Misráðið að efna til sérframboðs eldri borgara

Umræða um sérframboð eldri borgara til Alþingis er ekki ný af nálinni og á landsfundi Landssambandsins á Selfossi í maí síðastliðnum var samþykkt tillaga um að stjórn Landssambandsins kannaði hvort eldri borgarar ættu að bjóða fram sérlista í kosningunum framundan. Málið er í athugun hjá stjórninni, en í vetur var gerð skoðanakönnun þar sem kannað var hvort menn vildu að eldra fólk færi í sérframboð og hvort menn myndu kjósa slíkt framboð. 44% voru hlynntir sérframboðinu, 19% andvígir. Hins vegar voru það einungis 15% sem töldu líklegt að þeir myndu kjósa slíkt framboð, en 67% sögðu það ólíklegt.

Helgi Pétursson

Margra ára fundahöld hafa engu skilað

Helgi Pétursson segir málið í athugun hjá stjórninni en hans skoðun er sú að við búum við mjög skert lýðræði og vaxandi áhugaleysi á lýðræðislegri umræðu og að það sé afar misráðið að efna til sérstaks framboðs eldra fólks. „Hér er ekki jafn atkvæðisréttur og fræðimenn benda á að fyrir eru á fleti fulltrúar gríðarlegra hagsmuna, sem ekki telja þörf á breytingum, sem gætu til dæmis aukið fjárhagslegt jafnræði meðal þjóðarinnar. Ég tel ljóst að framboð eldra fólks myndi leggja áherslu á breytingar á að minnsta kosti þremur kerfum sem hafa þróast á þeirra vakt, lífeyriskerfinu, fiskveiðistjórnunarkerfinu og heilbrigðiskerfinu. Þær breytingar myndu kalla á aukningu eða tilfærslu á fjármunum, sem ekki er áhugi meðal ráðandi afla að láta af hendi. Beinast liggur við að nefna 45,5 milljarða skerðingar á lífeyri eldra fólks, sem Grái herinn freistar nú að sækja fyrir dómstólum. Margra ára fundahöld um kjaramál eldra fólks með fjármálaráðuneyti hafa engu skilað. Viðbrögðin eru að mínu viti hreinn dónaskapur af hálfu ráðamanna og illvilji ef ekki vill betur,“ segir Helgi.

Langsótt að fá fólk til að vinna nætur og daga

Hann bendir á að andstæðingar okkar í þessum slag séu engir kjánar. Þeir hefji kosningabaráttu sína innan skamms með fullar hendur fjár af opinberu fé, sem stjórnmálaflokkarnir hafi skammtað sér úr ríkissjóði. „Her aðstoðarmanna ráðherra, formanna flokkanna, og þingflokkanna breytast við þessar aðstæður í kosningamaskínur flokkanna á fullum opinberum launum með biðlaunum. Munið að þetta eru tugir manna, gjarnan ungar konur og karlar sem flokkarnir eru að ala upp með almannafé. Líka okkar,“ segir Helgi.

„Gefum okkur samt að okkur tækist að manna það gríðarlega verkefni að stofna stjórnmálaflokk. Bara það að fá fólk til þess að vinna daga og nætur í nokkra mánuði er afar langsótt að mínu viti og trúlega ekki á dagskrá eldra fólks sem margt hvert veit vel hvað um er að ræða eftir að hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi á yngri árum. Sú holskefla af illmælgi, svívirðingum og hreinu og kláru níði sem nú birtist á svokölluðum samfélagsmiðlum gegn fólki sem tekur þátt í stjórnmálum er fáheyrt meðal þjóða sem kalla sig siðaðar. Og hagsmunaöflin munu ekki láta sitt eftir liggja.“

Guðrún Benediktsdóttir

Hvað er það sem þið ætlið að taka frá unga fólkinu? 

Helgi óttast líka að það sé mjög einfalt í pólitíkinni að stilla upp kynslóðum gegn kynslóðum enda séu hér heilu stjórnmálaflokkarnir sem lifi á því að ala á misklíð milli þéttbýlis og dreifbýlis í okkar fámenna landi. „Gleymum því ekki að stjórnmálaflokkur eldra fólks yrði ógn. Það var einhver sem sagði að framboð eldra fólks gæti tekist, ef það væri smart gert. Spurningin sem gerir út af við framboð eldra fólks á fyrsta degi er: Hvað er það sem þið ætlið að taka frá unga fólkinu?“ segir Helgi.

Lifðu núna ræddi einnig við þrjá formenn félaga eldri borgara um sérframboð eldri borgara til Alþingis.

Guðrún Benediktsdóttir formaður félagsins á Fljótsdalshéraði svaraði því neitandi þegar hún var spurð hvort eldri borgar ættu að efna til sérstaks framboðs til Alþingis. „Við höfum ekki úr neinu fjármagni að spila og kostnaður er mikill við sérframboð til þings,“ sagði hún og bætti við að mörg mál hvíldu þungt á eldra fólki, svo sem eins og kjörin almennt. Hún hefði hins vegar ekki skothelda lausn á því hvernig við gætum vakið athygli á málum okkar svo úrbætur fylgdu.

Ragnar Jónasson

Margir trúa á sinn flokk og halda áfram að kjósa hann

Ragnar Jónasson, formaður félagsins í Kópavogi, segist heldur ekki hafa mikla trú á framboði eldri borgara til Alþingis. „Þetta yrði sennilega áhrifalítið framboð sem fengi kannski 2–3 fulltrúa inn á þing. Það myndi ekki breyta högum okkar mikið. Fullorðið fólk á það helst sameiginlegt að vera fullorðið. Baráttumálin myndu tengjast eldri borgurum og stöðu þeirra gagnvart fjármála-, félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti. Svo eru ótal önnur málefni sem fengist er við í þinginu sem mjög ólíkar skoðanir kynnu að vera á. Mjög margir trúa á sinn flokk og kjósa hann áfram hvað sem á gengur frekar en eitthvert sérframboð eldri borgara,“ segir Ragnar. Hann segist ekki hafa neina eina lausn á því hvernig koma eigi á framfæri helstu málum sem varða stöðu eldra fólks í samfélaginu.

Þorgrímur Óli Sigurðsson

Formaður félags eldri borgara á Selfossi, Þorgrímur Óli Sigurðsson, er einnig andvígur sérframboði eldri borgara til Alþingis. En hvað vill hann þá gera til að vekja athygli á málefnum eldra fólks? „Ég geri ráð fyrir að í flestum ef ekki öllum stjórnmálahreyfingum starfi margt eldra fólk. Sterkast er að það fólk láti að sér kveða, hver í sinni hreyfingu, og komi þar að sameiginlegum stefnumálum eldra fólks. Sú ályktun sem samþykkt var á landsfundi LEB á Selfossi um þau fimm áhersluatriði sem sett verða á oddinn í næstu alþingiskosningum er gott veganesti. Mín hugmynd, sem ég hef talað fyrir, er að fulltrúar allra félaga eldri borgara mæti á alla fundi stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga og leggi áherslu á þessi fimm atriði. Félög á Suðurlandi hafa ákveðið að fara þessa leið og skipta með sér verkum hver á sínu svæði. Með því að leggja áherslu á málefni eldra fólks á slíkum fundum eru það ekki bara þeir sem eru í framboði sem fá skilaboð, heldur líka almenningur sem sækir fundina,“ segir Þorgrímur Óli.

Hvað á þá að gera?

Ef niðurstaðan er sú að ekki verði farið í sérframboð eldri borgara fyrir kosningar, hvað finnst fólki að eigi þá að gera? Ragnar Jónasson segir að það þurfi að halda áfram að skrifa í fjölmiðla og tala við stjórnmálamenn eins og gert hafi verið. „Kannski mætti líka efna til innifunda og útifunda, jafnvel með mótmælum og hávaða. Þingmenn og flokkar vilja fá atkvæðin okkar til að komast til áhrifa sjálfir. Það mætti mótmæla framtaksleysi stjórnmálamanna í málaflokknum með því að mæta á kjörstað og skila auðu. Þannig mætti sýna óánægju og óbeit á þeim sem hafa lofað svo mörgu en ekki staðið við nema hluta loforðanna. Hafa þingmenn bara áhuga á fullorðnu fólki á kjördegi? Hefur það áhuga á þeim? Ættum við að skila auðu?“ spyr Ragnar.

Helgi Pétursson, formaður Landssambandsins, sagði þetta um aðferðirnar sem eldra fólk þurfi að beita.

„Við eigum að tala af yfirvegun og kurteisi með hæfilegum húmor við alla. Við, eins og önnur almannaöfl, höfum þurft að liggja lágt og lítið látið á okkur kræla. Færri vita að við erum búin að kynna áhersluatriði eldra fólks fyrir komandi kosningar fyrir öllu stjórnmálaumhverfinu, atvinnulífinu, sveitarstjórnum og verkalýðshreyfingu. Strax og aðstæður leyfa förum við á stúfana og nýtum til þess heimasíður okkar, efnum til funda og virkjum keðju 56 félaga eldra fólks um allt land. Eitt sterkasta vopnið sem við eigum er að minna okkar fólk á að fylgjast vandlega með því sem stjórnmálaflokkar boða í breytingum á högum eldra fólks í landinu og kjósa samkvæmt því. Þar eru rúmlega 55 þúsund kjósendur sem fylgjast með.“

Ritstjórn ágúst 6, 2021 07:00