Gatan mín Grænahlíð

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég flutti í Grænuhlíðina árið 1957, en þá var það glæný gata, alls sextán hús, allt sambýlishús reist um leið, Gatan var full af krökkum og mikill uppgangur í samfélaginu. Hvert og eitt hús í götunni var teiknað af arkitekt. Húsið okkar, Grænuhlíð 6, tveggja hæða bakhús, var teiknað af Gunnlaugi Pálssyni. Þrjú hús voru teiknuð af Sigvalda Thordarson, það voru Grænahlíð 7, 10 og 11. 10 og 11 voru þriggja hæða og voru máluð í hinum frægu Sigvalda litum. Húsið í Grænuhlíð 7, sem byggt var af Magnúsi Baldvinssyni múrarmeistara, var húðað með skeljasandi. Það var þriggja hæða hús, með jarðhæð, miðhæð og þriðju hæð, en sú þrið

Inga Dóra Björnsdóttir

ja var í raun tveggja hæða og var húsið sennilega eitt af fyrstu „penthúsum“ bæjarins. Ég veit ekki hvaða arkitektar teiknuðu hin húsin, en ekkert hús var eins.

Grænahlíð 12 skar sig úr. Það var í eigu Ágústar, föður Harðar Ágústssonar listmálara. Ágúst og fjölskylda hans höfðu búið í timburhúsi við Laugaveginn, sem þurfti að rífa vegna byggingar Landsbankans. Bankinn bætti þeim húsið, en nýja húsið varð að vera af sömu stærð og gerð hið gamla og er húsið í Grænuhlíðinni því eins konar timburhús úr steypu, ef svo má segja. Eftir lát föður síns, fluttu Hörður og kona hans þar inn.

Austurendi götunnar var lokaður af með hitaveitustokki, það var því lítil sem engin umferð um götuna. Gatan var auðvitað ekki malbikuð og kom skafarinn reglulega til að skafa götuna, og var hún öruggur leikvöllur fyrir okkur krakkana. Hitaveitustokkurinn var grafinn niður á sjötta áratugnum og þá var hinn endi götunnar byggður og þar er næstum hvert einasta hús, teiknað af Kjartani Sveinssyni. – Það eru með öðrum orðum, sjáanleg skil í íslenskri arkitektasögu í Grænuhlíðinni.

Ég vil nefna nokkra af íbúum götunnar á nafn. Þórður Hermansson, togaraskipstjóri, bróðir Sverris Hermanssonar bjó í húsi númer 4 ásamt fjölskyldu sinni. Ásta Ásgeirsdóttir mikill kvenskörungur, systir Ásgeirs forseta, bjó í húsi númer 5 með manni sínum Hjalta Gunnarssyni. Vilhjálmur Bjarnason ólst upp í húsi númer 9, og í sama húsi bjó um tíma Drífa Hjartardóttir, en Vilhjálmur og Drífa sátu síðar bæði á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Árni Björnsson lýtalæknir faðir, Einar Sveins, bjó með fjölskyldu sinni, í húsi númer 10.  Í húsi númer 11 bjó Hildur Hauksdóttir, móðir hinnar frægu Bjarkar.  Í sama húsi bjó Jón Kjartansson forstjóri Áfengisverslunarinnar og fjölskylda hans. Sveinn Skorri Höskuldsson bjó í bakhúsi númer 14.

Stefán Jóhann Stefánsson ráðherra, þá orðinn gamall maður, bjó í húsi númer 13, en það hús er í nýrri hluta götunnar. Þekktasta fólkið í dag úr nýrri hluta götunnar er án efa, Sjólafjölskyldan, en Ragnheiður sem á og rekur Hannesarholt ólst þar upp ásamt bræðrum sínum.

Á efstu hæð í húsi númer 8, beint á móti mínu húsi, bjó Þórður Pétursson ásamt konu sinni og þremur börnum. Þórður var skipstjóri á togaranum Júlí, sem fórst undan strönd Nýfundnalands þann 8. febrúar 1959. Þórður og 30 manna áhöfn togarans, sem var úr Reykjavík og úr Hafnafirði og var á aldrinum 16-48 ára, fórst með togaranum. Þennan dag urðu 39 börn föðurlaus á Íslandi, þar á meðal var Hafdís dóttir Þórðar, sem var ári yngri en ég og leikfélagi minn.

Einu vil ég bæta við; Á hæðinni fyrir ofan okkur í húsinu númer 6, bjó Karl Tryggvason, eldri bróðir Björns Tryggvasonar, sem starfar sem læknir í Stokkhólmi. Karl var bekkjabróðir Ágústar Guðmundssonar kvikmyndagerðarmanns í MR. Tryggvi, faðir Karls var bryti á Tröllafossi. Mér var sagt að eitt sinn þegar Tryggvi tók Ásu konu sína með sér í ferð, þá notuðu Karl og Ágúst tækifærið og nýttu íbúðina, sem sviðsmynd fyrir fyrstu kvikmynd Ágústar. Það mun hafa verið morðmynd, svo með öðrum orðum, var framið morð í Grænuhlíð 6!

 

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir október 13, 2019 00:57