Breyting hefur verið gerð á svökölluðum lífslíkutöflum, sem gerir að verkum að í stað þess að líta eingöngu til reynslu undangenginna ára við mat á meðalævilengd Íslendinga, verða einnig metnar horfur á áframhaldandi auknum lífslíkum þjóðarinnar. Þetta kemur fram í grein Ástu Ásgeirsdóttur hagfræðings hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, sem birtist fyrir skömmu í Fréttablaðinu. Í greininni segir að þannig verði í fyrsta sinn farið að reikna lífeyrisréttindi fólks út frá því að meðalævin lengist næstu ár og áratugi. Þetta muni hafa mikil áhrif á útreikninga lífeyrissjóða á skuldbindingum sínum og við mat á kostnaði ríkisins vegna almannatrygginga og lífeyrisskuldbindinga. Ásta lýsir því í greininni hvernig þessi breyting geti blasað við fólki.
– Jón er 67 ára og er að hefja töku lífeyris. Lífeyrisréttindi hans hjá lífeyrissjóði miðast við að hann lifi í 18 ár til viðbótar og að mánaðarlegur lífeyrisgreiðslur dreifist í samræmi við það.
– Væri Jón hins vegar verið 20 árum eldri og hefði hafið lífeyristöku árið 2000 hefði verið miðað við að hann hann myndi lifa í 16 ár en ekki 18 ár til viðbótar.
– Meðalævi 67 ára karla hefur þannig lengst um tvö ár á tveimur áratugum og lífeyrisgreiðslurnar dreifast á lengri tíma æviskeiðsins sem því nemur.
Segir dæmið okkur eitthvað um yngra fólk? Já. Yfirgnæfandi líkur eru á því að Gunnar, 35 ára, muni lifa lengur en 18 ár eftir að hann nær 67 ára aldri. Þjóðin eldist og það birtist á þann hátt að yngra fólk verður að óbreyttu lengur á lífeyri en þeir sem eru að komast á lífeyristökualdur nú. Með boðaðri breytingu á útreikningum á lífslíkum verður með öðrum orðum tekið tillit til þess að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast“.
Með hækkandi lífaldri og lækkandi fæðingartíðni fjölgar þeim hlutfallslega stöðugt sem eru 67 ára og eldri, segir í greininni.
Núverandi lífeyrisaldur almannatrygginga er 67 ár með möguleika á snemmtöku lífeyris frá 65 ára aldri. Verkefni næstu ára fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins er að tryggja jafnvægi milli fjölda á eftirlaunum og þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það er hægt að gera bæði með því að skapa umhverfi og aukinn sveigjanleika sem gerir fólki sem komið er á lífeyrisaldur kleift að vera áfram á vinnumarkaði ef það óskar þess og einnig með því að tengja lífeyrisaldur almannatrygginga við þróun lífaldurs.
Þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við, svo sem Hollendingar og Danir, fóru þá leið að hækka lífeyrisaldur í skrefum í samræmi við spár um lífslíkur til að tryggja sjálfbærni eftirlaunakerfa til framtíðar. Lífeyriskerfið okkar býr að því að almennur eftirlaunaaldur á Íslandi hefur lengi verið hærri en í grannríkjum. Almennur eftirlaunaaldur hér er 67 ára en í Hollandi og Danmörku var eftirlaunaaldur 65 ár áður en stigin voru skref til breytinga.
Íslenska lífeyriskerfið er sveigjanlegt að því leyti að mögulegt er fyrir fólk að hefja lífeyristöku bæði fyrir og eftir 67 ára aldur. Heppilegt væri að viðhalda því fyrirkomulagi. Framtíð kerfisins í heild byggist samt á því að fleiri vinni lengur en nú gerist.