Prins Harry: Varadekkið og litli putti speleman…

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Nú logar allt stafna á milli vegna útkomu bókar Harry Bretaprins, Spare, eða Varadekkið.

Í bókinni lýsir Harry lífi sínu og hinni neikvæðu reynslu af því að alast upp innan hinnar breysku, bresku konungsfjölskyldu.

Bandaríkjamenn hafa yfirleitt tekið bók Harry vel. Samúð þeirra er með prinsinum, yngsta og viðkvæmasta barninu í fjölskyldu Karls Bretaprins. Bandaríkjamenn voru sjálfir eitt sinn í svipaðri stöðu og hann, langt frá móðurlandi sínu Bretlandi og beittir órétti af fjarlægum föður, breska konungnum. Þeir gerðu endanlega uppreisn gegn honum og losuðu sig undan hans valdi. Frá því eru liðin tæp 250 ár og hafa Bandaríkjamenn æ síðan, með misgóðum árangri, kosið sér forseta á fjögurra ára fresti.

Viðbrögð Breta við bók Harry hafa hins vegar verið mjög misjöfn og oft mjög neikvæð. Mörgum finnst lýsing Harry á framkomu konungsfjölskyldunnar í hans garð vera óréttlát og ósönn.

En ósannindi Harry og óvirðingin, sem hann er sagður sýna bresku konungsfjölskyldunn í bók sinni, er þó ekki eina ástæðan fyrir þeim skjálfta, sem útkoma hennar hefur valdið í bresku samfélagi. Það býr önnur og dýpri ástæða að baki honum, en hún er sú, að frásögn Harry grefur, sem aldrei fyrr, undan þeirri aldagömlu trú að breska konungsveldið hvíli á guðlegum grunni og að konungborið fólk sé öðrum æðra og aldrei megi á það halla.

Fyrir allmörgum árum hlustaði ég á mannfræðing flytja fyrirlestur um rannsókn sína á bresku konungsfjölskyldunni, sem byggð var á grunni táknfræðinnar. Táknfræðin var, hér áður fyrr, oft notuð til að greina stöðu konunga og trúarleiðtoga í nýlendum Afríku.

Í rannsókn sinni komst mannfræðingurinn að þeirri niðurstöðu, að lítill munur var í raun á hugmyndum Afríkubúa og Evrópubúa um hver grunnurinn að veldi konunga þeirra væri. Konungar í Evrópu jafnt sem í Afríku voru útvaldir af Guði og þáðu vald sitt frá honum.

Konungar í Afríku og Evrópu deildu einnig þeim einstöku eiginleikum að afkvæmi þeirra voru þau einu sem voru hæf til að taka við konungstigninni að þeim látnum.

Í áðurnefndri rannsókn var sérstaklega fjallað um Elísabetu Bretadrottningu, og sýndi hún fram á, að þó Elísabet væri mannleg, þá var hún, sem drottning, af guðlegum toga og hirðin þurfti að umgangast hana á þeim forsendum.

Hin guðlega staða hennar lýsti sér í mörgu, meðal annars í því að líkami hennar var heilagur og aðeins útvaldir máttu annast hann og snerta.

Fyrir utan eiginmann hennar og börn, máttu engir aðrir en hirðlæknir Elísabetar og hirðmeyjar hennar snerta hann. Hirðmeyjarnar urðu að vera af aðalsættun og valdi drottningin þær jafnan sjálf í þjónustu sína úr eigin frændgarði. Það fylgdi því mikill heiður að vera hirðmeyja drottningar og fá tækifæri til að sinna líkamsþörfum hennar.

Allur fatnaður drottningar var sérsaumaður, en drottningin mætti aldrei sjálf í mælingu né í mátun hjá klæðskera hirðarinnar. Eins og aðrir óguðlegir menn mátti hann ekki snerta drottninguna. Í hennar stað mætti aðalskona hjá klæðskeranum, sem var jafn há og jafn þung og drottningin og með sama vaxtarlag.

Elísabet var mikil hestakona og átti marga hnakka um ævina. Þeir voru allir sérsmíðaðir fyrir hana. Því var eins farið með hnakkana og með fötin: drottningin mætti aldrei sjálf í mátun hjá söðlasmiðnum. Í hennar stað mætti aðalskona með klof í laginu eins og klof drottningarinnar.

Drottningin var af þessari sömu ástæðu, alltaf með hanska, þegar hún kom fram opinberlega. Þó hún hafi ógjarnan heilsaði fólki með handabandi að fyrra bragði, var alltaf hætta á því að fólk rétti henni höndina, og þá varð hið heilaga hold að vera varið gegn óvæntri snertingu af holdi dauðlegrar mannveru.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi af heilagleika drottningar úr fyrirlestrinum góða, en læt þetta nægja.

Þau atriði sem nefnd voru hér að ofan, gefa ljóslega til kynna, að litið var á Bretadrottningu sem guðlega veru, enda breska konungsveldið byggt á guðsvilja. Samkvæmt þessu hvílir það á óhagganlegum grunni, grunni, sem breska þjóðin hefur alla tíð getað reitt sig á í ólgusjó tímans og sögunnar.

Margir hafa áður gagnrýnt breska konungsveldið og konungsfjölskylduna og sagt ljótar sögur úr hennar ranni. En enginn úr innsta kjarna fjölskyldunnar hefur fyrr tjáð sig jafn opinskátt um líf hennar og Harry gerir í  bók sinni og er fátt um guðlega drætti í frásögn hans.

Bók Harry sýnir að breska konungsfjölskyldan er, rétt eins milljónir fjölskyldna um allan heim, stórgölluð og ófær um að takast á við bæði smá og stór vandamál og þar með engu betur hæf en aðrar fjölskyldur til að drottna yfir Bretlandi.

Nú verður Karl Bretaprins krýndur  konungur breska sambandsveldisins sjötta maí næstkomandi og samkvæmt nýlegri frétt í Guardian, er verið að smíða handa honum nýjan gullvagn, sem mun flytja hann og Camillu til og frá vígsluathöfninni í Westminister Abbey, en þar mun æðsti prestur ensku kirkjunnar krýna hann til konungs.

Tíminn mun leiða í ljós hvort hin guðlega konungstign Karls muni styrkja stöðu hans og konungsfjölskyldunnar og færa breskum þegnum á ný þá fullvissu, að grunnur breska konungsveldisins sé traustur, þrátt fyrir hina stóru skjálfta sem hann hefur þurft að sæta undanfarin ár.

Vonandi reynist svo vera, nema ef að svo vildi til, að annar Harry litli „speleman“  kæmi fram á sjónarsviðið og kjaftaði frá öllu ….

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir janúar 23, 2023 07:00