Um 130 íbúðir fyrir eldri Reykvíkinga í bígerð

Félag eldri borgara hefur byggt rúmlega 400 íbúðir fyrir félagsmenn sína á liðnum áratugum. Samtök aldraðra sem eru byggingasamtök, hafa 465 íbúðir fyrir sína félagsmenn. Samanlagt hafa þessi félagasamtök því byggt hátt í 900 íbúðir fyrir eldri borgara í Reykjavík.

Gísli Jafetsson

Ná að byggja hagkvæmar en almennt gerist

Félag eldri borgara fékk fyrir tveimur árum úthlutað lóð fyrir fjölbýlishús í Mjóddinni, þar sem verða íbúðir fyrir eldra fólk, nánar tiltekið í Árskógum 1-3. Nú er staðan bygginganna þannig að búið er að steypa fyrstu þrjár hæðirnar og munu húsin rísa hratt á þessu ári, ef allt gengur samkvæmt áætlun. 68 tveggja og þriggja herbergja íbúðir verða í húsinu. Nokkur hópur hefur þegar skráð sig á lista hjá félaginu, yfir áhugasama kaupendur.  Meginmarkmið félagsins er að halda niðri íbúðaverði og samningarnir við verktaka taka mið af því.  „Við náum þannig að byggja með hagkvæmari hætti en almennt gerist, án þess að það komi fram í gæðum íbúðanna“, segir Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og bætir við að Landsbankinn muni veita lán og ráðgjöf vegna kaupa á þessum íbúðum.

Seinagangur í skipulagsmálunum

Gísli segir mikið leitað til félagsins vegna íbúðamála og að það vanti bæði leiguíbúðir og eignaríbúðir fyrir eldra fólk. Kallað hafi verið eftir fleiri lóðum í borginni til að halda uppbyggingunni áfram og það hafi verið tekið vel í það, en það sé mikill seinagangur í skipulagsmálunum. „Það er rúmlega ár síðan veitt var vilyrði fyrir fleiri lóðum, meðal annars í Breiðholti, en síðan hefur ekkert til þeirra áforma spurst“, bætir hann við.

Lengd félagsaðildar sem gildir

Samtök aldraðra undirbúa byggingu um 60 íbúða á svokölluðum Kennaraskólareit eða á mótum Stakkahlíðar og Bólstaðarhlíðar. Stefnt er að því að hefja byggingarnar í byrjun sumars  og áætlanir gera ráð fyrir að þær verði tilbúnar árið 2020.  Á reitnum verða þrjú hús, með 20 íbúðum hvert, tveggja og þriggja herbergja. Á milli þeirra verður bílageymsla neðanjarðar fyrir um 60 bíla. Íbúðirnar eru ætlaðar félagsmönnum Samtakanna og þeir sem hafa verið lengst í Samtökunum ganga fyrir um íbúðakaup.  Gísli Bogason starfsmaður samtakanna segir að núna séu félagar í þeim um 2.500.

Hús Samtaka aldraðra við Sléttuveg í Reykjavík

Kvaðir á íbúðunum

Það hvíla ýmsar kvaðir á þeim byggingum sem Samtök aldraðra og Félag eldri borgara byggja. Enginn getur keypt þessar íbúðir nema hann sé í öðrum hvorum þessara félagasamtaka. Félag eldri borgara selur íbúðirnar einungis félagsmönnum sínum sem eru 60 ára og eldri og það eru einungis þeir, makar þeirra og uppkomin börn sem mega búa í íbúðunum, nema stjórn FEB  samþykki annað. Ýmsar aðrar kvaðir fylgja íbúðunum sem allir ættu að kynna sér, sem huga að íbúðakaupum hjá þessum félagasamtökum. Íbúðir Samtaka aldraðra hækka þannig eingöngu í samræmi við byggingavísitölu en fara ekki á almennan markað. Nýlega fékk dómur í Hæstarétti, þar sem þetta fyrirkomulag var viðurkennt.

Mismunandi fermetraverð

Meðalfermetraverð íbúða hjá Samtökum aldraðra er mismunandi og fer eftir því hvenær húsin voru byggð. Þannig er meðalfermetraverðið 382 þúsund krónur á Aflagranda, 364 þúsund í Bólstaðahlíð en 414 – 439 þúsund  í nýjustu húsunum við Sléttuveg.

 

 

 

Ritstjórn febrúar 8, 2018 07:02