Hirðfíflið eftir Önnu Rögnu Fossberg fjallar um flestar sömu persónur og segir frá í Auðnu. Höfundur byggir á fjölskyldusögu sinni og minningum sínum og úr æsku. Hér er athyglinni hins vegar beint að Ingu Stellu og sambandi hennar við foreldra sína. Þetta er nöturleg saga af kynferðisofbeldi og hvernig barn reynir að bregðast við aðstæðum sem það hefur engan þroska til að takast á við.
Faðir Ingu Stellu stjórnar heimilinu, ekki með yfirgangi og látum heldur með hægð og algjörri fullvissu um yfirburðastöðu sína. Bæði móðirin og barnið gangast undir vald hans og það er ógn í andrúmsloftinu þótt hún sé ekki sýnileg. Inga Stella sefur iðulega uppí hjá mömmu og pabba þótt hún sé orðin sjö ára. Eina nóttinu vaknar hún við að pabbi hennar rekur hnéð milli fóta hennar. Mamma hennar verður vör við hvað er að gerast og rífur í handlegg barnsins og skipar því inn í sitt rúm. Upp frá þessu breytist allt. Inga Stella hefur alltaf verið náin föður sínum en upp frá þess fara samskipti þeirra að taka á sig dekkri mynd. Móðirin glímir við fíkn og er því ekki alltaf til staðar.
Hér er fjallað um þöggun í fjölskyldum, dulið ofbeldi og sjúkt samskiptamynstur. Inga Stella gerir sér grein fyrir að það er ekki allt eins og það á að vera en bælir þá tilfinningu staðfastlega og reynir að telja sér trú um að allt sé eðlilegt. Þetta er flókið samspil ofbeldis og ástar. Hún segir sjálfri sér að hún hafi verið við stjórnvölinn, tekið viljug þátt í öllu þegar ábyrgðin var auðvitað fullorðna fólksins. Það átti að stíga inn aðstæður og stöðva það sem gekk á. Barnið skilur ekki fyllilega hvað er að gerast og hvorugt foreldrið virðist vera fært um að takast á við aðstæður. Móðirin er það háð föðurnum, kannski vegna sjúkdóms síns, að hún horfi magnvana á, reynir að kalla í stúlkuna en hún hlýðir ekki, telur að hún sé að hjálpa pabba sínum, veita honum það sem hann þarfnast. Ingu Stellu finnst hún náin föður sínum og að hún eigi og geti tryggt hamingju hans.
Það er alltaf erfitt að lesa frásagnir sem þessa og þær skilja eftir mikla sorg yfir að nokkurt barn skuli enda í svona aðstæðum. Hins vegar eru þær nauðsynlegar því aðeins með því að ræða um ofbeldi, draga það fram og varpa ljósi á eðli þess er mögulegt að útrýma því. Anna Ragna Fossberg sýnir mikið hugrekki og hefur náð að öðlast nauðsynlega þekkingu og skilning á því sem hún gekk í gegnum á barnsaldri til að geta miðlað því af skáldlegu innsæi í bókarformi.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







