Fyrirboðar, fyrirheit og takmörk

Áramót marka lok hins gamla og nýtt upphaf. Nýársnótt er töfrum slungin og þá taka kýrnar til við að tala og álfar að flytja búferlum. Á mörgum heimilum er það fastur liður að kíkja í bolla eða leggja spil á gamlárskvöld. Margir leggja einnig mikið upp úr því að muna þá drauma sem þá dreymir á nýársnótt en svo eru hinir sem strengja áramótaheit og vona að þeim endist viljastyrkur til að standa við það að minnsta kosti út janúar.

Hvort sem menn trúa á forlög eða mátt sinn og megin er það skemmtilegur samkvæmisleikur að leita svara í spilastokk, bolla eða draumtáknum. Bókin Fyrirboðar, tákn og draumráðningar eftir Símon Jón Jóhannsson veitir mönnum færi á að skoða ýmislegt tengt áramótum og öðrum tímamótum. Lítum á nokkur atriði af þeim sem standa til boða á nýársnótt.

„Stillt og bjart veður á gamlársdag er fyrirboði þess að næsta ár verði gott.

Vont veður á nýársdag boðar storma á komandi ári.

Sé í manni ólund um áramót verður árið erfitt en líði manni vel verður árið farsælt.

Gæta verður þess að hafa peninga í vasanum þegar nýtt ár gengur í garð því annars verða menn blankir allt árið.

Það sem menn gera á nýársdag munu þeir gera oft á komandi ári. Þess vegna er gott fyrir menn að kyssa einhvern svo þeir verði kysstir oft næsta árið, eða klæðast nýjum fötum því þá eignast þeir margar nýjar flíkur á árinu.

Menn eiga að varast að gefa gjafir á nýársdag eða fara með eitthvað burtu af heimilinu. Þá tapa þeir einhverju á árinu.

Komi dökkhærður karlmaður fyrstur inn á heimilið eftir miðnætti á gamlárskvöld boðar hann gott en það er ills viti komi ljóshærður maður fyrstur inn á heimilið á nýhöfnu ári og hræðilegt sé viðkomandi rauðhærður. Það boðar einnig illt ef konur eða rangeygðir eru fyrstu gestir á nýársnótt.

Það er ólánsmerki að hengja upp dagatal fyrir næsta ár áður en klukkan slær tólf á gamlárskvöld.

Svo er að marka allt sem menn dreymir á nýársnótt.“

Þarna er margt fróðlegt og gott að finna og um að gera að gæta þess að dökkhærður maður gangi fyrstur inn um dyrnar á heimilinu þessi áramótin. Sumir vilja gera upp öll gömul mál á gamlárskvöld og greiða skuldir sínar. Aðrir strengja heit og þau algengustu snúast um að hætta einhverju:

  1. Hætta að reykja
  2. Hætta að drekka
  3. Hætta að borða óhollan mat.

Næstalgengast er svo að heita því að byrja á einhverju:

  1. Byrja í ræktinni.
  2. Byrja í nýrri vinnu.
  3. Byrja að spara.
  4. Byrja nýtt líf.

Sumir eru svo ekkert sérlega bjartsýnir á mátt áramótaheita en þeir telja samt sem áður gott að lofa sér einhverju. Þeirra heit eru oft almenns eðlis eins og að vera góð/ur við sína nánustu, gæta þess að særa ekki aðra, sýna umhyggjusemi og gefa af sér. Það er gott að setja sér markmið og vinna ötullega að þeim og áramótin eru vissulega góð tímamörk að miða við. En það er alltaf best að ætla sér ekki um of og muna að guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 30, 2024 07:00