Þögn

Hallgrímur Jónasson

Hallgrímur Jónasson eldri borgari í Reykjavík, sendi Lifðu núna þessar hugleiðingar um málefni hjúkrunarheimilanna.

Það hefur vakið furðu mína hversu lítið hefur heyrst frá félagasamtökum eldri borgara um það sem er að gerast með rekstur hjúkrunarheimila í landinu. Lengi hafa þau glímt við fjárhagsvanda þar sem fjárframlög ríkisins hafa engan vegin dugað fyrir rekstrarkostnaði. Sveitarfélög hafa því þurft að leggja til umtalsverða fjármuni til að ná endum nokkurn veginn saman.

Það sem gerðist með rekstur hjúkrunarheimilanna á Akureyri fyllir mælinn að mínu mati. Hjúkrunarheimilin þar hafa verið „model“ og fyrirmyndir annarra um hvernig búa á að okkar elstu og veikustu þjóðfélagsþegnum. – Er það bara eðlilegt að sveitarfélag gefist upp á samningaferli við ríkið og segi sig frá málum? Ég segji nei –. Sveitarfélag eins og Akureyri hlýtur að hafa skyldum að gegna gagnvart fólki á hjúkrunarheimilum í sveitarfélaginu eins og öðrum með lögheimili þar. Flestir íbúar á hjúkrunarheimilum bæjarins hafa greitt skatta sína til Akureyrar alla sína starfstíð og gera það enn. Að hlaupa svona undan merkjum eins og bæjaryfirvöld á Akureyri gerðu, er ekkert annað en svik við veikustu íbúana. Skömm sé þeim.

Það þarf að spyrna við fótum og krefjast úrbóta þegar í stað. Það verður þá bara að malbika aðeins minna og setja nauðsynlegt fjármagn til reksturs hjúkrunarheimilanna í samræmi við lög og reglugerðir. Manneskjur frekar en malbik. Aðgerða er þörf strax.

Ég ítreka undrun mína á þögn félagasamtaka eldri borgara um allt land. Það stendur engum nær en samtökum eldri borgara að hafa frumkvæði að vitundarvakningu um dapra stöðu þessara mála. Við eldri borgarar erum líklegastir til að bætast á biðlistana eftir  umönnun.

Ég skora á allt það góða fólk sem gaf kost á sér og var kosið til forustu í stjórnum og öldrunarnefndum félaga eldri borgara svo ekki sé minnst á forustusveit samtaka félaganna, að láta duglega í sér heyra og krefjast tafarlausra úrbóta og stöðva þann framgang sem hófst á Akureyri.

Það er þjóðfélagi okkar til vansa hvernig málefni hjúkrunarheimilanna eru að þróast og í mínum huga einhver hugsanavilla stjórnvalda sem ræður þar för.

 

Ritstjórn júní 30, 2021 10:37