erum saman þá erum við allar uppteknar af orðum og það er svolítið eins og að koma heim, maður þarf ekkert að útskýra sig.“ „Við erum ólíkar en samrýmdar og þetta er stuðningsnet,“ segir Hrefna. „Við höfum stutt hver aðra í þessu ferli, annars hefði þetta ekki gerst, alla vega ekki hjá okkur öllum. Ég hef gefið út margar bækur en það eru sagnfræðibækur, þetta var svakalega fjarlægt því en þessi hópur hefur náð þessu saman. Eins og ein okkar sagði, þegar maður er með öðrum, þá er það ákveðin skuldbinding. Ég mætti ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir þær hinar. Við fórum að senda í ýmsar keppnir, eins og ljóðakeppnir, þar sem maður þurfti ekki að birta nafnið sitt,“ segir hún sposk, „það var ákveðinn hjalli og við sendum svo hver annarri myndir þegar búið var að loka umslaginu til að ýta aðeins á að þær sendu líka. Það var sérstök tilfinning – þá var maður búinn að láta frá sér texta og það var ákveðið stökk burtséð frá því hvort hann yrði birtur eða ekki.“
„Við höfum hist í sumarbústöðum, skrifað í þemum og vorum oft í takt hver við aðra í okkar æfingum. Ég kemst næstum því við þegar við tölum um þetta því ég átta mig á að við bjuggum til mikið traust og að það hefur borið okkur áfram í þessa bók,“ segir Hrund með áherslu. Svo var það Steinunn sem sagði einn daginn: Af hverju gerum við ekki bók?
„Fyrir mér var þetta frekar óraunverulegt í fyrstu en svo vatt þetta smám saman upp á sig,“ segir Brynhildur. „Ákveðið var að gefa út bók, ég var nú ekki á þeim fundi, svo þegar ég hitti stöllur mínar næst, spurði ég forviða: Hvaða bók? Ég vildi ekki vera vera dragbítur en mér fannst þetta ekki raunsætt. Þegar nær dró og við vorum komnar með ritstjóra þá breyttist viðhorfið og verkefnið fór að mótast í góða átt.“
Að sögn Steinunnar var það Dægurlagasöngkonan sem dregur sig í hlé efir Snjólaugu Bragadóttur sem var kveikjan að bókinni. Þetta var grín í byrjun sem varð svo að veruleika. „Við erum líka með bókaklúbb og ræddum þar m.a. þessa bók en dægurlagasöngkonan var alltaf að baka fyrir kistuna og á einhverjum tímapunkti talaði Hrund um að hún hefði smitast af konunni og væri farin að baka. Þá var farið að tala um að það þyrfti að baka fyrir útgáfuhófið og við fórum að sjá fyrir okkur útgáfupartíið löngu áður en við ákváðum að gefa út bók.“ „Það bakaði nú samt engin fyrir það en ég skoðaði uppskriftir í gríð og erg,“ segir Hrund og uppsker hlátur.
Skrifin mest afhjúpandi listformið
Er eitthvert þema sem tengir efnið í bókinni? „Þegar upp var staðið þá upplifðum við svolítið að þetta sé ekki 51 saga og ljóð heldur frekar ein bók með einni sögu. Ég hef oft sagt að orð hinna glæða mín og þannig er það með okkur allar, þannig skapaðist heildin,“ segir Sveinbjörg.
„Upphaflega var efnið svolítið úr sitthvorri áttinni en svo bjó ritstjórinn okkar, Guðrún Steinþórsdóttir, til 10 þemu úr sögunum sem breytti miklu þannig að það eru aldrei sögur eftir sömu manneskju hlið við hlið. Hún raðaði efninu þannig og við svo út frá því – hún gaf okkur þetta verkfæri,“ útskýrir Hrefna
„Við tókum þá ákvörðun að setja ekki nöfnin okkar undir hverja sögu þannig að lesandinn gæti lesið í gegnum bókina og fengið svolítinn þráð,“ segir Hrund.
Gerðist það á einhverjum tímapunkti að þið vilduð koma frá ykkur því sem þið höfðuð skrifað og hvernig var það að gefa þetta efni út svona í fyrsta sinn, afhjúpandi, eða frelsandi? „Aðalhjallinn fyrir mér var að ákveða að gefa út bók en þegar það var komið þá var þetta bara vinna, eins og Hrefna veit,“ segir Hrund.
„Bókin er persónuleg. Mér fannst þetta mikill hjalli og kveið því að hún kæmi út, þetta er eins og þegar maður fer af stað með árstraumi, þá kemst maður ekki til baka, maður verður að klára. Þú tekur þessa ákvörðun með öðru fólki. Mér fannst þetta erfitt, ég kveið fyrir að ákveðnir einstaklingar myndu lesa textana mína. En þegar þetta var komið á bók, þá var ég komin yfir það versta og hugsaði, það verður sem verður. Ég hef alltaf dáðst af rithöfundum því mér finnst skrif vera það sem er mest afhjúpandi af öllu listformi, að semja tónlist er það líka, en skrifin eru svo rosalega persónuleg, þau eru eitthvað sem þú býrð til,“ segir Brynhildur.
Hrund: „Það er líka svo mikið hugrekki í þessu. Við erum ekki bara að gefa orðum og hugsunum okkar frelsi.“

Efni röð: Sveinbjörg, Steinunn og Hrund, Neðri röð: Brynhildur og Hrefna. Myndina tók Olgja Björt Þórðardóttir.
Kvennaútgáfa frá a til ö
Brynhildur á heiðurinn af titlinum Orðabönd, þessu gangsæja og góða orði en bókakápuna skreyta fimm bönd. Bókin kom út á kvennafrídeginum, 19. júní sl. sem var vel til fundið og viðtökurnar hafa verið mjög góðar en það kom ýmsum á óvart að þær hafi gefið út bók, enda starfsvettvangur þeirra verið á öðrum sviðum.
„Það var bara galdur að bókin kom út á þessum degi. Hún átti fyrst að koma út 11. apríl. Við hins vegar boðuðum útgáfuhófið 19. júní, löngu áður, það var tæpt að þetta myndi nást en þetta hvíldi í beinunum, ég vissi að bókin myndi koma út á réttum tíma. Við gefum bókina út sjálfar og tókum bókaútgáfuna alla leið; völdum pappír, letur, hönnuð, töluðum við bókasöfn, verslanir og fundum ritstjóra,“ segir Hrund og Sveinbjörg bætir við: „Bókin gat ekki komið út á betri degi. Þetta er kvennaútgáfa frá a til ö og í veislunni var svo sungið Áfram stelpur. Bókin var prentuð í Lettlandi og það er saga út af fyrir sig. Hún var nýkomin í gáminn þegar prentsmiðjan varð fyrir netárás, við sluppum naumlega.“ „Bókin varð eins og við vildum hafa hana, falleg og útgáfuhófið líka og svo bíður Edinborgarhátíðin,“ segir Brynhildur.

Orðabönd er afar falleg bók, hvað snertir allt útlit.
Edinborgarhátíðin – svo önnur bók
Aðspurðar hvort þær sjái fyrir sér næstu bók svara þær einum rómi játandi, þær séu nú þegar sumar byrjaðar að hripa eitthvað niður og að það hafi verið mikill lærdómur í þessari fyrstu útgáfu. En fram undan er Edinborgarhátíðin þar sem bókaútgefendur koma saman og þær ætla þangað að lesa upp úr bókinni. „Við erum konur á þessum aldri að láta draumana rætast og ef þú átt þann draum að skrifa, gerðu það þá – það geta allir skrifað, texti er smekksatriði; hvort þér þykir eitthvað gott eða ekki er bara skoðun,“ segir Hrund.
Þær hafa einföld og skýr skilaboð til fólks sem er komið á og yfir miðjan aldur og það er Brynhildur sem er skjót til og segir sposk: „Ég segi bara: Use it before you loose it. Gerðu það sem þig langar til áður en það verður of seint!“
Finna má ýmislegt um bókina á Facebook undir síðunni Orðabönd, t.d um hvar megi nálgast bókina en nú verður bókin m.a. fáanleg í verslunum Pennans.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.