Fundur fyrir þá sem huga að starfslokum

Tryggingastofnun býður til fræðslufundar um ellilífeyrismál miðvikudaginn 9. nóvember næst komandi kl.16.00 – 17.30 í Hlíðasmára 11, í Kópavogi.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að á fundinum verði farið yfir hvernig best er að standa að umsókn um ellilífeyri hjá TR, hvaða gögn þurfi að fylgja umsókn, réttindi fólks og upphæðir greiðslna. „Fundurinn er einkum ætlaður þeim sem eru að huga að starfslokum og stefna á að hefja töku ellilífeyris frá TR á næstunni og verða sérfræðingar TR til svara. Ráðgert er að hafa fundi af þessum toga um það bil mánaðarlega hér eftir“, segir í tilkynningunni.

Huld Magnúsdóttir  forstjóri TR segir að undirbúningur að töku ellilífeyris sé mikilvægt mál fyrir alla einstaklinga og TR vilji með þessari fræðslu aðstoða einstaklinga við að taka fyrstu skrefin. „Góður undirbúningur í tíma hjálpar til“, segir hún. „Einstaklingar þurfa oft að athuga með gögn og réttindi og gott að gera það tímanlega. Réttindi eru gjarnan samspil ýmissa þátta sem þarf að skoða og meta“. Huld segir  mjög misjafnt hversu vel einstaklingar séu undirbúnir þegar komi að töku lífeyris. Það sé því mikilvægt að koma upplýsingum á framfæri við fólk.

Þeir sem ætla að sækja fundinn í Hlíðasmára þurfa að skrá sig og geta gert það hér, en fundinum verður líka streymt til að koma til móts við þá sem ekki eiga heimangengt. Til að horfa á streymið þarf einnig að skrá sig. Sjá hér.

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 7, 2022 13:36