Fyrir skömmu sendi Guðjón H. Bernharðsson, frumkvöðull með meiru, frá sér tvær bækur. Önnur bókin er ævisöguleg vinnusaga og hin er skáldsaga. Þetta eru fyrstu bækur hans sem hlýtur að vera einstakt og harla vel af sér vikið af manni á 77. aldursári. Guðjón varði starfsævinni í tölvuheimum en tölvur hétu einfaldlega rafmagnsheilar þegar hann byrjaði.
Guðjón er elstur þriggja bræðra og ólst upp í Holtunum í Reykjavík, í stórfjölskyldu þar sem alltaf var húsrúm og gestkvæmt. Uppvöxturinn einkenndist af mikilli útiveru, samheldni og ævintýrum.
„Við strákarnir stofnuðum okkar eigið íþróttafélag á Klambratúni, háðum bardaga við krakka úr Norðurmýrinni og stunduðum allt frá fótbolta með Fram til sleðaferða niður Stangarholtið,“ segir Guðjón og brosir. „Þetta var tími þar sem allir voru vinir og orðið einelti var óþekkt. Margir af leikfélögum mínum frá þessum árum eru í dag þjóðþekktir einstaklingar og þegar við hittumst rifjum við gjarnan upp þessar dýrmætu minningar.“

Á upphafsárunum hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar síðar SKÝRR.
Símtalið sem breytti öllu
„Eftir nám í Austurbæjarskóla, Laugarnesskóla og verslunardeild Lindargötuskóla hóf ég nám í Kennaraskólanum. Félagslífið blómstraði og helgarnar fóru í að fylgja vinsælustu hljómsveitum bæjarins, eins og Toxic, sem síðar varð Flowers, á stöðum eins og Glaumbæ og Silfurtunglinu.“
Framtíð Guðjóns tók þó óvænta stefnu eftir aðeins eitt ár í Kennaraskólanum. Auglýsing í Morgunblaðinu þar sem spurt var „Viltu læra og vinna við rafmagnsheila?“ vakti forvitni hans. Hann þreytti flókið inntökupróf hjá Skýrsluvélum ríkisins og Reykjavíkurborgar án mikilla væntinga.
„Þegar símtalið kom um að ég væri annar tveggja sem hefðu staðist prófið var ljóst að nýr og ófyrirséður kafli var hafinn í lífi mínu. Þetta símtal breytti öllu.“
Þann 1. nóvember 1967 hóf Guðjón störf í heimi sem fáir þekktu á Íslandi. Vinnustaðurinn var fullur af stórum IBM Unit Record-vélum sem unnu úr gögnum á gataspjöldum.
„Hver vél hafði sitt hlutverk og ég lærði að forrita þær með því að tengja víra í stór töfluborð. Eitt af mínum fyrstu stóru verkefnum var launaútreikningur fyrir Reykjavíkurborg, vinna sem tók heilan sólarhring í hverri viku og ég þurfti að vera vakandi allan tímann.“
Um 1970 varð tæknibylting með komu IBM 360-tölvanna. Gataspjöldin voru á útleið og ný forritunarmál tóku við. „Ég varð heillaður af þessum möguleikum, kenndi sjálfum mér nýja tækni og ákvað í frítíma mínum að endurforrita allt launakerfi borgarinnar. Niðurstaðan var sláandi: vinnslutíminn fór úr heilum sólarhring niður í aðeins einn klukkutíma. Fyrirtækið keypti kerfið af mér og í kjölfarið var ég færður yfir í kerfisfræðideildina.“

Guðjón les upp úr bókum sínum á bókamessu Höfundaskólans þann 30. ágúst síðastliðinn.
Tölvubankinn og alþjóðleg útrás
Árið 1976 hóf Guðjón störf hjá Flugleiðum en samhliða því sinnti hann fjölbreyttum verkefnum sem verktaki. Þar á meðal smíðaði hann áskriftarkerfi fyrir Dagblaðið DB, iðgjaldakerfi fyrir fjölda lífeyrissjóða og árið 1978 hannaði hann og forritaði eitt fyrsta kreditkortakerfi landsins í stofunni heima hjá sér.
„Reynslan sem verktaki varð kveikjan að því að ég, ásamt tveimur félögum mínum, stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Tölvubankann hf. þann 1. nóvember 1981. Fyrirtækið óx hratt og þjónustaði fjölda íslenskra fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana með áreiðanlegum hugbúnaðarlausnum. Árið 1989 fékk ég þá hugmynd að selja kreditkortakerfi Tölvubankans erlendis. Við þróuðum alþjóðlega útgáfu kerfisins, DATA*BANK, og á árunum 1991-1993 náðum við þeim einstaka árangri að selja kerfið til þriggja stórra banka í Tékkóslóvakíu og Tyrklandi. Þetta var eitt fyrsta dæmið um sölu á íslenskum hugbúnaði erlendis. Þetta metnaðarfulla verkefni varð þó að engu þegar óvæntur og hár skattur var lagður á söluna í Tékklandi, sem batt enda á þessa útrás,“ segir Guðjón. „Ég stýrði Tölvubankanum allt til ársins 2014 en þá hóf ég störf sem sérfræðingur hjá Kortaþjónustunni (KORTA). Þar með var hringnum lokað og ég var kominn aftur í heim greiðslukerfa, þar sem stór hluti af mínum ferli hófst.“
Fjölskylda, ljósmyndun og nýsköpun eftir sjötugt
„Ég kynntist eiginkonu minni, Helgu Jónsdóttur, í Lindargötuskólanum og við höfum verið samferða síðan við vorum 18 ára. Við giftum okkur árið 1969 og eigum þrjú börn: Guðjón Má, Guðrúnu Líneik og Jón Atla. Samstarf mitt og Guðjóns Más, elsta sonar míns, hófst þegar hann var aðeins 12 ára og farinn að forrita. Við unnum saman að ýmsum verkefnum þar sem ég kerfissetti en hann forritaði. Þetta varð grunnurinn að fyrirtækinu OZ, sem hann stofnaði síðar og er í dag alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í gervigreind fyrir íþróttastreymi,“ segir Guðjón.
„Eftir að ég varð sjötugur og lauk formlega störfum þann 1. nóvember 2018 – á sömu dagsetningu og ég hóf ferilinn 1967 og stofnaði Tölvubankann 1981 – tók við nýr kafli. Áhugi á ljósmyndun, sem kviknaði í ótal gönguferðum um íslenska náttúru, leiddi til einkasýningarinnar Ísland er landið í Iðnó árið 2012. Sýningin stóð í níu mánuði. Árin 2019-2022 þróaði ég ásamt samstarfsmanni nýtt app, Mindnes, og tók þátt í nýsköpunarhraðlinum Startup SuperNova með það verkefni, sem var einstaklega gefandi reynsla.“

Helga og Guðjón með hundinn Tinna á ferðalagi um landið.
Útivist, pottaspjall og fimmtudags- og föstudagsklúbbarnir
Guðjón hefur alla tíð verið útivistarmaður, og var með hunda síðastliðin 30 ár.
„Ég fékk nýfæddan Mini Schnauzer í sextugsafmælisgjöf, hann sem var minn förunautur í næstum 16 ár en hann fór í fyrra. Við fórum mikið í göngutúra alla daga og það má segja að ég þekki Laugardalinn mjög vel, þótt við færum oft á aðra staði að ganga. Þetta voru ánægjulegir tímar fyrir okkur hjónin að hafa hann Tinna minn.
Ég hef stundað sund nánast allt mitt líf og þegar World Class Laugar komu í Laugardalinn hef ég verið þar í ræktinni síðan. Eftir að ég hætti að mæta í vinnu orðin 70 ára, fórum við hjónin að verja meiri tíma í sundi og ræktinni eða við erum nánast alla virka morgna þar. Ég er í sundhópi og við hittumst alltaf í heita pottinum og þar eru málin leyst og farið yfir fréttir gærdagsins. Við erum sex vinir sem borðum alltaf saman á fimmtudögum, og á föstudagsmorgnum mætum við 12 karlar í kaffi í sundlaugunum. Þessi félagsskapur er mjög skemmtilegur og gefandi.“

Kápa ævisögurnnar, Frá gataspjöldum til gervigreindar. Barnabarn Guðjóns, Jason Daði, hannaði kápurnar á báðar bækurnar.
Höfundur á 77. aldursári
Í mars 2024 settist Guðjón á ritlistarnámskeið hjá Höfundaskólanum með það að markmiði að fínpússa vinnusögu sína.
„Sköpunarþörfin leiddi mig þó á aðra braut og úr varð fyrsta skáldsagan mín. Fyrir skömmu komu tvær bækur mínar út samtímis. Annars vegar Frá gataspjöldum til gervigreindar, þar sem ég rek sögu mína og einstaka þróun íslensks tæknigeira. Hins vegar skáldsagan Kapphlaup við dauðann, spennusaga um íslenskan háskólakennara sem gerir örlagaríkan samning við dauðann.“
Við hjá Lifðu núna rákumst á eftirfarandi umsögn Þórunnar Valdimarsdóttur rithöfundar sem sagði á Facebook-síðu sinni: „Búin að lesa bók mágs míns, Kapphlaup við dauðann. Dásamleg, spennandi, djúp, flott og flókin.“
Hann skrifaði, hún prjónaði á úkraínska hermenn
Hugmyndina að skáldsögunni fékk Guðjón fyrir mörgum árum og þegar hann settist á skólabekk í Höfundaskólanum ákvað hann að nota hana við skriftir.
„Ég settist fyrir framan tölvuna eitt kvöldið og byrjaði bara að skálda. Allt í einu var ég

Kapphlaup við tímann er skáldsaga. Guðjón settist við tölvuna og byrjaði að skálda og hugmyndirnar streymdu fram ein af annarri.
kominn með fimm þúsund orð og með margar hugmyndir að atburðum. Það má segja að ég hafi fengið söguna næstum á heilann, sérstaklega á morgnana þegar ég var einn með sjálfum mér í sundi eða í innfrarauðu gufunni þá komu hugmyndir sem ég síðan útfærði við heimkomu. Ég passaði mig á að þetta truflaði ekki konuna mína en oft á meðan ég sat við skriftir var hún að prjóna sokka eða vettlinga fyrir úkraínsku hermennina. Ég sagði oft í gríni að annar hver hermaður væri í sokkum frá henni. Ég sat líka oft við fram á nótt. Á meðan ég skrifaði sá ég atburðarásina fyrir mér eins og kvikmynd eða sjónvarpsþátt. Fyrsta útgáfa sögunnar, nokkurs konar beinagrind, var upp á 50 þúsund orð en eftir töluverðar breytingar endaði sagan í tæplega 80 þúsund orðum.“
Þakklátur
„Þegar ég lít til baka fyllist ég þakklæti,“ segir Guðjón. „Það voru forréttindi að fá að taka þátt í að móta þá tæknibyltingu sem hefur umbreytt samfélaginu. Sú áhersla sem við lögðum á traust og áreiðanleika í hugbúnaðargerð skilaði sér í kerfum sem þjónuðu landsmönnum í áratugi. Þótt nýir kaflar séu nú að rætast í ritlistinni er sköpunargleðin og áhuginn á að takast á við nýjar áskoranir enn sá sami.“
Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.