Fólkið okkar á betra skilið

Rannveig Ernudóttir

 

Rannveig Ernudóttir, tómstundafræðingur 4. sæti hjá Pírötum í Reykjavík skrifar:

 

Ég varð skelfilega einmana fyrir sjö árum, þegar amma mín dó. Í kjölfarið ákvað ég að mitt framtíðarstarf yrði að vinna fyrir eldri borgara. Það hef ég nú gert í fjögur ár sem tómstundafræðingur. Amma mín bjó á Háteigsvegi framan af en flutti síðar í Hvassaleiti. Á Háteigsveginum átti ég margar ljúfar stundir og á ég þaðan góðar minningar sem kalla fram bros þegar ég rifja upp æskuárin hjá ömmu og afa. Þar kenndi amma Rannveig mér að prjóna, sauma og hekla og þar drullumallaði ég í blómabeðunum hennar ömmu, milli þess sem hún miðlaði lífsreynslu sinni.

Borgþór afi var mikill fræðimaður og starfaði sem veðurfræðingur. Hann var mér alltaf innan handar þegar ég þurfti á aðstoð að halda í skólanum, eða við að leysa lífsins gátur og var hann minn lærimeistari. Fyrir okkur systkinin og mömmu okkar var það því sár missir þegar hann féll frá haustið 2002.

Amma ákvað, stuttu eftir andlát afa, að selja fína Háteigsveginn og flytja í eldri borgara íbúð í Hvassaleitinu. Íbúðin var alveg ágæt, ekkert í líkingu við Háteigsveginn þó, en amma var ánægð og spennt, minnkaði við sig og í húsinu var þjónusta sem hentaði henni. Mér þótti hins vegar alltaf mjög undarlegt að þótt hún ætti Háteigsveginn, sem var fín hæð í Hlíðunum, að þá þurfti hún að borga með sér inn í Hvassaleitið. Þetta þóttu mér ekki sanngjörn skipti og þetta angraði mig. En amma kvartaði ekki, enda afskaplega geðgóð og þakklát manneskja. Mér þótti reyndar leitt að hún skyldi ekki nýta betur það félagsstarf sem bauðst henni í húsinu en það var á þeim tíma ekki af skornum skammti. En amma var sátt, af því að við vorum svo mikið saman. Við áttum okkar gæðastundir saman daglega. Ég kom með börnin mín og við borðuðum saman í hádeginu, fórum saman í búðina, stundum keyrði ég hana til læknis eða fór með henni í göngutúra ásamt vinkonum hennar. Ef ég komst ekki til hennar, þá heyrðumst við í síma. Amma var í mínum huga ímynd hinnar fullkomnu ömmu og hún átti allt það besta skilið í lífinu, svo ég lagði mig fram við að sjá til þess að þannig væri það. Síðar meir annaðist ég hana á dánarbeðinu ásamt mömmu minni og gat kvatt hana með sátt í hjartanu.

Samvera mín og uppeldi hjá ömmu hefur verið mitt leiðarljós í mínu starfi. Ég lít sem svo á að ég vinni fyrir eldri borgara og þá við að veita þeim þjónustu svo þau njóti lífsins, sama hvaðan þau koma. Ég veit hversu mikilvægt gott félagsstarf er ásamt annarri þjónustu sem þarf einnig að vera í lagi. En hér vil ég ræða sérstaklega félagsstarfið.

Í náminu sem og starfi mínu, horfði ég upp á breytingar í félagsstarfi eldri borgara, breytingar sem ég tel ekki að hafi verið til góðs. Þó margt sé jákvætt að þá vantar mikilvæga þætti til að geta boðið eldri borgurum, í félagsmiðstöðvum borgarinnar, upp á gott félagsstarf. Því ákveðið var, árið 2011, að félagsstarf eldri borgara ætti að vera sjálfbært. Sjálfbært félagsstarf er flott hugmynd en virkar heldur takmarkað. Meðal þess sem glataðist við það að breyta félagsstarfinu með þessum hætti, eru leiðbeinendur í vinnustofunum. Í staðin eru ráðnir virkniþjálfar (ég) sem eiga að sjá um félagsstarfið og vinnustofuna og þótt ég sé svo sannarlega fær með prjónana að þá er ég fyrst og fremst tómstundafræðingur en ekki fjölhæf listakona eða handavinnukennari, því miður. Ég má ekki ráða fólk í vinnustofuna, hvorki í full störf né hlutastörf, það má bara ráða verktaka sem halda þá námskeið. Það er hins vegar of tilviljanakennt að finna einstaklinga sem eru tilbúnir í verktakavinnu inn á vinnustofurnar og það er ekki boðlegt að bjóða fólki upp á félagsstarf sem er byggt á tilviljunum. Það sem við höfum eftir þessa breytingu, er tóm vinnustofa því það eru ekki neinir leiðbeinendur og ef þátttaka á vinnustofunni er léleg þá smitar það út frá sér í félagsstarfið og er það heilmikil vinna að virkja heilt hús af eldri borgurum þegar vinnustofan er vanvirk. Fyrir nú utan það hversu dapurlegt það er að horfa upp fína vinnustofu sem ekki er nýtt.

Við ættum að hverfa frá sjálfbæru félagsstarfi og ráða aftur til okkar starfsfólk á stofurnar, því flestir vilja jú frekar starfsöryggi sem og að vera hluti af vinnustaðamenningu. Fólkið okkar sem vill sækja vinnustofurnar, það vill líka fá aðgang að leiðbeinendum eða kennurum. Sjálfbært félagsstarf er hugmynd sem er falleg en hefur takmarkaða getu til að standa undir sér. Þessi breyting var auðvitað ekkert annað en sparnaður klæddur í töff hugmyndafræði á sínum tíma. En tilraunin mistókst. Það er ekkert að því að efla hana þar sem við á, en við eigum ekki að byggja allt okkar félagsstarf á þeirri hugmyndafræði. Fólkið okkar á betra skilið og starfsfólkið getur gert enn betur með réttum verkfærum.

 

Ritstjórn maí 14, 2018 10:34