„Við mótmælum allar“

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

 Ég var minnt á það nýlegan við lestur góðrar bókar, að það hefur tíðkaðist víða um heim og gerir víða enn, að ættir eru byggðar á karlleggnum einum saman.

Feður og synir, bræður og forfeður eru frændur og ættmenni, en mæður, dætur og systur eru þeim óskyldar og því ættlausar.

Þannig var því aldrei háttað á Íslandi.

Íslendingar hafa ávallt rakið ættir sínar í bæði karllegg og kvenlegg. En þó svo sé, þá var ég minnt á við lestur þessarar góðu bókar, að á meðan minningum um karlmenn úr mínum ættum og sögur af störfum þeirra og afrekum var gjarnan haldið á lofti, var sárasjaldan minnst á mæður þeirra, systur, eiginkonur eða dætur.

Í ljósi þess ákvað ég að kynna mér líf formæðra minna og sú fyrsta sem varð fyrir valinu var ein af langömmum móðurömmu minnar í föðurætt.

Hún hét Matthildur eins og amma  mín og var Teitsdóttir og var fædd að Seli í Reykjavík 27. september 1795.

Foreldrar hennar voru þau hjónin Teitur Þórðarson (1754-1813) og Ástríður Ingimundardóttir (1752-1825). Þau bjuggu fyrst að Seli í Reykjavík og síðan að bænum Hittu í Kjós.

Ekkert er vitað um æskuár Matthildar, en það fyrsta sem um hana er vitað er að þann 7. apríl 1818, gekk hún að eiga séra Pál Pálsson í Reykjavík. Matthildur var að verða 23 ára, en Páll, sem var fæddur 17. maí 1797, var tveimur árum yngri en hún.

Presturinn og prestmaddaman

Páll var af embættis- og efnamönnum kominn og lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla vorið 1815. Það haust sigldi hann til Kaupmannahafnar og hóf nám við Hafnarháskóla í guðfræði og lögfræði. Hann snéri aftur heim til Íslands eftir skamma dvöl, próflaus.

Prófleysið kom ekki að sök og tveim árum eftir að Matthildur og Páll gengu í hjónaband, eða árið 1820, var Páll ráðinn sem aðstoðarprestur séra Bergs Jónssonar að Kirkjubæjarklaustri.

Þrem árum síðar lét séra Bergur af störfum og var Páll ráðinn í hans stað sem sóknarprestur að Kirkjubæjarklaustri og síðar varð hann prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu.

Fyrstu sjö árin bjuggu þau Matthildur og Páll að Klaustri, en árið 1830 fluttu þau að bænum Hörgsdal á Síðu og bjugga þar alla tíð síðan.

Páll var þekktur en hver var Matthildur Teitsdóttir?

Séra Páll Pálsson var mikils metinn mektarmaður og er hin svo kallaða Pálsætt við hann kennd. Sú ætt þótti fín og var amma mín afar stolt yfir því að vera af Pálsættinni og minntist hún oft þessa merka ættföður síns og afkomenda hans.

Töluvert er til að heimildum um líf og störf séra Páls, en fáar sem engar um Matthildi konu hans.

Eina persónulega lýsingin, sem ég fann af henni, var í grein eftir Björgu Einarsdóttur fræðikonu og rithöfund, en Björg var afkomandi Matthildar og Páls.

Lýsingin Bjargar á Matthildi hljómar svo:

„Matthildur Teitsdóttir þótti mjög fyrir öðrum konum fara um marga hluti og hefur nafn hennar haldist í ættinni“.

Hvernig Matthildur Teitsdóttir „fór fyrir öðrum konum um marga hluti“ er ekki útskýrt nánar, en rétt er að nafn hennar hefur haldist í ættinni og þær eru margar Matthildarnar, sem frá henni eru komnar.

Sextán börn á tuttugu árum

Svo hver var Matthildur Teitsdóttir?

Hvernig leit hún út?

Hvernig var hún skapi farin?

Hverjar voru vonir hennar og þrár?

Við munum seint fá svar við þessum spurningum, en það er ein reynsla, sem hún gekk í gegnum, sem konur sem hafa alið börn, geta samsamað sig við, en það var reynslan hennar af því að ganga með og fæða barn.

Ég segi þetta þó með fyrirvara, því að engin núlifandi kona á Íslandi, að mér vitandi, hefur alið 16 börn eins og Matthildur Teitsdóttur gerði.

Matthildur fæddi börnin sín sextán á tuttugu ára tímabili, eða á árunum 1818 til 1838.

Hér kemur skrá yfir þau:

Fyrsta barn Matthildar og Páls, Guðrún, fæddist árið 1818, því er ljóst að Matthildur var með barni á brúðkaupsdegi þeirra hjóna.

Guðrún lést árið 1836, átján ára að aldri.

Annað barn þeirra, Sigríður fæddist ári síðar, árið 1819 og lést árið 1854, 35 ára aldri.

Ragnheiður, sem fæddist snemma árs árið 1820 og lést 85 ára gömul árið 1905.

Síðla sama ár og Ragnheiður fæddist, árið 1820, fæddist Valgerður.

Hún lést árið 1899, 79 ára að aldri, sex árum á undan systir sinni og jafnöldru Ragnheiði.

Árið 1821 varð eins árs hlé á barneignum Matthildar, en árið 1822 fæddist dóttirin Guðný, sem lést fljótlega eftir fæðingu.

Ári síðar, árið 1823, ól Matthildar enn eina dótturina, og var hún líka skírð Guðný.

Guðný lést fimmtug að aldri, árið 1873.

Eins og sjá má eignuðust Matthildur og séra Páll sex dætur á fjórum árum, og komust fimm þeirra á legg.

Eftir þetta tímabil fylgdi hrina af sonum.

Fyrsti sonurinn, Páll, alnafni föður síns, fæddist árið 1824. Hann lést árið 1895, 71 árs að aldri.

Sonurinn Þorgils fæddist tveim árum síðar, eða árið 1826. Hann lést tveggja ára að aldri, árið 1828.

Ári eftir fæðingu Þorgils, árið 1827, ól Matthildur níunda barnið, soninn Magnús, sem lést árið 1868, 41 árs að aldri.

Ári síðar, árið 1828 fæddist fjórði sonurinn Ólafur, sem lést á fyrsta ári.

Tíu börn á tíu árum

Það er rétt að staldra aðeins við hér og nefna að árið sem Ólafur fæddist voru tíu ár liðin frá því að Matthildur og Páll gengu í hjónaband.

Á þessum tíu árum hafði Matthildur alið Páli tíu börn, sem þýðir að hún hafði verið barnshafandi samanlagt í 90 mánuði af þeim 120 mánuðum, sem þau Páll höfðu verið í hjónabandi.

Sjö barna hennar voru á lífi, en hún hafði fylgt þremur þeirra til grafar, einni dóttur og tveimur sonum.

Tvö ár liðu frá fæðingu Ólafs þar til Matthildur ól annað barn, en árið 1830 átti hún son, sem var líka nefndur Ólafur. Hann komst á legg og lést 64 ára að aldri, árið 1894.

Ári síðar, árið 1831, fæddist dóttirin Þorgerður. Hún lést 29 ára gömul, árið 1860.

Barneignir Matthildar héldu áfram:

Sonurinn Jón fæddist 1832 og varð hann langlífastur barna Matthildar og Páls.

Hann lést árið 1925, 93 ára að aldri.

Árið 1834 fæddi Matthildur dótturina Karítas. Karítas lést ári síðar, árið 1835.

Ári eftir lát Karítasar fæddi hún son, sem var skírður Ólafur, eins og eldri bróðir hans.

Ólafur yngri náði aðeins einu ári og lést árið 1837.

Ári eftir að Ólafur yngri lést, ól Matthildur Teitsdóttir sitt síðasta barn, dótturina Matthildi. Hún  fæddist árið 1838, en þá var Matthildur 43 ára gömul. Þá höfðu hún og Páll verið gift í tuttugu ár. Matthildur yngri lést 78 ára gömul, árið 1916.

Sem sagt, Matthildur Teitsdóttir átti sextán börn, níu dætur og sjö syni.

Fimm þeirra létust ung, þrír synir og tvær dætur.

Barneignum lokið betra líf framundan?

Það hefði verið gaman að geta sagt þá sögu, að líf Matthildar hafi orðið léttara eftir að barneignum hennar lauk. En sú var ekki raunin.

Matthildur og séra Páll bjuggu stóru búi að Hörgsdal og þar var mörgu að sinna og þurfti töluverðan mannafla til að reka búið. Samkvæmt manntalinu frá árinu 1835 voru þau hjónin með þrjá vinnumenn í vinnu og tvær vinnukonur, auk þjónustustúlku að nafni Guðríður Jónsdóttir, sem var 26 ára gömul.

Koma hennar inn á heimili presthjónanna hafði afdrífaríkar afleiðingar fyrir líf Matthildar og allrar fjölskyldunnar.

Guðríður var níu árum yngri en Matthildur og ljóst er, að fljótlega eftir komu hennar inn á heimilið, fór séra Páll að gefa henni hýrt auga. Og svo fór að Guðríður þjónaði séra Páli ekki aðeins til borðs heldur einnig til sængur og árið 1836 ól hún honum son sem hlaut nafn prestsins föður síns Páls. Hann lést skömmu eftir fæðingu.

Þetta gerðist á sama ári og Matthildur gekk með son þeirra hjóna Ólaf, en hann lést eins og  áður er getið, eins árs gamall.

Ljóst er af þessu, að sómamaðurinn Páll Pálsson, prestur og prófastur Vestur-Skaftfellinga hafði framið hórbrot inni á eigin heimili.

Vera má að séra Páll hafi um stund iðrast gjörða sinna og hafi reynt að bæta ráð sitt með því að sænga með Matthildi, því tveimur árum eftir fæðingu sonar Guðríðar og Páls, ól Matthildur yngsta barn þeirra hjóna, Matthildi yngri. 

Húsmóðirin varð að húskonu

Hafi Matthildur yngri átt að vera sáttarbarn, þá dugði það ekki til, því tveim árum eftir fæðingu hennar, árið 1840 voru foreldrar hennar skilin á borð og sæng, og samkvæmt manntalinu frá því ári er prestmaddaman Matthildur Teitsdóttir ekki lengur skráð sem húsmóðir heimilisins, heldur sem húskona.

Húskonur voru einu þrepi ofar í tign en vinnukonur. En í raun var staða þeirra og hlutskipti þau sömu og vinnukvenna: Þær unnu sér fyrir fæði og klæði og áttu sitt flet í baðstofunni.

Á sama tíma og Matthildur varð húskona varð, samkvæmt manntalinu frá 1840, var þjónustustúlkan Guðríður Jónsdóttir titluð sem bústýra heimilsins. Fjórum árum síðar reis hún enn ofar í virðingarstiganum: Hún varð prestmaddama og húsmóðirin að Hörgsdal, en hún og séra Páll gengu í hjónaband að Kirkjubæjarklaustri, í kirkju sérs Páls, þann 24. mars 1844.

Rétt eins og Matthildur forðum, var Guðríður barnshafandi þegar þegar hún og Páll gengu í hjónaband og ól hún dótturina Guðrúnu síðar sama ár.

Matthildur var 42 ára þegar henni var steypt af stalli og hún gerð að húskonu á sínu eigin heimili. Þar dvaldi hún næstu 13 árin eða þar til hún lést árið 1850, 55 ára að aldri, farin af heilsu,og án efa södd lífdaga.

Hvernig gat hún látið bjóða sér þetta?

Konur í dag, sem heyra þessa frásögn um líf og örlög Matthildar Teitsdóttur spyrja sig án efa að því hvernig í ósköpunum gat hún látið bjóða sér aðra eins meðferð?

Af hverju gekk hún ekki út af heimilinu rétt eins og Nóra í Brúðuheimilinu?

Matthildur var engin Nóra og heimili hennar var fjarri því að vera borgaralegt brúðuheimili.

Það var rammíslenskt sveitaheimili, sem hýsti auk fjölskyldu hennar, niðursetninga og vinnumenn og vinnukonur.

Ólíkt Nóru hafði Matthildur í engin önnur hús að venda og réttarstaða hennar sem fráskilin kona var mjög veik. Hún gat hvorki gert tilkall til eigna búsins né til yfirráða yfir börnunum sínum. Hún gat því ekki, eins og konur geta í dag, sett á stofn nýtt heimili og umgengist börn sín reglulega.

Eina leiðin til að hafa í sig og á og til að geta verið hjá börnunum sínum, sem sum voru enn á unga aldri, átti Matthildur engra annarra kosta völ en að vera um kyrrt.

Með öðrum orðum varð Matthildur að sætta sig við að vera daglega minnt á þá vanvirðingu og þá niðurlægingu, sem fyrrverandi eiginmaður hennar og faðir barnanna hennar sextán, hafði látið hana sæta, og þar að auki að umgangast daglega nýju prestmaddömuna frú Guðríði.

Konuna sem hafði komið inn á heimilið sem Matthildur sjálf hafði stjórnað í 22 ár, til að létta undir með henni, en hafði þess í stað, vegna kynþokka síns og ungs aldurs, steypt henni af stalli.

Séra Páll hélt sinni reisn og meira en svo 

Erfitt er að segja til um hvernig samsveitungar og sóknarbörn séra Páls brugðust við framferði hans.  Það var sennilega á flestra vitorði að Páll hafði framið hórbrot, þar sem kona hans Matthildur og þjónustustúlkan Guðríður ólu honum barn á sama ári.

Vera má að Páll hafi fengið opinberar ávítur fyrir framferði sitt, en ef svo var, komu þær honum ekki að sök.

Hann hélt embætti sínu, virðingu og vinsældum, sem sýndi sig meðal annars í því, að ári eftir að Matthildur lést, árið 1851, var hann valinn til að sitja fyrir hönd Vestur- Skaftfellinga hinn fræga þjóðfund sem haldinn var í húsi Lærða skólans í Reykjavík. Þessi fundur er talinn einn af mikilvægustu fundum Íslandsögunnar, en þar var tekist á um framtíðar stjórnskipun Íslands.

Trampe greifi, sem var æðsti maður Dana á Íslandi á þeim tíma kallaði til fundarins og stjórnaði honum og fundinn sátu þjóðkjörnir fulltrúar og konungskjörnir fulltrúar.

Trampe greifi var fundarstjóri og á fundinum lagði hann fram frumvarp, sem fól í sér að Ísland yrði algjörlega innlimað í Danmörku og á Íslandi myndu gilda sömu lög og reglur og í Danmörku.

Íslandi yrði að amti, sem skilgreina má sem einhvers konar hérað eða stjórnsýslueiningu innan konungsveldis Danmerkur.

Alþingi yrði að eins konar héraðsþingi og þingmenn þess mundu velja sex fulltrúa á danska þingið.

Konungskjörnu fulltrúarnir á þingfundinum, sem voru sex að tölu, voru hlynntir þessu frumvarpi, en þjóðkjörnu fulltrúarnir 37 voru allir á móti því. Hinir þjóðkjörnu fulltrúar, undir forystu Jóns Sigurðssonar, vildu innlent stjórnvald, löggjafarvald, dóms-og framkvæmdavald og fjárforræði.

Þegar Trampe greifi áttaði sig á að þjóðkjörnu fulltrúarnir myndu fella frumvarpið, sleit hann fundi. Jón Sigurðsson reis upp og gagnrýndi ákvörðun hans um fundarslit og í nafni konungs og þjóðarinnar mótmælti hann því ranglæti sem haft væri í frammi. Þá risu þjóðkjörnu fulltrúarnir íslensku úr sætum sínum og tóku undir með Jóni og hrópuðu hinn fleygu orð „Vér mótmælum allir“.

Við mótmælum allar

Séra Páll var einn þeirra manna sem hrópaði hátt í nafni réttlætisins, þess réttlætis að íslenskir karlmenn fengju að ráða sér sjálfir í stað þess að þurfa að lúta valdi danskra ráðamanna og Danakonungs.

En hvorki Páll né neinn hinna þjóðkjörnu fundarmanna höfðu annað í huga en að tryggja íslenskum karlmönnum völd til að ráða yfir íslensku samfélagi.

Helmingur þjóðarinnar, konurnar og réttindi þeirra, voru víðs fjarri þeirra huga, og orðið kvenréttindi var vart að finna í orðaforða þessara manna.

Íslenskar konur risu upp hálfri öld eftir andlát Matthildar og hófu að mótmæla því misrétti sem þær voru beittar og hafa þær verið að mótmæla þessu óréttlæti, með hléum, æ síðan.

Ég leyfi mér að halda því fram, að ef Matthildur Teitsdóttir, sem þótti, eins og áður sagði, „mikið fyrir öðrum konum fara um margt“, hefði verið uppi í dag, þá hefði hún skipað sér í fremstu röð MeToo-hreyfingarinnar og tekið undir með milljónum kvenna víða um heim og hrópað með þeim hátt og snjallt:

„Við mótmælum allar.“

Inga Dóra Björnsdóttir desember 17, 2023 07:00