Lengi var talað um að starfsferill leikara væri stuttur og góðum hlutverkum tæki að fækka strax og miðjum fertugsaldri væri náð. Þetta virðist hins vegar vera að breytast og framleiðendur sjónvarpsefnis og kvikmynda farnir að átta sig á að eldra fólk er verðugur og áhugasamur áhorfendahópur. Á Netflix og Apple TV eru til að mynda sýndar um þessar mundir tvær þáttaraðir þar sem aðalsöguhetjurnar eru komnar hátt á áttræðisaldur.
Þetta eru þættirnir Before og Man on the Inside. Billy Crystal leikur í Before, sálfræðinginn Eli sem virðist tengjast á einhvern undarlegan hátt ungum dreng sem býr í næsta nágrenni við hann. Þetta er einhvers konar blanda af sálfræðitrylli og hryllingsmynd en við ætlum lítið að fjalla um þá þætti heldur einbeita okkur að Man on the Inside. Þar er um að ræða létta og skemmtilega þætti með Ted Danson í hlutverki Charles Nieuwendyk sem ráðinn er af einkaspæjara til að fara inn á elliheimili og hjálpa henni að rannsaka þjófnað á verðmætu hálsmeni.
Þótt þættirnir séu í léttum dúr er hér engu að síður fjallað um alvarlega hluti tengda ellinni. Charles hefur nýlega misst eiginkonu sína og er ákaflega einmana. Hún hafði verið mikil félagsvera en hann er hlédrægur og hún sá að mestu um halda uppi félagslífi þeirra. Hún hafði hins vegar verið greind með alzheimer og lést úr sjúkdómum tengdum honum. Hann er verkfræðingur að mennt og lengst af starfsævinni verið prófessor við tækniháskóla. Emily, dóttir hans, hefur orðið áhyggjur af honum því svo virðist að hann hafi ekkert annað að gera en að klippa greinar út úr blöðum og senda henni með skilaboðum um að þarna sé á ferð áhugavert efni. Hún hvetur hann til að finna sér eitthvert tómstundagaman og þegar Charles sér auglýsingu frá einkaspæjaranum Julie Kovalenko verður úr að hann tekur að sér að fara inn á Pacific View-elliheimilið sem vistmaður en vera í raun „under cover“ í leit að þjófnum.
Lærir að lifa á ný
Charles er í fyrstu mjög óöruggur í hlutverki njósnarans en aðrir íbúar Pacific View draga hann smátt og smátt út úr skelinni. Hann reynir margvíslega hluti sem honum hefði aldrei dottið í hug að prófa og eignast vini. Michael Schur er höfundur handrits en hann skrifaði meðal annars þættina Brooklyn Nine-Nine sem sýndir voru hér í sjónvarpinu. Hugmyndina fékk þegar hann sá heimildamyndina The Mole Agent en hún fjallar um einspæjara í Chile sem réði eldri mann til að fara inn á hjúkrunarheimili til að rannsaka misferli er þar áttu sér stað.
Ted Danson er frábær í hlutverki Charles, nær að gera hann kómískan en jafnframt ákaflega aðlaðandi og skemmtilegan mann. Hann nær einnig að sýna ákaflega vel hvernig Charles smám saman öðlast meira sjálfstraust og fer að átta sig á að hann verður sjálfur að skapa sér lífsfyllingu. Hann hættir að tóra og fer að lifa lífinu að nýju. Þetta eru gamanþættir sem snúast ekki um fíflagang eða læti heldur er mannleg hlýja og tengsl kjarninn og þarna er kímni frekar en skellihlátur. Hér eru líka til umfjöllunar viðkvæm og sérlega manneskjuleg þemu, einmanaleiki, erfiðir sjúkdómar, rofin fjölskyldutengsl og ýmsir kvillar tengdir ellinni. Þeir geta verið pirrandi en lífið er engu að síður þess virði að lifa því.
Elliheimilið Pacific View er rekið af konu að nafni, Didi, hana leikur Stephanie Beatriz, sem margir íslenskir sjónvarpáhorfendur þekkja sem Rosu í Brooklyn Nine-Nine. Didi er hins vegar algjör andstæða rannsóknarlögreglukonunnar hvössu og skapbráðu. Didi er hlý, öll af vilja gerð að leysa vandamál skjólstæðinga sinna og ávallt tilbúin að bæta líðan þeirra og aðstæður. Marga fleiri þekkta og skemmtilega bandaríska sjónvarpleikara má sjá þarna og það gefur þáttunum aukna dýpt og vægi hvað þau eru öll sannfærandi og virðast njóta sín vel í hlutverkum sínum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.M