Góður fjárhagur forsenda ánægjulegra efri ára

Ekki náðist mynd af Önnu Heiðu og Hilmari saman í bústaðnum en hér eru hjónin á tröppunum á Höfða eftir að Anna Heiða hlaut Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkurborgar fyrir bókina Mitt eigið Harmagedón. Anna Heiða var einnig tilnefnd til Fjöruverðlauna fyrir bókina.

Anna Heiða Pálsdóttir doktor í bókmenntafræði og Hilmar Ævar Hilmarsson kerfisfræðingur fóru þá leið að finna sumarbústaðaland á einum stað og bústað á öðrum. Landið var í Grímsnesi en bústaðurinn undir rótum Heklu. Þau fluttu síðan húsið á draumalandið sem þau höfðu fundið í hentugri akstursfjarlægð frá heimili þeirra í Reykjavík og síðan hefur bústaðurinn verið kallaður “Flakkarinn”. Segja má að ákvarðanatakan sé einkennandi fyrir Önnu Heiðu og Hilmar sem voru tæplega fertug þegar þau fóru að huga að því hvernig þau vildu verja tímanum þegar þriðja tímabil lífsins gengi í garð, þ.e. tíminn eftir sextugt og nú eru þau komin þangað. Ákvarðanir eru teknar mjög markvisst. „Fyrir utan heilsuna er góður fjárhagur forsenda þess að við getum átt ánægjulegan tíma á efri árum,“ segja þau og byrjuðu þess vegna  svo snemma að skipuleggja fjárhag sinn á markvissan hátt.

Langaði í sumarbústað

Eitt af því sem þau langaði til að gera var að eignast sumarbústað eftir að hafa árum saman leigt ýmsa stéttarfélagabústaði með fjölskyldunni. Þau gera það reyndar enn því þau vilja fjölbreytnina og hafa mjög góða reynslu af þeim bústöðum. Þau skoðuðu ýmsar útfærslur af húsum, allt frá því að kaupa tilbúinn nýsmíðaðan bústað upp í að smíða hann sjálf spýtu fyrir spýtu en komust að því að það væru allt of dýrir kostir fyrir þau. Þau sáu þá þennan bústað í Heklubyggð sem þeim leist mjög vel á og gátu ráðið við að kaupa en landslagið í kringum hann var bara svartur melur. „Húsið var ónotað og komið í eigu banka svo við gerðum tilboð sem var tekið,” segir Anna Heiða. „Þá var næsta skref að flytja hann á landið í Grímsnesinu og það var söguleg för,” segja þau hlæjandi. En bústaðurinn komst heilu og höldnu alla leið og var settur niður þar sem þau voru búin að búa honum stað í Grímsnesinu sem  var í september 2010. Anna Heiða og Hilmar hafa byggt allt annað en bústaðinn sjálf, eins lítið áhaldahús og 200 fm pall í kringum bústaðinn en bústaðurinn er ekki nema 60 fm að grunnfleti. Pallinn byggðu þau til þess að barnabörnin gætu verið örugg úti að leika. Þau eru nú orðin fjögur og það elsta fimm ára. Hitaveitan er ekki enn komin til þeirra en þeim finnst freistandi tilhugsun að geta verið með heitan pott fyrir börnin og segjast örugglega munu gera það.

Vildu ekki setja sig í vinnuþrældóm í bústaðnum

“Flakkarinn” var fluttur tilbúinn í Grímsnesið.
Þegar grunnurinn að bústaðnum var grafinn notuðu þau Anna Heiða og Hilmar jarðefnið til að útbúa grasflöt fyrir barnabörnin.

„Við ráðleggjum öllum, sem ætla að koma sér upp sumarbústað,  að byrja á því að kaupa lóðina og koma upp gróðri því hann býr til svo mikið skjól,” segja Anna Heiða og Hilmar reynslunni ríkari. „Við höfum fylgst með fólki í gegnum tíðina vera að gera það sem okkur fannst vera þrældómsvinna í bústaðnum sínum en komumst fljótt að því að þessi vinna er langt því frá að vera erfið. Þessi vinna er í rauninni viss tegund af hugleiðslu, þ.e. að róta í moldinni eða mála og smíða. Fyrstu þrjú árin, á meðan við vorum að koma bústaðnum almennilega fyrir og byggja pallinn og áhaldahúsið, var oft svolítð puð en þegar þeirri vinnu lauk gátum við valið um að slaka á í bústaðnum eða ekki. Við njótum  þess að spila, vera í tölvunni, fara í göngutúr eða dunda við krakkana. Við fundum samt út að oftar en ekki langaði okkur að vera að dytta að hinu og þessu því í þeirri vinnu felst mikil sköpun.“

Eitt af ömmubörnunum í sveitinni.

Vilja vissa tegund af lúxus í sveitinni

Þau Anna og Hilmar fóru hagkvæmar leiðir við að útbúa sumarhúsið sitt en vönduðu valið. Þau vildu hafa uppþvottavél, gott sjónvarp og önnur heimilistæki sem gera lífið þægilegt. Þau lögðu líka áherslu á góða tölvutengingu til að geta unnið í sveitinni ef þeim sýndist svo auk þess sem þau þurfa að vera í góðu sambandi vegna vinnu. Þau hafa keypt vinnu iðnaðarmanna en Anna Heiða segir að Hilmar sé þúsundþjalasmiður og geti því gert sjálfur flest af því sem kemur upp í sumarbústaðnum.

Rólegheitin og hugleiðslan

Anna og Hilmar rækta matjurtir í sveitinni og hafa komið sér upp gróðurkössum til að þægilegra sé að vinna við ræktunina. Þau koma plöntum gjanan upp frá fræjum heima í Reykjavík og gróðursetja þær svo við bústaðinn. „Félagslífið í sveitinni getur verið mjög skemmilegt þar sem allir eru að vinna að því sama og taka þátt og gefa góð ráð,“ segir Anna Heiða. „Sumarbústaðahverfið sem við erum í er með lokaða Fésbókarsíðu þar sem við setjum inn upplýsingar hvert fyrir annað, t.d. um færð eða óæskilegar mannaferðir. Í því felst mikið öryggi.”

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 13, 2017 10:51