Voru að hugga hvort annað og giftust

„Við erum hátt uppi alla daga“, segir Regína Birkis þegar blaðamaður lítur inn til hennar og eiginmannsins Guðbergs Haraldssonar, en þau búa á 12.hæð í Árskógum í Mjódd. Húsið er ætlað sextugum og eldri og er tengt félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar í Mjóddinni.  Þau eru glæsilegt par. Hún er nýkomin úr boccia en hann hafði verið úti að pútta, á milli rigningarskúra, áður en blaðamann bar að garði. Útsýnið úr íbúðinni er frábært, þau sjá Snæfellsjökul, Esjuna og Bláfjöllin út um gluggana á íbúðinni.

Í stofunni í Árskógum

Misstu maka um svipað leyti

Þau Regína og Guðberg voru lengi samstarfsmenn hjá Reykjavíkurhöfn. Hún var ritari hafnarstjóra en hann verkstjóri í véladeildinni í Örfirisey.  Þau þekktust því vel.  Þau misstu maka sína um svipað leyti, Regína eftir 36 ára hjónaband en Guðberg eftir rúmlega 40 ára hjónaband.  „Þetta þróaðist stig af stigi“, segir Guðberg.  Þau fóru að fara saman út að borða og fundu út að þau áttu vel saman. Börnin þeirra samlöguðust vel, en Regína á þrjú börn og Guðberg átti tvo syni, en annar þeirra er fallinn frá. Samanlagt eignuðust þau 17 barnabörn og eiga samtals yfir 20 langafa og langömmubörn.

Krakkarnir guðslifandi fegnir

„Ég held að krakkarnir hafi bara verið guðslifandi fegnir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af mér, eða bjóða mér með sér ef þau voru að fara eitthvað“, segir Regína. Móðir hennar varð ekkja á sama aldri og hún. „Mikið lifandis ósköp óskaði ég  þess að hún hitti einhvern annan, því hún hafði svo gaman af að fara í leikhús og ferðast. Það hefði verið dásamlegt, því hún lifði í 40 ár eftir að pabbi dó. Það bjargaði henni að hún var í Hringnum og þar var mikið félagsstarf. Hún varð 92ja ára og hafði alla tíð gaman af að vera innanum fólk og fá sér sérrý í glas“.

Það gáfulegasta sem ég hef gert

Regína og Guðberg giftu sig tveimur árum eftir að þau misstu maka sína. Þegar þau sáu að það var til sölu íbúð í Árskógum, seldu þau íbúðirnar sínar og fluttu þangað saman fyrir 23 árum. „Ég hef aldrei séð eftir því, þetta er það gáfulegasta sem ég hef gert um ævina“, segir Regína. „Hér er stutt í verslanir, það er hægt að ganga og þarf aldrei að fara yfir götu. Það er allt í Mjóddinni, læknamiðstöðvar og apótek“, segir hún. „Og allar verslanir nema ríkið“, bætir Guðberg við og brosir. Það var raunar aldurstakmark í húsið sem var ætlað fólki sextugu og eldra. „Það var grínast með það að ég fékk að fara inn af því ég var í fylgd með fullorðnum“, segir Regína.

Á gangi fyrir utan blokkina

Kynnast í náttsloppnum í lyftunni

Þau segja að það sé ekki óalgengt í húsinu, að þar verði til pör eldra fólks. Ekki þannig að fólk flytji saman, heldur búi í sínum íbúðum, en styðji hvort annað og geri eitthvað skemmtilegt saman. „Það er þó nokkuð um þetta“, segja þau. „Það myndast vinskapur og fólk fer saman út að borða, í leikhús og fleira“. Þau segja að fólk kynnist í húsinu, það sé matur þar í hádeginu, kaffi og einnig sé ýmislegt um að vera, svo sem félagsvist, leikfimi, ljóðaklúbbur og línudans. „Fólk kynnist líka í lyftunni, þegar það fer á náttsloppnum að sækja blöðin“, segir Regína „en það hefur enginn gift sig nema við. Við vorum líka einu starfsmennirnir hjá höfninni sem hafa gifst og fengum bæði gjöf og flotta veislu“.  Vinnufélagarnir göntuðust með  að þau hefðu verið að hugga hvort annað og endað með því að gifta sig. „Við skulum bara segja að það hafi verið þannig“, segir Regína.

Komast ekki lengur fyrir í íbúðinni

Regína og Guðberg eru búin að ferðast mikið frá því þau tóku saman, enda var það ætlunin að ferðast á meðan þau gætu. Þau byrjuðu á að borga íbúðina sína og lögðust í ferðalög eftir það. Þau eru búin að fara bæði til Balí og Ríó, en hafa líka ferðast hér innanlands. „Við erum heppin með krakkana okkar og höfum ferðast svolítið með þeim síðustu árin“, segir Regína.  „Við höfum  gaman af að fara í leikhús og bíó en erum líka heimakær“.  Þau segja lífið oft rólegt, en það komi líka tarnir, fermingar og brúðkaup, enda afkomendurnir margir. „Við vorum alltaf með jólaboð, en nú komum við þeim ekki lengur fyrir. Ég sagði bara“Nú takið þið við“, segir Regína og Guðberg bætir við að þau yrðu að taka á leigu veislusalinn í húsinu, ef þau vildu hafa alla.

 

Ritstjórn mars 31, 2018 10:39