Tengdar greinar

Förðun sem endist og endist

Þórhalla að tattúera.

Eitt af því sem fylgir hækkandi aldri er að augabrúnirnar þynnast og það sama gildir um varir auk þess sem litur þeirra fölnar. Sumum finnst þetta í góðu lagi en öðrum finnst þetta frekar leiðinlegt og vilja tefja þessa þróun. Á snyrtistofunni Lipurtá í Hafnarfirði starfa tveir snyrtifræðimeistarar Þórhalla Ágústsdóttir og Hrund Rafnsdóttir sem hafa í tvo áratugi tattúerað augabrúnir, augnlínur og varir á hundruð kvenna og karla. Við hittum aðra þeirra að máli,  hana Þórhöllu framkvæmdastjóra og eiganda Lipurtáar.

Tattúerað í 20 ár

Augabrúnir sem búið er að tattúa.

„Ég er búin að gera varanlega förðun í tuttugu ár. Tattúið kom inn í fagið á sínum tíma og sumar tóku það inn og aðrar ekki. Það eru alls ekki allir sem hafa áhuga á að tattúa því þetta er gríðarlega mikil nákvæmnisvinna og það þarf mikla þjálfun til að gera þetta vel,“ segir Þórhalla sem segist í upphafi hafa lært handtökin á Íslandi en síðan farið erlendis til að læra meira. „Síðast liðin fjögur ár höfum við farið tvisvar á ári til Serbíu til að viðhalda þekkingunni og læra meira. Ástæðan fyrir því að við förum þangað er að kennarinn okkar Branko Babic eigandi Phibrows er búsettur þar og og er með eitt stærsta „microblading“ Akademy í heiminum.“ Hún segir að augnabrúna og varatattú hafi þróast mikið á þessum tveimur áratugum. „Við notuðum vélar til að tattúera með en það nýjasta í augabrúnum er svokölluð microblading. Það er mikill munur á hvað vélin gerir miklu grófari hárlínur en þessi örþunnu blöð sem notuð eru í microblading. Aðferðin felst í því að gera örfínar hárlínur á milli ekta háranna í augabrúnunum til að móta og gera augabrúnirnar þykkari eða í stað hára sem ekki eru til staðar. Við notum lítið handstykki sem sett er í nál með örfínum nálaroddum sem dýft er í litinn og síðan gerðar fínlegar strokur sem festast í húðinni og líta út eins og hár,“ segir Þórhalla og bætir við að öll áhöld og hlutir sem notaðir eru við meðferðina eru einnota, innsigluð og dauðhreinsuð sem sé mikið atriði. Einnig séu allir litir frá Phibrows með lífræna vottun og án allra aukaefna sem valda því að liturinn upplitist.

Það er hægt að tattúa misbreiðar línur á augnlokin.

Notum ekki svartan lit

Þórhalla segir að það séu konur á öllum aldri sem komi og láti laga á sér augabrúnirnar. Ungu konurnar komi vegna þess að þær vilji vera með vel mótaðar brúnir, konur sem hafi fengið krabbamein eða aðra sjúkdóma sem valdi hárlosi í augabrúnunum komi til að láta setja á sig brúnir. Það er töluvert um að að konur sem hafa misst hárið vegna sjúkdóma eða lyfjameðferðar komi til okkar. Það er gott að láta setja línuna í brúnirnar áður en hárið fer, ef því verður við komið. Þá er öruggt að þegar hárin koma aftur vaxa þau í línuna. Hægt er að setja augabrúnalínuna í á meðan á lyfjameðferð stendur og erum við samþykktir meðferðaraðilar hjá hjá Tryggingastofnun Íslands vegna endurgreiðslu meðferðarinnar. En konur sem komnar eru á miðjan aldur eru fjölmennasti hópurinn sem kemur í varanlega förðun á Lipurtá. Þær vilja láta þétta brúnirnar og móta þær. „Konur eru ekki að láta gera á sig svartar brúnir. Við notum ekki einu sinni svart, litaskalinn er frá ljósljósbrúnum upp í dökkbrúnt. Við hjálpum til að velja réttan lit út frá húð og háralit viðkomandi. Við byrjum á að teikna upp brúnirnar og mæla þær í ákveðnu appi sem notað er við mælingar. Við byrjum aldrei að tattúera fyrr en viðskiptavinurinn er orðin ánægður með það sem hann sér.“  Að fá varanlega förðun á augabrúnirnar tekur tvö skipti um það bil klukkustund í senn og líður mánuður á milli meðferða. „Við förum mjög varlega í litinn í fyrra skiptið og bætum frekar í í seinna skiptið ef fólki finnst liturinn ekki nógu og sterkur. Annars er seinna skiptið svona oftast smávægileg fínpússning.“

Getum fjarlægt tattú

Tattúið skýrir útlínur varanna og hægt að velja mismunandi liti á varirnar.

En hvað ef mistök eiga sér stað? Þórhalla fer að hlæja og segir að hún muni ekki til þess að það hafi orðið stór mistök. Það þarf að fara oft ofan í sömu hárlínuna til að festa litinn svo þó að gerð sé ein lína sem ekki á að vera þá hverfur hún á fyrstu dögunum á eftir „Við erum samt með efni til að fjarlægja tattú, þannig að ef svo færi að einhver yrði óánægður er hægt að fjarlægja tattúið. Það gerist samt ekki á einum degi heldur verður viðkomandi að koma nokkrum sinnum.“  Einnig er hægt að fjarlægja gamalt óæskilegt tattú með þessari aðferð sem kemur einnig frá Phibrows Akademy. En það eru ekki bara augabrúnir sem fólk vill láta laga. „Þegar við eldumst koma litlar línur í kringum varirnar og varaliturinn á til að smitast út í þær. Tattúið getur bjargað því. Annars gilda sömu reglur um augnlínur og varir. Við byrjum á að teikna upp  varirnar og finna réttan lit það er algengt að konu vilji fá skýra varalínu sem annað hvort stækkar eða lagfærir varirnar. Sumar konur vilja breiðar augnlínur aðrar mjóar það er allur gangur á þessu.,“ segir þórhalla.

Endist í eitt til þrjú ár

Tattúið endist í eitt til  þrjú ár. Microblade tattooið fer grynnra í húðina en vejulegt húðflúr og þess vegna dofnar það með tímanum og til að það haldist fallegt þarf að fríska það upp. „Þá kemur fólk á eins til þriggja ára fresti og lætur endurnýja,“ segir Þórhalla.  En fylgir tattúinu einhver áhætta. Þórhalla segir að húðin sé rofin þegar fólk fær sér tattú. Slíku geti fylgt sýkingarhætta, þess vegna sé mikilvægt að fólk fylgi þeim leiðbeiningum sem það fær um eftirmeðferð. Allir sem komi í tattú fá sótthreinsandi og græðandi krem með sér heim sem eigi að bera á kvölds og morgna og einnig fylgir með upplýsingablað um heimameðhöndlun. En fólk verður samt að hafa í huga að það má ekki fara í líkamsrækt eða sund í viku eftir meðhöndlun.

Til að sjá hvað meðferðir af þessu tagi kosta er hægt að inn á heimasíðu Lipurtár hér. 

Ritstjórn nóvember 10, 2017 10:09