Margir telja að hæfileikar erfist og að ákveðnir eiginleikar liggi í fjölskyldum. Það gæti hugsast að að það væri rétt í það minnsta eru margar af þekktustu stjörnum heimsins skyldar. Hér eru nokkur þekkt fjölskyldutengsl.
Kona hetjunnar og barnastjarnan
Bonnie Bedila er án efa þekktust fyrir hlutverk sitt í Die Hard-myndunum en hún lék eiginkonu Bruce Willis, þessa sem hann hætti öllu til að bjarga. Færri vita að MacCauley Culkin úr Home Alone-myndunum er bróðursonur hennar. Bonnie bar ættarnafnið Culkin þar til hún gifti sig en bróðir hennar Kit er faðir sjö barna sem öll hafa reynt fyrir sér í kvikmyndum með mismunandi árangri. Faðirinn var umboðsmaður þeirra allra og var strangur. Börnin fengu ekki alltaf að njóta ávaxtanna af erfiði sínu því fyrst þurfti að reka hið stóra heimili. Í raun ríkti aldrei mikil hamingja á heimilinu og þegar móðir þeirra reyndi að skilja við föðurinn hófust langvarandi og erfið málaferli. Að lokum slitu börnin öll sambandi við föður sinn sem í dag býr einn uppi í fjöllunum í Oregon. Dakota, ein systirin, lést aðeins 29 ára gömul af slysförum. Það hafði líka djúpstæð áhrif á alla fjölskylduna.
Fyndinn afi
Jason Patric þykir með myndarlegri mönnum en hann á ekki langt að sækja leikhæfileikana. Afi hans var enginn annar en Jackie Gleason, einn vinsælasti gamanleikari síns tíma. Gleason var þekktur fyrir uppistand en hann var einnig í vinsælum sjónvarpsþætti, The Honeymooners. Linda dóttir hans giftist leikaranum Jason Miller og þau eignuðust Jason yngri.
Frægar mæðgur
Kynbomban Jayne Mansfield þótti um tíma líklegur arftaki Marilyn Monroe og hún var vinsæl í kvikmyndum í byrjun sjöunda áratugarins. Hún eignaðist dóttur árið 1964. Hún var þá gift bardagakappanum Mickey Hargitay og hann gekk stúlkunni í föðurstað þótt nýlega hafi verið upplýst að raunverulegur faðir barnsins er söngvarinn Nelson Sardelli. Stúlkan sem um ræðir er Mariska Hargitay sem við þekkjum öll úr Law and Order Special Victims Unit. Jayne fékk ekki að njóta þess að sjá dóttur sína vaxa upp því hún lést í bílslysi árið 1967 aðeins 34 ára gömul.
Leikkonan og söngvarinn
The Knick voru vinsælir sjónvarpsþættir í Bandaríkjunum og ung írsk leikkona Eve Hewson skein þar skært. Ef fólki finnst hún eitthvað kunnugleg gæti það verið vegna þess að pabbi hennar er Paul David Hewson, betur þekktur undir gælunafninu Bono. Hann giftist Ali Stewart árið 1982 og þau hafa ræktað vel fjölskyldu sína og barist fyrir mannréttindum saman síðan. Dóttir þeirra þykir bæði hæfileikarík og falleg og nóg hefur verið að gera hjá henni undanfarið. Síðast lék hún í írskum sjónvarpsþáttum sem heita Bad Sisters.
Óskarverðlaunaleikkonur og frænkur
Þær Marisa Tomei og Julianne Moore hafa báðar hampað Óskarsverðlaunum en þær eru skyldar. Þetta kom upp þegar Julianne tók þátt í þættinum Finding Your Roots. Þær höfðu leikið saman í myndinni Crazy, Stupid Love árið 2011 og höfðu þá ekki hugmynd um að þær væru frænkur.
Þetta er í ættinni
Enginn ber á móti að hæfileikar erfast og það gera þeir sannarlega í fjölskyldu Sissy Spacek og Rip Torn. Þau eru frændsystkin og hann hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna og hún hlotið þau. Tom, faðir hans, var sá sem opnaði henni leið inn í leiklistina með því að mæla með henni inn í hinn virta skóla Lee Strasberg, Actors Studio.

Bræðurnir með Sophie, systur sinni.
Af kóngafólki
Ralph Fiennes hefur oft sett upp kórónu bæði á sviði og í kvikmyndum. Í hans tilfelli er kóngstitillinn hins vegar ekki eins langsóttur og hjá mörgum öðrum því hann er skyldur bresku konungsfjölskyldunni í áttunda lið. Hann og Karl prins eiga sameiginlegan forföður, James II, konung Skotlands. Sá lést árið 1460 aðeins tuttugu og níu ára að aldri. Fiennes fjölskyldan er hins vegar öll meira og minna á kafi í leiklist en þau eru sex systkinin og Joseph, Martha, Magnus og Sophie Fiennes eru ýmist leikarar eða leikstjórar.
Með leiklistina í blóðinu
Ron Howard er þekktur leikari og leikstjóri. Hann og eiginkona hans Cheryl hafa lýst því yfir í fjölmiðlum að dóttir þeirra, Bryce Dallas, hafi verið getin í Dallas. Hvort það hefur haft áhrif á starfsval hennar er ómögulegt að segja en Bryce Dallas hefur vakið athygli í kvikmyndum á borð við Jurassic World og The Help.

Sarah Sutherland
Frá föður til sonar og svo til dóttur
Allir vita að Kiefer Sutherland er sonur Donalds Sutherlands. Hins vegar þekkja færri dóttur Kiefers, Söruh Sutherland. Hún hefur sýnt góðan leik í Veep og nýlega bárust af því fréttir að hún væri búin að fá hlutverk í Like a House on Fire.
Sterklík systkin
Game of Thrones-serían naut gríðarlegra vinsælda og enn leggst fólk í hámáhorf á henni þegar lítið er að gera. Margir sakna hennar og tala um að ekkert sambærilega vandað og skemmtilegt sé í sýningum núna. Alfie Allen lék Theon Greyjoy með miklum tilþrifum að margra mati. Færri vita að söngkonan Lily Allen er systir hans en þegar vel er að gáð eru þau systkinin sterklík.