Tengdar greinar

Birgitta Jónsdóttir fyrrverandi þingmaður

Birgitta Jónsdóttir titlar sig þingskáld í símaskránni. Hún varð þjóðkunn þegar hún settist á þing árið 2009. Það gustaði um hana þau ár sem sat á þingi. Birgitta ákvað að bjóða sig ekki fram í kosningunum 2017. „Ég var búin að fá nóg. Ég er klassískur listamaður og lagði allt í að standa mig sem þingmaður, ég vildi alvöru breytingar í þjóðfélaginu. Þegar ég hætti á þingi var ég komin með kulnun og hef verið að vinna mig út úr henni síðan. Kulnun er grafalvarleg og dregur úr manni allan mátt. En nú er sólin farin að hækka á lofti og ég finn að sköpunarkrafturinn er að koma aftur.“

Birgitta er sannkölluð fjöllistakona, rithöfundur, ljóðskáld, þýðandi, myndlistamaður og grafískur hönnuður.  Hún er að skrifa tvær bækur um þessar mundir aðra um móður sína Bergþóru Árnadóttur vísnasöngkonu og lagahöfund og aðra sem gengur undir heitinu „Hacker in Parlament“ og verður gefin út á ensku. Hún segist vera aðeins á eftir áætlun með bækurnar „Það má kenna kulnuninni um það,“ segir hún og bætir við „annars er ég  nýkomin af bókmenntaráðstefnu í Ástralíu sem var ótrulega gefandi og skemmtileg. „Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um það ekki má tala um, leyndarmálin okkar.  Ég flutti fyrirlestur um sjálfsvíg og hvaða áhrif þau hafa á aðstandendur. Í fyrirlestrinum ræddi ég meðal annars um hvað er að gerast inní manni þegar einhver nákominn fellur fyrir eigin hendi. Eftirlifendur eru fullir af sektarkennd þegar þeirra nánustu fara á þennan hátt. Ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki á ráðstefnunni rithöfundum og stjórnmálamönnum.  Fólki sem brennur í skinninu að breyta og bæta samfélögin sem það er sprottið uppúr.“

Nú er Birgitta á leið á aðra ráðstefnu í Genf í maí. „Skipulag hennar er frekar óvenjulegt að því leyti að maður fær ekki að vita hverjir taka þátt. Það eina sem maður veit er að þeim er boðið sem hafa verið áhrifa- og valdamiklir í þeim þjóðfélögum þar sem þeir búa. Markmiðið er fólk hittist augliti til auglitis og ræði hvað megi betur fara í veröldinni. Það er svo oft sem fólk sem er með ólíkan bakgrunn og ólíkar skoðanir kemst að því að það er sammála um marga hluti ef það nær að tala saman í rólegheitum og án utanaðkomandi áreitis.“

„Ég kynntist líka breskum skáldkonum fyrir ekki svo löngu og ég er að fara að túra með þeim næsta sumar í Bretlandi. Við erum allar talandi skáld. Þegar við flytjum ljóðin okkar er það svolítill performance.“ Þetta verður skemmtilegt ferðalag,“ segir Birgitta.

Annað sem gleður hana þessa dagana er að ný lög um tjáningar- og upplýsingafrelsið eru í bígerð og verða væntanlega samþykkt á yfirstandandi þingi. „Ég flutti þingsályktunartillögu árið 2010 um þetta mál og hún var samþykkt. Nú næstum áratug síðar er þetta að verða að veruleika og lögin koma til með að renna styrkari stoðum undir fjölmiðla og vermd uppljóstrara verður tryggð. Kraftaverkin gerast enn, jafnvel á þingi,“ segir hún og hlær.

Lýðræðið og þróun þess eru Birgittu hugleikin. „Við þurfum að gefa okkur tíma til að hlúa að lýðræðinu. Það geta allir lagt sitt lóð á vogarskálarnar, verið virkir og tekið þátt í umræðunni, látið gott af sér leiða og barist fyrir breytingum. Ég segi stundum að lýðræðið sé eins og garður, ef maður ræktar hann ekki fer allt í órækt og illgresið breiðir úr sér yfir í næstu garða. Ef við hlúum ekki að lýðræðinu fáum við samfélag sem endurspeglar ekki þau gildi sem við viljum halda í heiðri.“

Það er sem sagt í nógu að snúast hjá Birgittu og hún fær fjölda beiðna um að taka þátt í hinum og þessum verkefnum sem snúa að fjölmiðlum, lýðræðinu og fleiru. „Ég á svo erfitt með að segja nei. Oft eru þetta verkefni sem ekkert er borgað fyrir svo enn á ný er ég komin undir fátækramörk. En ég er nú svo sem vön því og kippi mér ekkert upp við það. Það eina sem ég vildi óska að ég hefði getað nýtt af þeirri reynslu sem ég fékk á Alþingi er tengslanetið sem ég aflaði mér. Ég hefði viljað geta nýtt það í þágu þjóðarinnar. Ég kynntist stjórnmálamönnum út um allan heim og margskonar samtökum. Mér finnst leiðinlegt að kasta þessu á glæ. En ég er nú þannig gerð að ef ég fæ ekki byr í seglin sný ég mér að einhverju öðru og það er nóg af skemmtilegum tækifærum í heiminum.“

Ritstjórn apríl 3, 2019 10:09