Í stríði og friði fréttamennskunnar er frábærlega vel skrifuð bók. Sigmundur Ernir Rúnarsson rekur ríflega fjörutíu ára feril sinn í blaða- og fréttamennsku og um leið líf og dauðastríð ótal miðla. Hann hefur skarpa þjóðfélagssýn, er gagnrýninn og beittur. Þarna skýrist margt og lesandanum opnast sýn á það sem gengur á bak við tjöldin þegar valdaöflin eru skoruð á hólm.
Sigmundur Ernir er einstaklega góður penni það vita raunar allir sem fylgst hafa með íslensku bókmenntalífi en hér tekst honum sérlega vel upp. Honum tekst að gera efnið svo spennandi að það er varla hægt að leggja bókina frá sér eina einustu mínútu. Og maður má ekki missa af einu orði, verður á sama tíma að vita hvað gerist næst og hvernig þessu öllu reiðir af. Já, þannig líður manni þótt maður þekki söguna og viti hvernig þetta fer. Það er líka auðséð að höfundur hefur ávallt fylgst mjög vel með þjóðmálum og er vel inni í viðfangsefninu.
Brennandi ástríða
Í byrjun bókar gerir höfundur þá játningu að hann hafi aldrei lært fingrasetningu og líklegast skrópað of oft í vélritun í skóla. Hann hamrar alla sína texta tveimur fingrum fyrst á ritvélar síðan tölvur. Þetta hljómar ótrúlega í eyru annars fjölmiðlamanns sem þekkir afköst þessa manns og notar alla sína fimm fingur við vinnuna. En vísifingurnir tveir verða einhvern veginn þegar líður á bókina táknmynd áhugans og brennandi ástríðunnar sem Sigmundur Ernir hefur fyrir þessu starfi. Hann hrífur alla með sér hvort sem hann er fyrir framan myndavélina eða við tölvuna einmitt vegna þess. Við þekkjum öll tilfinningarnar, skiljum þær.
Líklega gera ekki allir sér grein fyrir hvað fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Við sem höfum starfað innan þess geira og fylgst með þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa á viðhorfum til minnihlutahópa og á umtali manna á milli um margvísleg málefni vitum að þetta er ekki hvað síst að þakka ábyrgri fjölmiðlun. Að leyfa röddum hljóma hvort sem þeir eru dimmar og þrungnar valdi og sjálfstrausti eða mjóar og veikburða er það sem opnar huga annarra fyrir mismunandi kjörum og þeirri staðreynd að hjörum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.
Í lok bókarinnar viðrar Sigmundur Ernir áhyggjur sínar af fækkun ritstýrða fjölmiðla á Íslandi. Hann telur að umræðan verði einsleitari, óábyrgari og alls ekki eins fræðandi og uppbyggileg þegar aðeins tveir til þrír miðlar verði eftir og önnur miðlun fari fram á samfélagsmiðlum. Flestir fjölmiðlamenn deila án efa þessum áhyggjum. Við megum ekki gleyma að öll mannréttindabarátta hefur á einn eða annan hátt verið háð í fjölmiðlum. Réttindabarátta samkynhneigðra á Íslandi hófst með viðtali í fjölmiðli, metoo-byltingin á faglega unninni frétt í New York Times og ekki nema örstutt síðan að sjáanlega fatlaður einstaklingur skreytti forsíðu íslensks tímarits í fyrsta sinn. Við erum öll ábyrg fyrir lýðræðinu, að halda því lifandi og virku til hagsbóta fyrir samfélagið. Í stríði og friði fréttamennskunnar er mikilvægt innlegg og innblástur til að menn geri einmitt það.