Tengdar greinar

Kosturinn við að verða miðaldra

Sirrý og Kristján Franklín á ,,skólalóðinni” við Háskólann á Bifröst. Umhverfi Hreðavatns er paradís en þau hjónin eru mikið útivistarfólk.

Sirrý heitir fullu nafni Sigríður Arnardóttir en hefur kosið að nota gælunafnið, sem henni var gefið ungri, sem vinnuheiti verkefna sem hún hefur tekið að sér. Í fimm ár var hún til dæmis með sjónvarpsþáttinn vinsæla ,,Fólk með Sirrý“ og í önnur fimm ár með þátt á Rás 2 sem bar nafnið ,,Sirrý á sunnudagsmorgnum“ og margir nutu að fylgjast með frá 8 til 12. „Þar var ég í beinu sambandi við hlustendur og í miklum tengslum við þjóðarsálina. Sú reynsla er meðal annars að nýtast mér vel núna,“ segir Sirrý og er hæstánægð með nýjasta skrefið sem hún tók í lífinu en þau hafa ekki alltaf verið auðveld.

Sirrý er ein af þeim sem allir þykjast vita hver er en eins og með flesta blasir sagan ekki öll við. Það sem blasir hins vegar við er að Sirrý hefur átt 30 ára farsælan feril í öllum tegundum fjölmiðla og er nú búin að ná miðjum aldri. „Það er svo gott að geta nú miðlað af reynslunni og verið öðrum hvatning,“ segir Sirrý.

Naut sviðsljóssins

Ljósið hefur oft skinið skært á Sirrý og hún viðurkennir að hún hafi auðvitað notið þess. Annars hefði hún ekki tekið að sér slík verkefni. Hún tók samt markvissa ákvörðum um að draga sig út úr fjölmiðlum og taka til við að nýta reynslu sína eftir þessi 30 ár og miðla öðrum af. „Það var auðvitað ekki auðveld ákvörðun en ég er fullkomlega sátt við hana og ég tók hana á réttum tíma.“ Nú hefur Sirrý gert verkefnin sem hún hafði í hjáverkum áður að aðalstarfi og hefur stofnað vefinn  www.sirry.is þar sem hún býður upp á margs konar þjónustu. Hún heldur námskeið, fyrirlestra, stýrir ráðstefnum og er veislustjóri. Þar nýtist reynslan úr beinum útsendingum í sjónvarpi vel.

Eitt af því sem Sirrý hefur velt töluvert fyrir sér er að sumir virðist ævinlega vera sólarmegin í lífinu með bros á vör á meðan erfiðleikarnir leita aðra stöðugt uppi. Hún spyr hvort geti verið að þar vegi aðstæðurnar ekki endilega þyngst heldur viðhorf okkar sjálfra? Sirrý er mjög meðvituð um að líf hennar hefur verið farsælt fram til þessa og að það sé sannarlega ekki sjálfgefið því auðvitað hefur hún tekið dýfur eins og aðrir. Munurinn á henni og mörgum er samt sá að henni hefur tekist að nýta öll tækin og tólin sem hún hefur viðað að sér í formi reynslu, sér til framdráttar, líka það erfiða.

Að vera trúr yfir litlu

Einkunnarorð sem Sirrý hefur löngum starfað eftir eru: „Vertu trúr yfir litu og þér verður treyst fyrir miklu“  „Ég hef fengið stór og spennandi tækifæri sem hafa gjarnan komið í kjölfar lítilla, tímabundinna

Bókaskrif og námskeiðahald voru aukastarf en eru nú aðalstarf hjá Sirrý.

verkefna sem ég hef sinnt vel,“ segir Sirrý.

Samhliða fjölmiðlaverkefnum, sem var hennar aðalstarf, hefur Sirrý verið undanfarin 22 ár að halda námskeið og skrifa bækur í hjáverkum og nú hefur hún gert aukavinnuna að aðalstarfi. Sirrý hefur líka kennt við Háskólann á Bifröst frá 2008 en þar byrjaði lítið verkefni sem óx. „Þáverandi rektor, Bryndís Hlöðversdóttir, bað mig að þjálfa nema í lagadeild við að tjá sig af öryggi svo við hönnuðum saman flott námskeið. Síðan vildu allar hinar deildirnar fá þetta námskeið líka því á Bifröst er verið að þjálfa alls konar fræðinga. Allir þurfa að geta talað fyrir framan stóran hóp og líka svarað fyrir sig í fjölmiðlum. Þessi hæfileiki er sannarlega ekki meðfæddur og margir eiga í einhverjum vandræðum með. Ég hef því kennt námskeiðið „Framsækni og örugg tjáning“ í öllum deildum á Bifröst árum saman og haft mikla ánægju af. Ég brenn í raun fyrir þessum málum því margir kvarta yfir að hafa fengið of litla þjálfun í að koma fram og tjá sig í íslenska skólakerfinu og ég hef líka oft orðið vitni að mörgu sem hefði betur mátt fara í fjölmiðlum, bara ef fók hefði verið betur undirbúið.

Máttur kvenna

„Það er svo dásamlegt að horfa á nemendur mína þora að koma sér á framfæri og vera sýnileg í fjölmiðlum, taka þátt í umræðunni. Það er mikilvægur liður í að verkefni gangi vel í dag og er undirstaða lýðræðis. Símenntun á Bifröst hefur verið að eflast gífurlega og þar kenni ég á námskeiðinu „Máttur kvenna, rekstur fyrirtækis“ þar sem ég er verkefnisstjóri. Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í,“ segir Sirrý skælbrosandi.

„Þátttakendur eru konur alls staðar að. Sumar hafa þegar rekið fyrirtæki í einhvern tíma og aðrar segjast vera að safna kjarki til að breyta til áður en það verður orðið of seint.“

,,Gigg“ hagkerfið

Kristján Franklín, Kjartan Franklín, Sirrý og Haraldur Franklín.

„Til er nokkuð sem kallast Gigg hagkerfið en það er þegar fólk býr sér til verkefni og skapar tækifærin sín sjálft. Þarna er ég alveg á heimavelli því ég hef starfað sjálfstætt í fjöldamörg ár og skapað mér og öðrum verkefni. Í því verður maður að vera í flæðinu og vera þar sem lífsorkan manns er,“ segir Sirrý. „Þegar ég hef ekki verið sátt með sjálfa mig og verkefnin mín hef ég þurft að taka stökkið og breyta til. Ég hef sagt upp föstum samningum af því ég veit að ég get búið mér til vinnu og starfað sjálfstætt. Á námskeiðinu „Máttur kvenna“ á Bifröst koma margir að, til dæmis viðskiptafræðingar sem kenna gerð viðskiptaáætlunar, upplýsingatækni og fleira. Síðan eru konurnar í mörgum hagnýtum verkefnum til að læra að standa með sjálfum sér, finna styrkleika sína o.s.frv. Það er eitthvað ævintýralegt sem gerist þegar saman koma margar konur á öllum aldri og víða að. Sumar hafa rekið fyrirtæki í mörg ár en þurfa að endurhlaða batteríin, aðrar eru atvinnulausar eða dreymir um að segja upp starfi, sem þær hafa verið í lengi, áður en það er orðið um seinan. Þessar konur eiga það allar sameiginlegt að vera algerar toppkonur en vilja nýta tímann og gera eitthvað fyrir sig sjálfar. Þess vegna er þetta fag svo skemmtilegt að kenna,“ segir Sirrý.

Kosturinn við að verða miðaldra

Sirrý er búin að skrifa 8 bækur um ævina, 4 fyrir börn og 4 fyrir fullorðna. Tvær þeirra eru viðtalsbækurnar: „Þegar konur brotna – og leiðin út í lífið á ný“ og ,,Þegar karlar stranda – og leiðin í land“.

„Það eru auðvitað ýmsir ókostir við að verða miðaldra en líka alls konar kostir,“ segir Sirrý brosandi. „Stærsti kosturinn er án efa sá að maður hvílir betur í sjálfum sér. Á þessum aldri kann maður svo sannarlega að greina kjarnann frá hisminu og við miðaldra manneskjurnar höfum fundið út að svo ótrúlega margt í lífsgæðakapphlaupinu skiptir akkúrat engu máli.

Mér þykir gott að fá að miðla reynslu minni til yngra fólks og þykir gott að heyra þegar sagt er að ég sé hvetjandi við yngra fólk.

Þurfum alltaf að halda okkur við

Eplatré og gróðurhús í garðinum. Sumarið er svo stutt að það þarf að grípa stundina ,,Carpe Diem”

Sirrý hefur nýtt sér að stunda jóga hugleiðslu og hefur farið á námskeið bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum til að nema þau fræði. En það segir hún að sé aðeins fyrir hana sjálfa til að nýta í lífi sínu. „Ég er á því að við þurfum alltaf að vera að halda okkur við á einhvern hátt og efla. Jógað hefur kennt mér að tendra neistann, ljósið innra með mér. Ég er búin að komast að því að ég þarf ekki að kaupa fyrir peninga það sem mig vantar. Ég þarf ekki að fara í margra milljóna króna nám og fá einhvern stimpil. Það er svo margt sem býr innra með okkur öllum og við verðum að kunna að finna það og virkja. Það er kúnstin. Það er svo mikill atgangur og læti í kringum okkur að við heyrum ekki alltaf þessa rödd sem býr innra með okkur öllum. Þegar við finnum hana eflist sjálfstraustið ótrúlega hratt og við hættum að snúast eins og hamstur í hjóli,“ segir Sirrý fullum fetum.

Fékk innsýn inn í kulnun

Verkefni sem Sirrý hefur tekið að sér er meðal annars að vera framkvæmdastjóri fyrir Pieta góðgerðasamtökin og nú síðast talsmaður fyrir Minningar.is. Öll reynsla mín hefur komið sér vel í þessum verkefnum eins og öðrum. Ég hafði ætlað að vera í tvo mánuði hjá Pieta sjálfsvígsforvarnarsamtökunum en endaði með að vera þar framkvæmdastjóri í á annað ár.

Eftir þann tíma fann ég fyrir orkuleysi og depurð. Ég fór að skilja konur sem tala um kulnun.  Ég gat sem betur fer hvílt mig og snúið mér að öðrum verkefnum en það eru ekki allir svo heppnir. Í mínu tilfelli var þetta gott af því ég gat frekar skilið konurnar sem ég ræddi við í bókinni sem ég fór að skrifa „Þegar kona brotnar og leiðin út í lífið á ný“. Ég man eftir stund þar sem ég lá uppi í sófa og var algerlega orkulaus og buguð. Það rigndi úti og það rigndi í sál minni og svo skrifaði ég bók um konur sem brotna. Ég hafði sem betur fer sjálf verkfæri til að nýta til sjálfshjálpar en þetta sagði mér að það getur hver sem er lent á svona vegg og þá er lífsnauðsynlegt að finna ljósið sem býr innra með okkur öllum og halda áfram,“ segir Sirrý.

Fjölskyldan Sirrý og Kristján Franklín, Kristjana Arnarsdóttir tengdadóttir, Haraldur Franklí atvinnukylfingur, Kjartan Franklín menntaður í iðnaðarverkfræði og Viktoría Kjartansdóttir tengdadóttir.

Og nú er hafinn nýr kafli í lífi hjónanna Sirrýjar og eiginmanns hennar Kristjáns Franklín Magnús leikara. „Fyrsta barnabarnið er á leiðinni og við erum gífurlega spennt fyrir þessum nýja kafla í lífi okkar,“ segir Sirrý og er full tilhlökkunar fyrir framtíðinni sem gefur fyrirheit um spennandi verkefni, ekki síst stærsta verkefninu sem er ömmuhlutverkið.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

(Viðtalið er endurbirt en það birtist fyrst í janúar 2022)

Ritstjórn janúar 28, 2022 08:37