Góð fótaheilsa er gulli betri

Að halda fótunum heilbrigðum skiptir miklu máli sama á hvaða aldri fólk er. Ef fólk vanrækir fætur sínar getur það valdið óþægindum eða sársauka.  Hér eru nokkur ráð til að halda góðri fótaheilsu:

Haldið fótunum hreinum og þurrum. Þvoið fæturna með sápu og skrúbbið þá vel þegar þið farið í bað. Þurrkið fæturna vel að baði loknu. Munið að þurrka á milli tánna. Það er ekkert sem fótsveppir elska jafn heitt og raki. Í raka þrífast þeir best.

Skoðið hvort þið þið séuð með einhver fótamein að minnsta kosti einu sinni í viku. Athugið sérstaklega hvort þið eruð komin með fótsveppi. Fótsveppir eru bráðsmitandi og byrja oft á milli tánna. Athugið líka neglurnar vel og hvort þær eru að breytast. Mislitar, þykkar, brotnar eða sprungnar neglur á tánum geta bent til að fólk sé komið með sveppi í neglurnar. Sumir bregða á það ráð að reyna að hylja vandamálið með því að lakka neglurnar, það skildi enginn gera það eykur bara á vandann.

Ef þið eruð á almenningisstöðum eins og í líkamsærkt eða sundi verið þá í baðskóm eða öðrum skóm sem hlífa fótunum. Fótsveppur smitast auðveldlega á slíkum stöðum.

 Aldrei að fá lánaða skó af öðrum eða ganga í skóm sem þið eigið ekki. Það sama gildir um sokka. Talandi um sokka og skófatnað ef þið viljið halda fótunum heilbrigðum gangið þá hvorki í skóm eða sokkum úr gerviefnum. Fólk svitnar oft mikið í slíkum fótabúnaði og það eykur hættu á fótsveppum. Gangið í bómullarsokkum eða ullarsokkum og skóm úr góðu leðri. Best er að vera í opnum skóm svo það lofti vel um fæturna.

Það eru 250 þúsund svitakirtlar í hvorum fæti. Sveittir fætur eru gróðrarstía fyrir sveppi. Notið sokka sem halda fótunum þurrum. Kaupið skó sem passa ykkur fullkomlega. Ef þið kaupið ykkur nýja skó kaupið þá síðdegis, fætur þrútna yfir daginn skór sem keyptir eru að morgni geta þrengt að fótunum síðdegis. Nýja skó ætti að máta í samskonar sokkum og þið ætlið að nota við skóna.  Kaupið skó með breiðri tá og breiðum hæl. Háhælaðir skór með mjórri tá fara illa með fæturna, sérstaklega tærnar. Þeir geta stuðlað að inngrónum tánöglum og því að fólk fái líkþorn.

Ef þið eruð komin með einhver fótamein, sveppi, inngrónar táneglur og líkþorn farið til fótaaðgerðafræðings eða læknis. Yfirleitt er hægt að laga slík vandamál með litlum tilkostnaði. Að ætla að lækna sig sjálfur getur breytt smávægilegu vandamáli í illleysanlegt.

Ritstjórn febrúar 21, 2019 08:45