Frábærar bækur verða stórkostlegir sjónvarpsþættir

Fátt er jafnskemmtilegt og þegar vel tekst til í að endurskapa frábærar bækur og sögupersónur í formi kvikmynda eða sjónvarpsþátta. Bretum er þetta sérlega lagið en nýlega voru frumsýndar á Apple Tv og BBC þáttaraðir sem hafa algjörlega slegið í gegn. Sú fyrri var Moonflower Murders framhald af Magpie Murders og svo síðari fjórða þáttaröðin af Slow Horses. Báðar eiga það sameiginlegt að vera byggðar á frábærum bókum.

Susan Ryeland er alltaf með nefið ofan í bókum.

Í Moonflower Murders hitta áhorfendur aftur ritstjórann Susan Ryeland. Hún var kynnt til leiks í Magpie Murders en þá var Susan ritstjóri hjá stóru bókaforlagi og hafði einkum séð um að ritstýra bókum metsöluhöfundarins Alans Conways. Hann skapaði ofurspæjarann Atticus Pünd og þegar Susan hefst handa við rannsóknina stendur hann henni svo ljóslifandi fyrir hugskotsjónum að hún spjallar við hann og fær hann til að aðstoða sig við að leysa úr málunum.

Þáttaröð númer tvö heitir Moonflower Murders og áhorfendur hitta Susan fyrir þar sem hún er flutt til Krítar með Andreasi, elskhuga sínum, sem hún kynntist í fyrri þáttum. Þau hafa keypt lítið hótel á Krít en því hefur verið illa við haldið og flest í ólestri, rafmagn, vatnslagnir og starfsfólkið. Þegar bresk hjón, Laurence and Pauline Treherne, koma til að hitta og bjóða henni dágóða fúlgu fyrir að lesa eina af gömlu bókunum um Atticus Pünd til að leita að vísbendingum um hvers vegna dóttir þeirra er horfin sér hún sér ekki annað fært en að taka því.

Tvær í einum pakka

Þessir þættir eru byggðir á sakamálasögum Anthonys Horowitz og bækurnar eru einstaklega skemmtilegar og ekki síst vegna þess að í sögunum eru ævinlega faldar vísbendingar um hver morðinginn er oft nagar lesandinn sig í handarbökin eftir á að hafa ekki séð þær, svo augljósar voru þær þegar allt hefur verið upplýst. Þessi þáttur er ekki hvað síst það sem gefur þáttunum aukna dýpt og skemmtun. Auðvitað er svo fullt af misvísandi atriðum líka því þetta má alls ekki verða of auðvelt. Auk þess er hér ævinlega um að ræða góðan pakka, því lesandinn fær tvær fyrir eina. Annars vegar morðið sem Susan rannsakar í nútímanum og hins vegar ráðgátuna sem Atticus Pünd fæst við á sjötta áratug síðustu aldar. Alan Horowitz fléttar þessu tvennu listilega saman og það gera framleiðendur sjónvarpsþáttanna líka.

Það verður enginn svikinn af þessum bókum og Susan hittir naglann á höfuðið í einni bókinni þegar hún segir um Alan Conway eitthvað á þá leið að ekkert sé eins ánægjulegt og glæpasaga þar sem allt gengur og að Alan hafi aldrei svikið lesendur sína hvað það varðaði og hið sama má sannarlega segja um Alan Horowitz.

Það er eiginlega ekki hægt að skilja við Moonflower Murders án þess að tala aðeins um Atticus Pünd. Í nýju seríunni stynur Susan: „Af hverju þarf allt að vera svona andskoti flókið.“ Hún er að tala við Atticus Pünd í einum af senunum þar sem hann birtist henni. En þessi Austurríkismaður lifði af dvöl í Auschwitz í stríðinu og það dýpkaði til muna skilning hans á mannlegu eðli og athyglisgáfuna. Hann er einnig, ólíkt skapara sínum Alan Conway, góður og hlýr maður sem vill fólki raunverulega vel. Þau eru dásamlegt par, hann og ritstjórinn Susan og þess vegna frábærar fréttir fyrir aðdáendur að þriðja bókin er væntanleg í mars á næsta ári og hún heitir, Marble Hall Murders. Íslendingar sem hafa áhuga á þessum bókum geta pantað þær í gegnum vefverslanir eða séð þættina í gegnum Apple Tv.

Jack Lowden í hlutverki River Cartwright.

Hægu hestarnir komast í mark

Slow Horses eru sérlega skemmtilegar njósnasögur eftir Mick Herron. Öðrum þræði er höfundur að gera grín að þessari bókmenntagrein. Í stað James Bond, hetjunnar miklu, höfum við hóp af njósnurum sem hefur verið ýtt út í horn. Þeim hefur öllum tekist á einn eða annan hátt að gera gloríur í starfi fyrir MI5 en þar sem ekki er hægt að reka þau er stofnuð deild fyrir hina útskúfuðu. Jackson Lamb veitir henni forstöðu, maður sem áður sat við borðið með æðstu stjórnendum MI5 og þótti einna besti njósnari þeirrar stofnunar en er nú kærulaus, drykkfelldur og nákvæmlega sama um allt.

Gary Oldman leikur Jackson í þáttunum og er svo frábær að hann er árlega tilnefndur til BAFTA-verðlauna fyrir leik sinn. Hingað til hefur hann ekki fengið þau en gagnrýnendur eru sammála um að hann eigi þau skilin og sömuleiðis samleikari hans, Jack Lowden, sem einnig er tilnefndur árlega sem bestir leikari í aukahlutverki. Persóna hans í þáttunum heitir, River Cartwright. Ungur maður kominn af njósnaraættum, afi hans var hæstráðandi MI5 um langt árabil. River tekst hins vegar að klúðra verkefni meðan hann er enn í þjálfun og endar í hinu alræmda Slough House undir stjórn Jacksons Lamb.

En þótt þessir tveir séu nefndir eru allir leikarar í þessum þáttum frábærir og þeim tekst að móta persónurnar og gefa þeim líf á þann hátt að aðdáendur bókanna geta ekki kvartað. Kristen Scott Thomas er stórkostlega í hlutverki hinnar metnaðarfullu, Diönu Tavener, og Saskia Reeves túlkar Catherine Standish á einstakan hátt. Það er ekki undarlegt að gagnrýnendur séu hrifnir. Það er ekki oft sem svona gott sjónvarpsefni kemur fram og hvað þá að gæðin endist í fjórar seríur.

Gary Oldman leikur Jackson Lamb snilldarlega.

Kem í friði þrátt fyrir nafnið

Það er skemmtilegt frá að segja að sá sem skrifar handrit þessara þátta og er einn framleiðendanna heitir Will Smith en er ekkert skyldur bandaríska leikaranum. Hann fékk Emmy-verðlaunin fyrir handritaskrif þáttanna þann 15. september síðastliðinn og byrjaði á að segja þegar hann tók við styttunni: „Þrátt fyrir nafn mitt kem ég í friði.“ Þarna var hann auðvitað að vísa til kjaftshöggsins fræga sem nafni hans veitti Chris Rock á Óskarsverðlaunahátíðinni.

En það er allt gott við þessa þætti og bækurnar. Þær eru spennandi, kraumandi af kímni og ótrúlega trúverðugar. Íslendingar geta horft á þá á Amazon Prime eða keypt þá á dvd í gegnum vefverslunina. Nýlega bárust þær fréttir að til stæði að gera þáttaröð eftir fimmtu bókinni og Mick Herron hefur lýst því yfir að hann hyggist halda áfram að skrifa um hægu hestana í njósnaheiminum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

 

Ritstjórn september 21, 2024 09:28