Getur borgað sig að flýta töku lífeyris

Það er hægt að hækka lífeyrisgreiðslur með því að fresta töku lífeyris og þannig hefur það verið um árabil. Þrátt fyrir það, eru ýmsir þannig staddir að það borgar sig ekki fyrir þá að fresta töku lífeyris, því  þótt framlag úr lífeyrissjóðnum hækki við það, lækkar upphæðin sem menn fá frá Almanna tryggingum á móti og þannig getur einstaklingurinn komið út á sléttu.

Fær lífeyri úr fjórum sjóðum

Lifðu núna hefur fengið ábendingar um þetta, meðal annars frá konu sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hún á rétt á greiðslum úr fjórum lífeyrissjóðum. Hún er enn að vinna 69 ára gömul, en ákvað samt að hefja töku lífeyris hjá þessum fjórum sjóðum þegar hún varð 65 ára, eins og hún hafði heimild til að gera.  Hún fær 110 þúsund krónur á mánuði frá sjóðunum, sem gerir um 60.000 krónur eftir skatt. Þessum fjármunum hefur hún safnað inná bók, nokkurs konar séreignasparnaði, sem í dag er orðinn yfir 2 milljónir króna.

Fengi bara lágmarksgreiðslu frá TR

Hefði hún ekki gert það, hefði hún orðið af þessum peningum, en lífeyrisjóðsgreiðslur hennar hefðu aftur hækkað og orðið nokkuð hærri en þær eru núna. En þá hefðu greiðslur TR til hennar lækkað á móti og hún verið jafnsett og áður. Eða eins og hún orðaði það sjálf. „Ég fengi bara lágmarksgreiðslur frá TR eins og ég hefði aldrei greitt í lífeyrissjóð. Því hefði einu gilt þótt ég hefði fengið nokkrum krónum meira við frestun lífeyrissjóðsgreiðslna og ég hefði orðið af þessum milljónum sem ég hef fengið út úr mínum lífeyrissjóðum, með því að flýta töku lífeyris.

Aðstæður fólks mjög mismunandi

Þegar svona dæmum er brugðið upp, er ástæða til að vekja athygli á að aðstæður fólks eru afar mismunandi og mjög mismunandi hvernig samspil lífeyrisgreiðslna og greiðslna frá TR er. Menn þurfa því að skoða það mjög vel, hver fyrir sig, hvað best er að gera varðandi töku lífeyris. En þó lífeyrisgreiðslur hækki ef töku lífeyris er frestað, er ekki endilega víst að það skili sér í vasann til fólks þegar upp er staðið.

Ritstjórn apríl 18, 2017 11:03