Ríkt er í eðli allra manna að vilja sjá árangur erfiðis síns. Flestir hafa einnig mikla ánægju af því að afla eða rækta eigin mat. Það er mikill misskilningur að menn þurfi stóran garð og græna fingur til að fá góða uppskeru. Í raun duga litlar svalir með nokkrum blómapottum ágætlega til að vera sjálfbær um til dæmis kryddjurtir, salöt og ýmsar grænmetistegundir. Það eina sem þarf er gott skipulag, áhugi og svolítil umhyggja. Einn eða fleiri matjurtakassar eða karmar í garðinum geta einnig gefið mjög vel af sér.
Skipulag mikilvægt
Skipulag er mikilvægt ef fólk vill koma sér upp fallegum og gjöfulum garði. Aðalatriðið er að setja beðin þannig upp að plantað sé hlið við hlið jurtum sem eiga vel saman, þ.e.a.s hafa svipaðar þarfir hvað varðar jarðveg, áburðargjöf og birtu. Sumir hafa líka gaman af að setja garðinn þannig upp að hann verði sjónrænt fallegur. Næsta skref er merkja fyrir beðunum og stinga þau upp. Næst er að vinna jarðveginn þannig að hann verði mjúkur og tilbúinn fyrir plöntun.
Einhverjum hrýs hugur við garðrækt vegna þess að þeir telja að þetta sé mikil og erfið vinna. Sannleikurinn er hins vegar sá að með því að sinna þessu áhugamáli jafnt og þétt er þetta alls ekki erfitt. Hér á landi er að finna frjóa og góða mold og mjög margar jurtir þola vel svalt sumarloftslagið. Undanfarið hafa margir garðyrkjumenn gert áhugaverðar tilraunir með að rækta um nýjar tegundir og náð ótrúlegum árangri. Í ýmsum görðum er nú að finna eplatré, margvíslega berjarunna, perutré og fleira sem gefa vel af sér.
Skjól er nauðsynlegt
Skjól er mikið atriði ef menn ætla að rækta slíkar jurtir en það má mynda á margan hátt. Skjólveggir eða þétt runna eða trjábelti gefa góða raun. Sá sem vill stunda sjálfbæra ræktun í sátt við umhverfið getur einnig gert margt til að búa til eigin áburð og moltu. Safnkassar verða sífellt fullkomnari og þægilegri í notkun og margvíslega matarafganga og annað sem fellur til á heimili má bera út í beð. Ákveðnar jurtir er betra að forrækta innandyra og flytja þær síðan út í beð þegar fer að hlýna en þegar garðinum hefur verið valinn staður, stunginn upp og undirbúinn og gott skjól myndað er kominn tími til að setja niður fræ, útsæði og annað.
Þegar líða tekur á sumarið þarf af og til að reita arfa úr beðunum, vökva og fylgjast með vexti. Það er ótrúlega gaman og gefandi að sjá græna sprota gægjast upp úr moldinni og vaxa jafnt og þétt upp frá því. Að hausti er svo einstök tilfinning að taka upp eigið grænmeti, dást að fegurð þess, bragð á því og njóta. Ef uppskeran er það stór að útlit sé fyrir að hún klárist ekki eru til margvíslegar aðferðir til að geyma. Einn kafli í bókinni Garðrækt í sátt við umhverfið fjallar einmitt um hvernig má sýra, sjóða niður, frysta, sulta og þurrka þessa ávexti jarðarinnar og grípa til allan veturinn. Nú ætti engum að vera til setunnar boðið, garðræktartiminn er hafinn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.