Fylgihlutir sem allar konur ættu að eiga

Skór og fylgihlutir geta algerlega sett punktinn yfir i-ið hvað útlitið snertir og lífga sannarlega uppá fatnaðinn,. Á bandaríska vefnum www.aarp.org  eru gefin nokkur dæmi um fylgihluti sem þarlendar konur eru sagðar þurfa að eiga og hér fyrir neðan koma nokkur þeirra, alls átta. Sumir þessara fylgihluta eru framleiddir vestra og kannski ekki á boðstólum í Evrópu, en þó eru þarna þó nokkrir hlutir bæði frá HM og Zöru. Þó ekki verði farið nánar út í hvern einstakan hlut, gefa myndirnar nokkra hugmynd um þá fylgihluti sem getur verið sniðugt að eiga.

Áberandi eyrnalokkar

Áberandi eyrnalokkar hressa uppá útlitið. Það koma kannski dagar sem við vöknum og finnst ansi gráar og guggnar. Þá geta glitrandi eyrnalokkar gert kraftaverk. Gegnsæir steinar (gervi demantar), perlur og gulleyrnalokkar varpa ljóma á andlitið, en það ætti að forðast dökka eða silfurlita lokka á svona dögum. Á þessari mynd má sjá dæmi um eyrnalokka sem virka vel og lokkarnir lengst til vinsti eru einmitt frá HM. Allir þessir eyrnalokkar passa við gallabuxur og líka ef konur kjósa að klæða sig upp eftir vinnu. Ef hárið er leiðinlegt má skella í tagl, sem er bara smart við eyrnalokkana. Hérna fyrir neðan eru eyrnalokkarnir frá HM neðst til vinstri en lokkarnir fyrir ofan þá eru frá Zöru.

Sólgleraugu

Það er nauðsynlegt að eiga Stór sexy sólgleraugu með UV vörn. Það getur verið jafn flott að vera með áberandi sólgleraugu við kuldaúlpuna og bolinn sem við notum á sumrin. Gleraugun láta okkur líða eins og Audrey Hepburn, og þar sem þreytumerkin sjást fyrst í kringum augun er gott að nota UV vörn alla daga ársins. Gleraugun lengst til hægri og þau sem eru fyrir neðan, fengust í HM og Zöru þegar greinin var skrifuð.

Strigaskór – léttir skór

Leðurstrigaskór án skóreima eru klæðilegir og þægilegir. Það er í tísku að nota þá með öllu, en það er um að gera að skórnir séu fallegir og ekki of klossaðir.  Skór í svörtum litum ganga alltaf en það er líka gott að velja lit sem passar við það sem þú klæðist dagsdaglega. Hérna eru nokkur dæmi um skó sem fara vel og eru mjúkir og notalegir.

Belti

Það er ekki víst að allar konur sem eru komnar yfir fimmtugt séu með mitti – en það er alveg hægt að búa það til. Ef þú ert hætt að nota belti, prófaðu þá mjótt leðurbelti 3-5 cm, það er hægt að fá slík belti bæði í Zöru og HM, græna beltið fyrir miðri mynd með tveimur hringjum er til dæmis úr HM. Beltið gefur strax góða tilfinningu, þar sem það er mjótt og úr góðu efni. Það er mikilvægt að beltið sé ekki breitt. Mjó belti gera mitti eða stór brjóst ekki of áberandi. Það er hægt að nota þessi belti  við kjóla, síðar peysur, mussur og jakka og vöxturinn nýtur sín betur.

Sjöl eða klútar

Stórir klútar eru til margra hluta nytsamlegir. Það er hægt að fá ferkantaða klúta eða ílanga úr alls kyns efnum, akrýl og ullarblöndum. Það er hægt að slá þeim utanum hvaða fatnað sem er. Þeir veita hlýju og hylja ákveðna líkamshluta auk þess að vera virkilega smart þegar vel tekst til. Fleygðu klútnum yfir axlirnar og láttu hliðarnar hanga niður eins og þú sért með trefil, vefðu honum um þig, eða settu hann yfir aðra öxlina til að gefa klæðnaðinum smá lyftingu. Klúturinn getur komið í staðinn fyrir kápu eða jakka og það er líka hægt að nota hann með kápum og jökkum. Þegar þú ert að ferðast, til dæmis í flugvélum koma þeir sér ákaflega vel.

Hælaháir skór

Svartir áberandi bandaskór geta verið virkilega smart. Við missum jafnvægið ef við erum á pinnahælum og ekki getum við gengið um á flatbotna skóm eða strigaskóm alla daga.  Mælt er með þessari tegund af hælaskóm fyrir þá sem eru ekki reiðubúnir að gefa háu hælana alveg uppá bátinn. Mælt er með að hællinn sé ca.  5-6 cm. á hæð og með góðum teygjum yfir ristina til að tryggja að skórnir séu töff og að þú sért stöðug og örugg á þeim. Blaðamaður Lifðu núna hefur raunar ekki rekist á þessa tegund af hælaháum bandaskóm í verslunum hér á landi, en það má þá líka kíkja í skóbúð ef menn skreppa til útlanda.

Handtaska

Flott leðurtaska er nauðsyn. Það þurfa allar konur að eiga handtösku og hver og ein þarf að finna út hvaða stærð og litur hentar henni best. Hvað er það sem þú þarft að hafa með þér í töskunni yfir daginn?  Fartölvu, möppur, tímarit, vatnsflösku og kannski regnhlíf? Ólarnar á töskunni þurfa að vera nógu langar til að ná yfir kápur og jakka þegar hún er höfð á öxlinni, en ekki það langar að taskan dragist við jörðina þegar þú heldur á henni. Hérna eru nokkur dæmi um smart handtöskur. Önnur taskan frá vinstri (uppi) er til dæmis úr HM.

Ökklaskór eða stígvél

Flott ökklastígvél. Ökklastígvél eru mun skynsamlegri og þægilegri kostur en upphá stígvél. Þau passa einnig betur við þröngar og niðurmjóar buxur. Þú losnar líka við þrengsli yfir kálfann sem getur valdið blóðrásartruflunum. Á þessum myndum hérna fyrir neðan eru ökklastígvél frá Zöru lengst til vinstri, en stígvélið sem fyrir miðju er frá HM. Þau eru með örlítið rúnnaðri tá, ekki of rúnnaðri samt og eru mjög flott. Tærnar kremjast ekki í þeim og það er auðvelt að draga þau uppá fótinn. Það eru í þeim teygjur sem gefa eftir í hliðunum og hællinn er stöðugur og góður.

 

 

 

Ritstjórn október 25, 2019 12:16