Fórnarleikar er ný skáldsaga eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Í sögunni segir frá Magna sem býr sig undir að skrifa skáldsögu út frá efni sem fannst á rykföllnum segulbansspólum upp á háalofti. Í sögunni er sögð saga fimm kynslóða og sýnir á áhrifaríkan hátt hvernig ákvarðanir jafnt sem tilviljanir lita samskipti hjóna og sambönd foreldra og barna. Við grípum hér niður á tveimur stöðum í bókinni.
Magni. Ég sting lyklinum í skrárgatið og hitar í kinnarnar, útiveran hressir. Áður en ég sný lyklinum staldra ég við, eitthvað heldur aftur af mér. Kvíði. Fjárans kvíðinn gýs upp allt í einu og njörvar mig niður. Handan hurðarinnar bíður … eitthvað hvimleitt. Ég er auðvitað ekki forspár og þessi hugdetta mín hefur einfaldlega orðið til í skjóli gamallar reynslu. Eitthvað vakti fyrir Bettý þegar hún kom heim í kvöld, eitthvað gerst sem hún reyndi að segja mér á sinn klaufalega hátt, en ég var ekki móttækilegur. Vildi ekki láta raska ró minni. Bettý á það til að gera úlfalda úr mýflugu. Áður fyrr skaut það mér skelk í bringu, svo var eins og ég vendist því og dofnaði, og hugsaði um það eitt að láta Bettý ekki trufla mig með einhverju sem mér fannst vera ýkjur. Ég skyldi þó ekki vera búinn að missa hana frá mér? Ég sný lyklinum í skránni og stíg innfyrir þröskuldinn, ríf mig úr frakkanum og hendi loðhúfunni upp í hillu, stika inn í stofuna. Ekki var Bettý þar. Ekki í eldhúsinu. Ekki heldur upp í svefnherberginu. Líkast til farin. Ég mun aldrei sjá hana framar og læt fallast á hjónarúmið. Það hlaut að enda svona.
Ég hendist upp úr rúminu. Maður má við öllu nema aðgerðarleysi og er kominn að fataskápnum, ríf skápshurðina upp og uppgvötva mér til furðu að föt Bettýar hanga í snyrtilegri röð á herðatrjánum. Ég rýk fram á stigapallinn og kalla. Ekkert svar. Dyrnar að baðherberginu standa opnar í hálfa gátt, ég ýti hurðinni gætilega upp, Bettý liggur á gólfinu og að því er virðist í öngviti, andlit hennar er kríthvítt. Hún liggur í þannig stellingu að líkast til hefur hún lyppast niður en ekki skollið í gólfið. Liggur í ælu sinni, og ég hika. Hvernig á ég að bera mig að? Ég klappa henni á kinnarnar hvað eftir annað. Ekkert geirst. Gripinn panikk læsi ég fingrunum utan um tannburstaglasið mitt, fylli það með vatni og skvetti framan í hana, fylli aftur og skvetti. Bettý sýpur hveljur og glennir augun upp. (31-32)
Ég sit við eldhúsborðið með hönd undir kinn og horfi stíft faman í Bettý sem sötrar bjór og vefur hárlokk um fingur sér. Ég er búinn að spyrja hvort henni finnist ekki fullsnemmt að byrja að drekka að morgni dags, hvað hafi eiginleg komið yfir hana í gær, og hún kveðst hafa drukkið frá sér ráð og rænu til að gleyma öllu helvítis ruglinu.
Ég verð eitt spurningamerki í framan því að ég veit ekki um hvaða „rugl“ hún er að tala. Það er ekki að ég efist um tilvist þess, vel má ver að eitthvert rugl sé á mér eða Þorra. Ef til vill er Bettý loksins búin að fá sig fullsadda af stelpunum sem sitja um son okkar, eru síhringjandi, meira að segja á matmálstímum, og eru einhvern veginn alltaf nálægar, þó að þær séu ósýnilegar. Svo er ekki útilokað að ég hafi gert eitthvað á hlut hennar, sem ég hef ekki hugmynd um hvað er, kannski að hún líti á sem algert rugl skrif mín og „andlega fjarveru“ eins og hún kallar það, þegar ég er kominn á bólakaf í sögu. Ég er þegar kominn með sektarkennd.
-Mér var sagt upp í vinnunni, segir Bettý hryssingslega.
Andartak finnst mér eins og ég svífi í lausu lofti og á vont með að fóta mig aftur. Þetta var það síðasta sem mér hefði dottið í hug, reyndar aldrei hvarflað að mér eitt andartak að henni yrði einhvern tímann sagt upp. Ég hélt að hún væri ómissandi á vinnustað sínum eins og hún var mér ómissandi. (70-71)