Flugeldar frá því snemma á 20. öld

Áður en flugeldar urðu höfuðeinkenni áramótanna einkenndust þau af brennum og álfadansi. Heimildir eru um að eftir miðja 19. öld hafi brennur og blysfarir tíðkast í Reykjavík. Í Morgunblaðsgrein um íslenska áramótasiði, birt 29. desember 1995, segir að Klemens Jónsson (f. 1862) hafi lýst brennunum þannig:

„Þær voru haldnar á gamlárskvöld eða þréttándanum, þar sem helzt bar á þeim, t.a.m. á Hólavelli, við Skólavörðuna eða við Batteríið. Var lítið skemmtilegt við þær, þar sem alltaf var mikið fyllirí, og því oft ryskingar og áflog, en slíkt var reyndar algengt þá.“

Fyrsti álfadansinn var á gamlárskvöld árið 1871 á Tjörninni í Reykjavík, efnt var til hans að frumkvæði pilta í Lærða skólanum í tilefni af frumsýningu Nýársnæturinnar. Guðjón Friðriksson segir frá þessu í ritinu Saga Reykjavíkur:

„Allir Reykvíkingar sem vettlingi gátu valdið, þyrptust út á tunglskinsbjart svellið. Ungir menntamenn og skólapiltar skiptu liði og voru ýmist búnir sem ljósálfar eða svartálfar.“ Álfadansinn var í kringum brennu og voru blys höfð um hönd. Þessi siður breiddist út um landið eins og eldur í sinu.

„Rakettur og dótarí og kínverjar og vesen“

Guido Bernhöft, sem var fæddur 1901, minnist áramótanna á fyrsta tug aldarinnar í sömu Morgunblaðsgrein. Við spurningu um hvort flugeldum hafi verið skotið á loft fyrir árið 1910 sagði hann:
„Já, áramótin voru hefðbundin, það voru rakettur og dótarí og kínverjar og vesen.“ Ekki hafi þó verið mikið um flugelda á þessum tíma, enda eingöngu á færi kaupmanna og betri borgara að „skjóta peningum upp í loftið.“

Í bókinni Reykjavík bernsku minnar ræðir Guðjón Friðriksson við nokkra Reykvíkinga, meðal annarra Ágústu Pétursdóttur Snæland, en hún var dóttir Péturs Halldórssonar sem var borgarstjóri. Ágústa fæddist árið 1915. Í bókinni minnist hún á eftirvæntinguna þegar faðir hennar ætlaði að fara að sprengja á gamlárskvöld í kring um árið 1920. Gunnar Hersveinn, höfundur Morgunblaðsgreinarinnar, hringdi í Ágústu og spurði hana nánar út í þetta:

Það var ekki eins mikið framboð af flugeldum eins og núna. En pabba þótti mjög gaman að sprengja bæði kínverja og púðurkerlingar og annað sem til var. Púðurkerlingarnar fékk hann hjá gömlum manni sem bjó niður á Sellandsstíg sem nú heitir Sólvallagata. Þær voru vafningar með kveik og svo sprakk fyrst einn vafningurinn og síðan hver á fætur öðrum og þeir hoppuðu til á jörðinni eftir því sem þeir sprungu. Þegar pabbi kveikti í vindli á gamlárskvöld vissum við krakkarnir að nú ætti að fara að sprengja og fórum út með honum. Þetta var ósköp lítið og fátæklegt, en feikilega skemmtilegt.

Umhverfisvænni flugeldar framtíðin?

Af öllu þessu má ráða að ærið lengi hafi verið haldið upp á áramótin á Íslandi, og flugeldar verið fastur liður í þeim fögnuði í vel yfir 100 ár. Hvort svo verði næstu 100 árin er þó sennilegast undir því komið að þeir verði umhverfisvænni, enda mikil umræða skapast á síðustu árum um loftmengunina og kolefnislosunina sem flugeldar valda.

Uppruni hefðarinnar

Forn hefð er fyrir því að áramót séu meðal helstu hátíða ársins og á það ekki bara við á Íslandi heldur í nánast öllum samfélögum heims. Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Kínverjar hafa til að mynda eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en þau gera hér á Vesturlöndum. Áramót hafa í gegn um tíðina stundum tengst árstíðum, til dæmis jafndægri á vori (20.-21. mars) til að fagna komu vorsins, eða verið fagnað á hreinum trúarlegum forsendum eins og nýár múslima.

Dr. Árni Björnsson, menningarsögufræðingur og höfundur uppflettiritsins Saga daganna, upplýsir í færslu á Vísindavefnum að í Evrópu var byrjun ársins lengi vel mjög á reiki:

Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og mánaðarheitin bera þess enn merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar. Fyrstu páfarnir héldu sig við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists. Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september, og sumir páfar fylgdu þeim sið.

Í kring um árið 800 fyrirskipaði Karlamagnús Frankakeisari að í ríki sínu skyldi árið hefjast á boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp jóladag sem nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld, en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum.

Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Innocentius páfi 12. ítrekaði þetta boð rúmri öld seinna, árið 1691. Lengi vel sinntu mótmælendur að sjálfsögðu ekki boðum páfa. Þeim mun samt um síðir hafa þótt óhentugt að hafa ekki sömu tímaviðmiðun í suður- og norðurhluta álfunnar. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752, en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783.

1. janúar verið nýársdagur á Íslandi líklega í minnst 500 ár

Árni bætir við að Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið langt á undan öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns Danakonungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum árið 1600.

Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin hét 1. janúar ekki annað en áttundi eða átti dagur jóla. Greinilegt er þó að hann hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“

Um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum er sagt að hann hafi verið vanur að hafa mannfagnað á nýári og ýmsar heimildir eru fyrir áramótaveisluhaldi víða um land á 17. og 18. öld.

Ekki er vitað til þess að áramótabrennur hafi verið haldnar hér á landi fyrr en á ofanverðri 18. öld. Fyrir þann tíma var timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að honum mætti sóa í slíkt. Árið 1791 segir Sveinn Pálsson læknir þannig frá skólapiltum í Hólavallaskóla í Reykjavík: „Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór að hún sést úr margra mílna fjarlægð.“ Talið er sennilegast að „Vulkan“ hafi verið Landakotshæð.

 

Ritstjórn desember 31, 2021 08:11