Að æða framhjá  

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Í síðustu viku skruppum við til höfuðborgarinnar og vorum þar nokkra daga. Við kölluðum þetta hvíldarinnlögn frá ferðalaginu innan dyra á Akureyri. Við ókum aftur norður í blíðunni á sunnudaginn. Ég lagði til að við færum inn í Hvalfjörð og stoppuðum á fallegum stað. Tillagan var samþykkt. Fuglarnir sungu vorsöngva, öldugjálfrið fyllti huga okkar af ró og við fundum fallega steina. Í kjölfarið keyrðum við inn í fjarðarbotn og nutum náttúrufegurðarinnar. Þegar til Akureyrar var komið vorum við sammála um að þetta hefði verið skemmtilegur dagur.

Undir venjulegum kringumstæðum þykir okkur afar leiðinlegt að keyra milli Akureyrar og Reykjavíkur og gerum það bara af því að flugið er dýrt. Við förum oft þessa leið og höfum lagt alls konar plön. Stoppum við Kolugil, skoðum Hvítserk, förum upp að Borgarvirki. En svo æðum við alltaf framhjá. Erum að flýta okkur. Ekki veit ég hvers vegna. Við erum ekki lengur að flýta okkur. Nú erum við á öðrum stað og erum að reyna að fá dagana til þess að líða. Þess vegna var ferðin inn í Hvalfjarðarbotn ekki tímasóun heldur upplifun.

Á þessu ferðalagi okkar fórum við líka að ræða um ferðalög sumarsins. Auðvitað innanlands. Öll verkefni sumarsins eru dottin upp fyrir enda flest tengd erlendum ferðamönnum sem munu halda sig fjarri landinu um skeið. Mörg undanfarin ár höfum við talað um að skoða Austurland, en höfum svo ekki mátt vera að því! Nú ætlum við að láta verða af því. Vegahandbókin er komin út á íslensku og verður tekin með í ferðina. Okkur langar til heimsækja Borgarfjörð eystri, Seyðisfjörð, Fáskrúðsfjörð og fleiri firði. Búa á góðum hótelum og ferðast hægt. Það verður gott að geta pantað sér pylsu í sjoppunni á íslensku og hitta einhverja skemmtilega Íslendinga sem eru að gera það sama og við. Að njóta þessa fallega lands.

Þegar ég skrifa þetta finn ég ylinn frá sólinni í bakið í gegnum stofugluggann og í morgun sáum við vin okkar til margra ára, maríuerluna, sem verpir árvisst í fuglahúsinu á suðurveggnum. Svei mér þá. Ég held bara að ég sé farin að hlakka til sumarsins.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir maí 4, 2020 09:01