Fyrstu og síðustu háhælaskórnir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Þegar ég var á þrettánda ári keypti bróðir minn skó handa mér með örlitlum hælum. Hann var háseti á togara og hafði farið í söluferð til Englands. Eftir bjór eða tvo hafði hann slegið til og keypt skó handa litlu systur. Ótrúlegt en satt þá pössuðu skórnir og mér fannst ég hafa breyst úr barni í dömu þegar ég fór í þá.  Um veturinn var ég að fara milli húsa með skóna góðu í plastpoka. Þegar ég kom á staðinn var bara einn skór í pokanum. Ég gleymi aldrei sorginni. Skórinn kom undan snjó um vorið – ónýtur.

Eftir því sem árin liðu eignaðist ég fjölmörg pör af skóm með háum hælum og breyttist alltaf í heimsdömu þegar ég fór í þá. Svo liðu árin. Ég fékk áfall þegar ég var að velja mér íþróttaskó og karlinn í búðinni ákvað að mæla á mér fæturna. Hann komst að því að annar fóturinn var orðinn styttri en hinn. Liðurinn við stóru tánna var að breytast og gefa sig. Margir þekkja þetta fyrirbæri með sára liði og aumar tær. Ég hélt þó ótrauð áfram og tróð mér í spariskó þegar ég ætlaði að vera fín. Sárir fætur og haltrandi göngulag var fórnarkostnaðurinn í tvo til þrjá daga á eftir. Í háhælaða skó skyldi ég – enda ekki spariklædd án þeirra.

Þegar ég kom haltrandi að morgunverðarborðin daginn eftir fínt boð, spurði sambýlingurinn af hverju ég væri hölt. Æi skórnir, var svarið.

Hann horfði á mig og sagði: Ég hef alltaf talið að þú værir þokkalega vel gefin, en nú efast ég um það. Hvað er þetta eiginlega með háa hæla og konur?

Sambýlingurinn hélt áfram og fór að útlista hvernig konur í Kína hefðu verið píndar með óhollum skófatnaði í gamla daga og líkti skónum mínum við þá. Háhælaðir skór væru ein af mörgum birtingarmyndum um  kúgun kvenna. Ég skammaðist mín og átti engin svör við því af hverju hárir hælar væru mikilvægir. Hann sagðist ekki taka eftir því hvort ég væri á lágbotnaskóm eða háum hælum en hann tæki eftir því hvort  ég væri hölt eða óhölt. Svo mörg voru þau orð.

Þetta samtal markaði upphafið að endalokum skópara með háum hælum í mínu lífi. Ég reyni að finna snotra lágbotna skó, en fín verð ég aldei.  Í trúnaði verð ég þó að játa að ég geymi nokkur yndisleg háhælapör enn innst í skápnum mínum í þeirri von að kraftaverkið gerist og að ég geti aftur svifið inn í veislusalinn í eldrauðum támjóum skóm með pinnahæla. Tími kraftaverkanna getur ekki verið liðinn, eða hvað?

 

Sigrún Stefánsdóttir maí 21, 2018 10:49