Fimm mínútna förðun með Kristínu

Kristín Stefánsdóttir eigandi snyrtivörumerkisins No Name segir að allar konur geti lært að mála sig.  Það eina sem konur þurfi að hafa í huga þegar þær eru komnar yfir miðjan aldur er að „minna er meira“.

Kristín er lærður snyrti- og förðunarmeistari, alla þriðjudaga og föstudaga birtir hún ný myndbönd á netinu þar sem hún kennir konum ákveðin grunnatriði förðunar. „Ég byrjaði á þessu í nóvember og þetta hefur vakið mikla athygli. Ég er búin að vera með námskeið í förðun í 35 ár og það má segja að myndböndin séu nokkurskonar framhald á þeim. Konum finnst gott að geta rifjað það upp sem þær hafa lært og svo eru aðrar konur sem finnst þær hafa gagn af því að horfa á myndböndin og læra af þeim hvernig hægt er að farða sig,“ segir Kristín en auk þess að vera með námskeiðin og myndböndin býður hún konum upp á tveggja tíma einkakennslu sem þær geta pantað þegar þeim hentar.

Mörgum konum finnst erfitt að fara í snyrtivörubúðir og kaupa sér snyrtivörur enda úrvalið yfirgengilegt. „Konur þurfa alls ekki að eiga mikið af snyrtivörum þær þurfa þó að eiga ákveðinn grunn svo sem meik, hyljara, maskara, varalit og blýanta. Það þarf engin að eiga úttroðna stóra snyrtibuddu til að gera fimm mínútna förðun. Konur þurfa hins vegar að vita hvernig á að nota það sem þær kaupa og eiga. Það er það sem ég er að kenna bæði á námskeiðunum og á myndböndunum.“

Kristín segir að kona sem komin er yfir fertugt geti ekki málað sig eins og tvítug kona. „Við breytumst allar með aldrinum. Við fáum línur í kringum augu og munn og augnlokin geta farið að síga. Teygjanleiki húðarinnar minnkar, svo eru það skemmdir í húðinni af völdum sólar, æðaslits og ýmislegt fleira sem þarf að huga að með hækkandi aldri. Þetta þýðir hins vegar ekki að við getum ekki litið vel út. Það geta allar konur litið vel út sem hugsa vel um húðina og mála sig rétt.“

En á hvað eiga konur að leggja áherslu þegar þær farða sig. „Það er þráhyggja hjá mér að fá konur til að mála sig dagsdaglega,“ segir Kristín og skellihlær en bætir svo við „það eru ekki allar konur sem átta sig á því að meik er besta vörnin fyrir húðina. Meikið getur komið í veg fyrir að húðin þorni um of, konur fái æðaslit og það er ákveðin vörn gegn rósroða. Af þessum ástæðum ættu allar konur að nota meik. En eins ég sagði í upphafi þá er „minna meira“ þegar kemur að dagsdaglegri förðun fyrir konur sem komnar eru yfir miðjan aldur. Ég kenni konum að mála sig án þess að það sjáist og það er ekki svo flókið. Þegar við erum komnar yfir miðjan aldur leggjum við áherslu á að gera fallegar línur í kringum augun en sleppum miklum skyggingum eða þá að við leggjum áherslu á varirnar. Það hentar ekki öllum konum það sama. Mér finnst alltaf jafn gaman þegar konur hafa verið á námskeiðum hjá mér og segja svo, þetta er ekki svo flókið ég get alveg gert þetta sjálf!  Í dag er „highligter“ mikið í tísku en hann passar ekki fyrir eldri konur. Munum bara að við áttum okkar blómaskeið þegar við vorum ungar og gátum málað okkur eins og okkur sýndist. Nú er runnið upp nýtt skeið og það er engin ástæða til annars en að njóta þess líka, bara með örlítið breyttum formerkjum.

Hér fyrir neðan má sjá tvö kennslumyndbönd frá Kristínu þeir sem vilja skoða fleiri myndbönd geta farið inn á vefinn https://www.facebook.com/NONAMEcosmetics/

 

https://www.facebook.com/NONAMEcosmetics/videos/1980626531979184/

Fimm mínútna förðun á fimm mínútum

 

 

https://www.facebook.com/NONAMEcosmetics/videos/1983640351677802/

Svona er hægt að nýta varalitina

 

Ritstjórn apríl 18, 2018 06:24