Tengdar greinar

Konurnar í kórnum!

Kvennakór Reykjavíkur á jólatónleikum í Seljakirkju í desember 2019 en kórinn hefur ekki haldið tónleika síðan. Með kórnum söng barnakór sem var settur saman af þessu tilefni en í honum voru börn tengd kórkonum.

Ágota Joó er frá Ungverjalandi en hefur verið búsett á Íslandi í rúm 30 ár og hefur því samanburð við annað menningarsvæði. Hún segir að kórastarf á Íslandi sé með því kraftmeira sem gerist í Evrópu. Við erum líklega að uppskera nú eins og til var sáð en tónlistarkennsla hefur verið mjög öflug á Íslandi og nú segir Ágota að konurnar í kórnum hennar hafi staðið sig eins og hetjur þótt þær hafi ekki getað hist svo mánuðum skiptir. “Þá tóku þær tæknina bara í sínar hendur og við höfum haldið uppi æfingum þrátt fyrir öll samkomubönn,” segir Ágota og er ánægð með sínar konur.

Kvennakór Reykjavíkur

Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi í janúar 1993. Hugmyndina átti Margrét J. Pálmadóttir og var hún stjórnandi frá stofnun kórsins til 1997. Þá tók Sigrún Þorgeirsdóttir við en núverandi kórstjóri er Ágota Joó sem tók við af Sigrúnu 2010. Engan bilbug er að finna á Ágotu þrátt fyrir samkomubann því hún segir að stjórn kórsins standi sig svo vel í að finna leiðir til að æfa þrátt fyrir allt. “Kórinn hefur lítið komið saman frá því í vor og við þurftum að gera breytingar á öllum æfingaplönum þegar í mars. Ég verð að segja að í mínum huga slá þessar konur heimsmet hvað eftir annað. Síðan covid skall á eru þær búnar að halda uppi starfi þótt við höfum lítið getað hist. Stjórn kórsins var alltaf skrefi á undan því gera þurfti miklar breytingar á starfseminni.” Ágota segist ekki vera sérstaklega tölvufær í tæknilegum fjarfundabúnaði en stjórn kórsins hafi komið því í kring að æfingar gátu haldið áfram þrátt fyrir covid.

Fjarfundabúnaður nýttur á æfingum

Kvennakór Reykjavíkur tekur æfingu á Zoom.

Kolbrún Halldórsdóttir er varaformaður stjórnar kórsins og hún segir að auðvitað hafi verið einhverjir tæknilegir örðugleikar til að byrja með en allt hafi gengið upp þrátt fyrir það. “Við höfum lagt upp með það að gera það besta úr öllum aðstæðum án þess að taka áhættu. Í okkar hópi eru konur í áhættuhópi og við gátum ekki hugsað okkur að ein einast kona færi heim af kóræfingu með covid svo við höfum vandað okkur mikið. Við byrjuðum aðeins að æfa í haust og hópaskiptum kórnum en streymdum æfingunum fyrir þær sem vildu vera með en treystu sér ekki að mæta.”

Kolbrún segir að kórkonurnar séu allar mjög þakklátar og spenntar að nota fjarfundabúnað til að geta æft og segir að tæknikunnátta hafi ekki verið vandamál. “Það eiga allar kórkonur börn eða jafnvel barnabörn sem geta aðstoðað þegar kemur að tæknimálum,”segir Kolbrún.“ Og ef því hefur ekki verið til að dreifa höfum við í stjórninni hjálpað til. Oftar en ekki er einhver annar í fjölskyldu kvennanna fyrir framan tölvuskjáinn þegar kveikt er á fjarfundabúnaðinum. Þá vitum við að fjölskyldan er sannarlega að taka þátt í kórastarfinu og hjálpa við tenginguna,”segir Kolbrún hlæjandi. “Þetta gengur allt mjög vel og nú höfum við hist einu sinni í viku, alveg eins og fyrir covid. Og nú erum við tilbúnar að stökkva á tónleika þegar það verður leyft,” segir hún og brosir.

Kórastarf geysilega mikilvægt

Ágota segir að kórastarfið sé ótrúlega mikilvægt fyrir konurnar í kórnum. “Við finnum vel hvað þær skemmta sér vel saman, líka þótt æfingarnar fari fram með fjarfundabúnaði. Æfingarnar lita daginn hjá öllum. Kórastarf gengur meðal annars út á að stilla hjörtu allra saman, þannig slá allar í takt. Núna í covid erum við að upplifa tilfinningar sem við höfum ekki fundið fyrir áður og hlökkum óskaplega mikið til að hittast, loksins þegar þessu erfiða tímabili lýkur.”

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Kolbrún Halldórsdóttir og Kolbrún Lilja Pétursdóttir systurdóttir hennar en þær sungu saman á aðventutónleikunum í Seljakirkju í desember 2019.

Ágota segir að líklega fái hún kór í allt öðru ástandi þegar þær mega hittast aftur því nú hafi konurnar fengið öðruvísi tækifæri til að æfa röddina. “Ég tók eftir því þegar við hittumst í smá tíma í vor að þær hljómuðu öðruvísi og ég er viss um að ég mun hitta glaðan kór þegar við munum geta hafið upp raust okkar saman á ný.”Kolbrún bætir við að kórfélagar upplifi mikið undur við að syngja saman. “Það er þessi samstaða og samhljómur sem við finnum allar svo sterkt fyrir.” Ágota segir dýrmætt að fylgjast með því hversu mikilvæg þátttaka í þessu fyrirbæri er í lífi kvennanna. “Það myndast í raun svo fallegt ástarsamband og vinátta hjá konunum og það er vinátta sem mun endast út lífið.”

Ýtir þeim út fyrir þægindaramman

Kolbrún segir að Ágota láti þær ekki bara syngja heldur líka klappa og dansa og þær hafi allar rosalega gaman að þess konar vinnu. “Við gerum þetta meira að segja með fjarbúnaði. Ég er búin að komast að því að þær geta miklu meira en þær halda,” segir Ágota hlæjandi.

Kolbrún segir að fyrst hafi þær litið vantrúaðar hver á aðra þegar Ágota stakk fyrst upp á svona viðbótum eins og klappi og stappi og spurt sig hvað Ágota væri eiginlega að meina. “En þegar upp var staðið var þetta ótrúlega skemmtilegt,” segir Kolbrún, hæstánægð með kórstjóra sinn.

 

Sóleig Baldurdsdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 24, 2020 07:35