Fjölbreyttar glæpasögur

Sakamálasögur eru alls ekki einföld bókmenntagrein. Þónokkrir kvistir skjótast út úr burðargreininni. Meðal annars má nefna njósnasögur, hryllingssögur, gátur, sálfræðitrylla og noir. Svo vilja menn flokka alla þessa kvista í enn fleiri afkvista, m.a. nordic noir, american noir, french noir og fleira og fleira. Eftirspurn lesanda eftir efni af þessu tagi er hins vegar stigvaxandi og það er svo heppilegt að hver og ein tegund gefur sína afþreyingu og gleði.

Stríð, barnsfæðing og ástarflækjur

Ristur eftir Johan Theorin er skemmtilega uppsett. Lesandinn flakkar fram og aftur í tíma. Hluti sögunnar gerist meðal sænskra hermanna staðsettra á Öland í seinni heimstyrjöldinni. Svíþjóð er hlutlaus en ekkert er öruggt. Þjóðverjar hafa hertekið Noreg og Danmörku og ómögulegt að vita nema þeir geri atlögu hvenær sem er. Sú hugmynd kviknar að grafa skurð gegnum eyjuna og hleypa vatni á til að hindra för hugsanlegs innrásarliðs. Í nútímanum vagar Tilda Davidson um komin átta mánuði á leið. Þegar hún og Amor Bashir ætla að koma af sér gömlu pappírsdóti í endurvinnslu sjá þau ljós flökta inn í húsi og gera sér ljóst að innbrot er í gangi.

Þau verða að bregðast við og það reynist örlagaríkt. Tilda finnur tvær látnar manneskjur á efri hæðinni og þeim verður fljótt ljóst að málið teygir sig langt aftur í fortíðina. Johan er Theorin er sænskur, fyrrum blaðamaður sem hefur snúið sér að skrifum. Hann hefur hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar. Meðal annars Glerlykilinn og CWA International Dagger. Þessa bók má flokka undir ráðgátubók. Persónur eru kynntar til leiks og til að byrja með eru allar tortryggilegar. En með því að tengja saman vísbendingar, beita rökleiðslu og athyglisgáfunni getur lesandinn unnið sig að niðurstöðu. Johan skrifar skemmtilega og hann kann að byggja upp spennu. Einkamál Tildu eru einnig fyrirferðarmikil og það er alltaf gaman að sökkva sér ofan í flókin ástamál.

Flækjur undir íslenskum sumarhimni

Sumarhrollur eftir Quentin Bates er nokkuð snjöll og skemmtileg glæpasaga. Quentin er blaðamaður sem tók ástfóstri við Ísland og bjó hér í áratug. Hann vann ýmis störf og þegar hann hóf að skrifa ákvað hann að staðsetja sögur sínar á Íslandi. Gunnhildur Gísladóttir rannsóknarlögreglufulltrúi er aðalsöguhetja hans og hún hreinskiptin, jarðbundin og ákveðin.

Þetta er fjórða bókin og flækjan byrjar þegar handrukkari ræðst inn á heimili fyrrum eiginkonu smiðs í Reykjavík. Hann nær næst í smiðinn en sá er harður í horn að taka og handrukkarinn mætir þar skapadægri sínu. Þá hefst æsileg atburðarás þar sem lögreglan virðist alltaf vera einu skrefi á eftir brotamönnunum. Hér er á ferð nokkuð hefðbundin glæpasaga að því undanskildu að hér eru ýmsar flækjur og uppákomur sem breyta atburðarásinni og koma á óvart. Hins vegar saknar undirrituð þess að sumir þræðir eru ekki raktir alveg til enda. Kannski er bókin bara of stutt.

Upp komast svik um síðir

Lygin eftir Eydun Klakstein gerist í Færeyjum. Þar taka safnstjórinn Sara Emmudóttir og listaverkasalinn Jón Amos höndum saman við að rannsaka lát Póla, bróður Emmu. Hann hafði glímt við fíkn árum saman og deyr í kjölfar botnalangaskurðs. Jústi, pabbi Söru og hans, er ekki sáttur og telur að fleira hangi á spýtunni. Jón og Sara eru ekki sannfærð en þegar Sara fer að kafa ofan í atvik sem varð tuttugu árum fyrr, þegar þau systkinin voru unglingar og átti sinn þátt í að Póli fetaði þann veg sem hann gerði.

Það er virkilega gaman að ferðast til Færeyja og kynnast andanum í Þórshöfn. Þessi bók er ráðgátusaga en það er eitthvað ferskt og sérstakt við hana. Nándin í litlu samfélagi höfuðstaðar sem er á stærð við þorp leikur stórt hlutverk í bókinni sem og klíkuskapur og pólitík örþjóðfélags. Eydun Klakstein er blaðamaður og starfaði í aldarfjórðung við margvíslega fjölmiðla. Þetta er önnur bók hans um þau Söru og Jón og vonandi kemur sú fyrri út á íslensku líka.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 17, 2024 07:00