Þau Helga Hallgrímsdóttir og Halldór Guðmundsson byrjuðu upphaflega að læra dans hjá Sigurði Hákonarsyni í Kópavoginum fyrir 37 árum síðan. Þar kynntust þau litlum polla, Jóhanni Erni Ólafssyni, sem nú rekur Dans og jóga – Hjartastöðina ásamt eiginkonu sinni, Theodóru S. Sæmundsdóttur, en hún er jógakennari. Síðan hafa þau Helga og Halldór dansað á hverjum þriðjudegi, að vetrinum, fyrir utan aðra hreyfingu sem þau stunda sér til skemmtunar. Þau eru bæði fædd 1944 og gerðu sér grein fyrir því fyrir löngu síðan að til að eiga góð efri ár væri nauðsynlegt að gæta þess að halda líkamanum vel við. Þar kemur dansinn rækilega við sögu. “Dansinn er ekki bara holl hreyfing heldur er svo skemmtilegt að dansa,” segja þau og halda greinilega í gleðina og kátínuna þótt árunum fjölgi. Þau hafa sýnt dans í gegnum tíðina en núna dansa þau bara sér til ánægju og til að viðhalda líkamanum.
Jógað kom inn í lífið
Þau hafa fylgt Jóhanni eftir og nýta sér einnig að fara í jóga í Hjartastöðina. Helga hefur verið dugleg að sækja þá tíma og í fyrravetur byrjuðu sérstakir karlatímar svo Halldór er líka farinn að stunda jóga.
Þau bjuggu í 35 ár í Fossvoginum þar sem útivist var daglegt brauð en fyrir átta árum ákváðu þau að flytja sig um set og völdu Grafarholtið, ekki síst vegna frábærrar aðstöðu til útiveru sem svæðið býður upp á. Og ekki er verra að dóttir þeirra býr þar í næsta nágrenni við þau.
Hamingjan í dansinum
Þegar Helga og Halldór byrjuðu að dansa hjá Sigurði Hákonar voru þau í hópi tuttugu para en nú eru þau ein eftir úr þeim hópi. Aðrir hafa bæst í hópinn og nú hittast átta pör vikulega, að vetrinum, alltaf á þriðjudögum. Áður gerðu þau svolítið af því að sýna dans en núna koma þau bara saman og dansa sér til ánægju og læra fleiri dansspor. “Þvílík hamingja að geta gert það sem manni þykir skemmtilegast og njóta árangurs skemmtunarinnar í betri heilsu,” segja þau brosandi.
Alin upp við sveitastörf
Helga er fædd í Aðaldalnum í Þingeyjarsýslu og ólst upp við sveitastörf og fór svo í skóla að Laugum. Þaðan hélt hún suður til að nema í Fóstruskóla Sumargjafar og útskrifaðist þaðan 1967 sem fóstra, leikskólakennari, og hefur starfað bæði sem leikskólakennari og –stjóri síðan eða allt þar til hún fór á eftirlaun.
Halldór er fæddur og uppalinn á Siglufirði, menntaði sig sem húsgagnasmiður og starfaði við það þangað til hann fór að selja tryggingar fyrir TM. Hann starfaði við það í 25 ár eða þangað til hann hætti að vinna.
Hjónaklúbburinn Laufið
“Við komum inn í dansinn í gegnum hjónaklúbbinn Laufið sem var stofnaður 1974 af hópi bindindisfólks sem vildi geta dansað og skemmt sér án áfengis. Á fyrsta dansleik komu 30 pör”, segir Helga. Þessi klúbbur er enn þá til og nú eru í honum 130 pör sem koma saman og skemmta sér á áfengislausum skemmtunum. Haldnar eru 4-5 skemmtanir yfir árið og allt gengur út á dans og alltaf er hljómsveit sem heldur uppi fjörinu. Klúbburinn er öllum opinn og eina skilyrðið er að fólk hafi gaman af að dansa. “Maður þarf ekki að hafa lært samkvæmisdansa til að geta verið með heldur dugar að vera skemmtilegur og hafa gaman af að hreyfa sig í takti við tónlist,” segir Halldór og brosir. Meðalaldur í hópnum hefur hækkað svolítið en flestir eru á aldrinum 60 til 75. Nýjustu meðlimirnir eru þó alveg niður í 30 ára. Við erum að reyna að yngja upp og halda dampi og það gengur nokkuð vel. Við hittumst 4-5 sinnum á ári og förum í skemmtiferð á sumrin.” Nú hefur covid haft sín áhrif á starfsemi Laufsins eins og annarra. Vor – og haustball, ásamt sumarferð féllu niður að þessu sinni.
Vinnan þeirra núna að viðhalda heilsu
“Við reynum af fremsta megni að rækta bæði líkama og sál,” segir Helga. “Jógað og dansinn eru bæði fyrir sálina og líkamann,” segja þau bæði í léttum tón. Þau bæta við að þau hafi líka breytt mataræði í þá veru að borða léttari fæðu, bætt við grænmeti og ávöxtum og fækkað þungum kjötmáltíðum. “Við erum til dæmis alveg hætt að drekka sykraða gosdrykki og erum mun meðvitaðri um það sem við látum ofan í okkur.
Helga og Halldór hafa líka verið dugleg að fara í ræktina, að meðaltali þrisvar í viku og gera þar styrktaræfingar. Þau nýta sér það sem býðst við að halda hreyfanleika. “Þegar maður er kominn á okkar aldur er stirðnunin svo hröð ef maður gerir ekki neitt,” segir Halldór. “Það er svo mikill óþarfi og þá verður lífið svo leiðinlegt,” segja þessi hressu hjón sem njóta þess sannarlega að lifa lífinu lifandi og dansa þrátt fyrir hækkandi aldur.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.