Gott ef aldraðir stofnuðu stjórnmálaflokk

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara

Fólk sem er komið yfir 55 ára aldur er ekki fyrirferðarmikið í stjórnum Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og Fjarðabyggðar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Af 35 kjörnum fulltrúum eru einungis 3 innan þessara sveitarstjórna sem eru orðnir 55 ára eða eldri, eða 8.5%. Fólk á þessum aldri er um 24% af heildarfjölda landsmanna. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir að það væri gott ef aldraðir gætu stofnað stjórnmálaflokk til að berjast fyrir sínum hagsmunum. Hún hafi hins vegar enga trú á að af því verði og muni ekki beita sér fyrir því. „Margir sem eru farnir að eldast eru fastir í þeim stjórnmálaflokkum sem þeir hafi fylgt allt lífið“, segir hún. Stofnun stjórnmálasamtaka eldri borgara hafi verið reynd fyrir nokkrum árum og menn hafi verið komnir af stað með hana. Þá hafi annar hópur  aldraðra tekið sig til og viljað stofnan annan flokk. Hvoru tveggja hafi runnið út í sandinn

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri segir að umræða um að stofna flokk eldra fólks hafi nokkrum sinnum komið upp. Ekki hafi virst grundvöllur fyrir slíku og ekki sé að sjá að svo sé frekar nú. „Það virðist sem eitthvað róttækt þyrfti að gerast sem snertir hagsmunamál eldra fólks, svo sem eins og mjög miklar og alvarlegar bótaskerðingar eða slíkt, til að af því verði“, segir hann.

„Það er langbest að stjórnvöld á hverjum tíma séu spegilmynd af samfélaginu“, segir Jóna Valgerður. „Það þarf að vera jafnræði bæði hvað varðar kyn og aldur“. Hún segist vona að með öldungaráðum í sveitarfélögunum verði hægt að hafa áhrif á málefni aldraðra í sveitarstjórnum. Hún segir að í litlum sveitarfélögum á landsbyggðinni sé beinlínis erfitt að fá menn til að gefa kost á sér í sveitarstjórnir. Þar þurfi menn að leggja á sig mikla vinnu en fái lágar greiðslur fyrir.

 

 

Ritstjórn júní 26, 2014 10:36