Myrkir músíkdagar eru á næsta leyti og í tilefni af því verður blásið til sérstakrar foropnunar á Borgarbókasafninu Grófinni sunnudaginn 25. janúar milli kl. 15:00 – 16:00.
Gestum og gangandi gefst þar tækifæri að skoða einstök verk úr smiðju listafólksins Lilju Maríu Ásmundsdóttur og Jespers Pedersen.
Lilja sýnir innsetninguna Hidden Trails (ísl. Huldar slóðir), sem samanstendur af lágstemmdri hljóðmynd og fjölbreyttum áþreifanlegum skúlptúrum sem framkalla hljóð við snertingu og meðhöndlun.
Bæði hljóð- og hugmyndaheimur innsetningarinnar sækir innblástur til bókasafna og þætti þeirra í hversdeginum.
Jesper sýnir verkið Lóðrétt hljómekra, fjölrása hljóðinnsetningu fyrir hátalara og söngskálar. Verkið teygir sig yfir allan stigaganginn í Grófarhúsi og myndar hljóðrænar tengingar milli hæða hússins.
Hlustendur fá tækifæri á að upplifa rýmið á nýjan hátt, í formi lóðréttrar hljómekru, sem býður þeim upp á einstakra nærveru og djúpa hlustun.
Því er óhætt að lofa myndrænni og hljóðrænni veislu á Borgarbókasafninu Grófinni næstkomandi sunnudag.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Öll hjartanlega velkomin.
Um listafólkið:
Lilja María Ásmundsdóttir vinnur gjarnan með skúlptúrísk einkenni hljóðs og efnis. Verk hennar taka á sig form innsetninga, hljóðskúlptúra, tónverka og sýninga þar sem ýmsar listgreinar mætast. Verkin eru hönnuð út frá því að skapa ferli sem varpa ljósi á hvernig hugmyndir verða til út frá því að vinna með mismunandi efnivið, í flæði á milli einstaklinga og í samhengi við umhverfi sitt.
Jesper Pedersen er tónskáld, hljóðlistamaður og kennari sem sérhæfir sig í hljóðgervlum, rafmiðlum og tilraunatónlist. Hann kennir nýmiðlatónsmíðar við Listaháskóla Íslands og hefur komið víða fram með eigin verk sem og í samstarfi við aðra listamenn. Verk hans kanna tengsl milli tækni, rýmis og skynjunar og skapa einstaka hljóðupplifun fyrir áhorfendur.
Nánar um sýningar Lilju og Jespers á heimasíðu Borgarbókasafnsins:
www.borgarbokasafn.is







