Er hægt að tryggja að fólk fái strax réttar greiðslur frá TR?

Ásta Möller

„Leiðin til þess að eldra fólk fái „réttar“ tekjur greiddar mánaðarlega frá Tryggingastofnun ríkisins, er að beintengja TR við upplýsingar um tekjur lífeyrisþega frá skattinum og lífeyrissjóðunum“, segir Ásta Möller varaformaður stjórnar stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun skilaði nýlega skýrslu um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga, þar sem fram kemur að auka þurfi það hlutfall viðskiptavina TR sem fái réttar greiðslur. Annað sem talin er þörf á að bæta í þjónustu TR, er málsmeðferð ákvarðana og leiðbeiningaskylda stofnunarinnar og upplýsingagjöf, ekki síst til þeirra sem þurfa leiðbeiningar á öðrum tungumálum en íslensku.

Fagna skýrslunni

Ásta Möller, segir að stjórn TR fagni þeirri ákvörðun Alþingis að óska eftir skýrslu um Tryggingastofnun. „Það veitir bæði aðhald og út úr þeirri vinnu koma upplýsingar og ábendingar sem gott er að fá“, segir hún. Tryggingastofnun fagnaði einnig útkomu skýrslunnar í tilkynningu á vefsíðu sinni.  Landssamband eldri borgara sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu um skýrsluna þar sem segir meðal annars.

Lögin kveða á um að endurreikna þurfi greiðslur til fólks ef tekjuáætlanir þess eru ekki í fullkomnu samræmi við rauntekjur ársins. Að það þurfi að endurreikna um 90% af árstekjum þeirra sem fá greiðslur frá TR er grafalvarlegt mál og býður heim hættu á mistökum. Eins þarf að kanna vel hvers vegna margir hunsa að gera viðvart um breyttar tekjur inn á „Mínar síður“ hjá TR sem vekur upp spurningar sem brýnt er að fá svar við.

Tryggingastofnun svaraði gagnrýninni á uppgjörin  þannig.

Viðskiptavinir fá rétt greitt í mánaðarlegum greiðslum sínum á grundvelli fyrirliggjandi tekjuáætlunar hvers og eins. Það er afar villandi að halda því á lofti að mánaðarlegar greiðslur TR séu rangar eða að útreikningar séu rangir.

Við árlegt uppgjör fyrir liðið almanaksár kemur í ljós mismunur til hækkunar eða lækkunar vegna breyttra tekna á liðnu ári. Samkvæmt lagaheimildum er mismunurinn gerður upp (greiddur út eða innheimtur) þegar allar árstekjur liðins árs liggja fyrir. Uppgjörið á sér yfirleitt stað í maí – júní og þá þurfa viðskiptavinir annaðhvort að greiða til baka eða fá greidda inneign. Þessu má líkja við árlegt uppgjör hjá Skattinum.

Ásta Möller segir að Tryggingastofnun hafi átt í viðræðum við skattinn og lífeyrissjóðina um að beintengjast þeim, þannig að upplýsingar um tekjur einstaklinga berist stofnuninni fyrr, en meginfrávik frá tekjuáætlunum fólks felast í breytingum á fjármagnstekjum og lífeyrissjóðsgreiðslum sem þessar stofnanir hafa upplýsingar um„Það hefur ekki tekist að koma þessu á enn sem komið er, en þegar að því kemur þá á fólk strax að geta fengið réttar greiðslur“. Hún segir að viðræðurnar við skattinn varðandi þetta, séu lengra á veg komnar en við lífeyrissjóðina.

Endurskoðun ekki lokið eftir 15 ár

„Lífeyrir fólks úr almannatryggingakerfinu er til að tryggja öllum lágmarkslífeyri og upphæðin sem menn fá fer eftir því hvaða aðrar tekjur þeir hafa“, segir Ásta. Það er haldið utanum þetta allt í lögum um almannatryggingar, en Ríkisendurskoðun telur mikla þörf á að ljúka endurskoðun laganna sem hefur staðið yfir í 15 ár,  skipta þeim jafnvel upp í tvo lagabálka, þar sem annar varðar ellilífeyri, en hinn örorkumál.

Í fararbroddi í rafrænum samskiptum

Varðandi upplýsingar og leiðbeiningar til viðskiptavina, segir Ásta að það séu góðar ábendingar frá Ríkisendurskoðun. Stofnunin veitir upplýsingar ensku og  sendir út tilkynningar á pólsku auk þess sem pólskumælandi starfsmaður hefur aðstoðað landa sína varðandi almannatryggingamálin.   „Þá er rétt að nefna að Tryggingastofnun er í fararbroddi meðal ríkisstofnana hvað varðar rafrænar upplýsingar og rafræna afgreiðslu. Það kom sér vel þegar Covid skall á, að þá var til staðar kerfi sem gerði það auðvelt að breyta yfir í þjónustu á vefnum á skömmum tíma“, segir hún.

Minna rekstrarfé hjá TR en sambærilegum norrænum stofnunum

Ásta segir jafnframt að það sé uppi ágreiningur milli TR  félagsmálaráðuneytisins þegar kemur að fjárveitingum.  Það sé verið að reka Tryggingastofnun á ótrúlega lágri fjárveitingu. Hún segir að sambærilegar stofnanir til dæmis á Norðurlöndum séu reknar fyrir 2-4% af þeim upphæðum sem þær greiða út. Flestar séu nær 4%. „Rekstrarfé Tryggingastofnun samsvarar  um 1% af útgreiðslum til lífeyrismála frá stofnuninni, eru 1.5 milljarður á ári miðað við útgreiðslur uppá 150 milljarða.

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 27, 2020 07:36