Getur gert allt með sinn nýja mjaðmalið

Á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, er boðið uppá margvíslega endurhæfingu og þjónustu. Auður Stefánsdóttir kennari er þessa dagana í Hveragerði að jafna sig eftir aðgerð þar sem skipt var um mjaðmalið öðru megin. Aðgerðin var gerð í nóvember og gekk mjög vel, en á eftir fylgdu verkir sem erfitt er að finna skýringar á. „Það er ekki alveg ljóst hvers vegna ég hef þessa verki“, segir Auður. „Það kann að vera að ég sé búin að hlífa fætinum svo lengi, að vöðvarnir séu orðnir stífir. En ég er með fótinn í strekkingu og það er verið að teygja þetta allt og toga“.

Norbert er snillingur

„Ég fer í sjúkraþjálfun þrisvar í viku og er svo bæði í sundleikfimi og venjulegri leikfimi. Auk þess fer ég í hálftíma göngu á hverjum degi. Á kvöldin er hins vegar slakað á. Svo eru hér ýmsir fyrirlestrar. Ég var á alveg dásamlegum fyrirlestri í gær um húmor, sem heilandi kraft. Sá sem flutti fyrirlesturinn heitir Norbert og er hjúkrunarfræðingur. Hann er Þjóðverji sem er búinn að vera hér lengi og er kominn með íslenskan ríkisborgararétt. Hann er bara snillingur. Hann hafði með sér leikmuni og sagði brandara, sem tengdust köflunum í erindinu sem hann hélt. Fólk veltist um af hlátri, stjórnlaust má segja, það var engin leið að hætta, hann var svo skemmtilegur“, segir Auður og hlær.

 Eins og að koma heim

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Auður fer í Hveragerði. „Ég kom fyrst hingað árið 2014 og var í þrjár vikur.  Svo var ég hér í þrjár vikur í haust til að undirbúa mig fyrir aðgerðina“. Hún segist ekki finna mikið til í mjöðminni sjálfri, verkirnir séu í fætinum. „En ég virðist vera á góðri bata leið eftir meðferðina hérna. Þetta er þriðja vikan mín, en ég verð í fjórar“. Hún segist bjartsýn á að hún muni ná sér vel. „Sjúkraþjálfarinn er það“, segir hún hressilega. Hún er líka í sjúkranuddi sem hún segir frábært og að koma í Hveragerði sé næstum eins og að koma heim, þar séu enn sömu starfsmenn og voru þegar hún kom þangað 2014. “Það eru allir af vilja gerðir, að gera allt fyrir mann“, bætir hún við.

Spilar golf með nýju mjaðmaliðina

Það er ekki óalgengt þegar skipt er um mjaðmalið öðru megin, að það þurfi að skipta síðar um hinn mjaðmaliðinn. Auður segir að hún eigi að geta gert allt, með sinn nýja mjaðmalið. „Ég má fara á skíði og gera nánast hvað sem er. Það eina sem ég má ekki gera, er að stíga út úr bíl með annan fótinn en skilja hinn eftir. Það þarf að setja báða fæturna samhliða út úr bílnum þegar farið er út, til að ekki komi skekkja á mjöðmina. Svo gleymir maður þessu og það er yfirileitt allt í lagi. Ég á rúmlega sjötuga vinkonu sem er búin að fá nýja mjaðmaliði báðum megin og hún fer í golf og gerir allt. Fólk er ótrúlega fljótt að ná sér eftir þessar aðgerðir, það heyrir til undantekninga að fólk fái verki og yfirleitt eru menn búnir að ná sér alveg eftir 8 vikur“, segir Aður sem á einmitt pantað í golf í vor.

Ritstjórn febrúar 28, 2019 07:50