Þótt það sé yfirleitt gaman að gefa og velja gjafir handa ástvini finnst flestum erfiðara að velja eitthvað handa körlum en konum. Þetta á ekki hvað síst við ef um er að ræða karlmenn sem eiga flest það sem þeim langar í. Margir detta þá í það farið að gefa þeim alltaf það sama og sumir karlmenn eru farnir að frábiðja sér sokka, bindi og flókainniskó. Til að auðvelda fólki valið eru hér nokkrar hugmyndir að ögn frumlegri jólagjöfum.
Fyrir útvistarmanninn
Mun þægilegra er að velja gjafir handa þeim sem eiga áhugamál eða stunda einhvers konar tómstundagaman. Alls konar skemmtilega hluti má finna handa útivistarmanninum en nefna má litla bakpoka fyrir dagsferðir, góða sokka í gönguskóna, skrefamælir, hitabrúsa, drykkjarflösku, nestisbox og fleira og fleira. Bækur eru líka einstaklega góð gjöf fyrir þennan hóp t.d. bækur um gönguleiðir, fjöll á Íslandi, hella, blóm og steina. Sú sem vill vera rausnarleg við manninn í lífi sínu ætti þá að kaupa eitthvað af þeim stóru og fallegu bókum sem út hafa komið um lífríki Íslands. Það eru glæsilegar bækur með einstökum ljósmyndum eða teikningum og fullar af ómetanlegum fróðleik.
Kokkurinn í stuði
Mjög margir karlmenn hafa áhuga á matargerð og setja oft upp svuntuna. Margvíslegar flottar svuntur má fá í verslunum sem selja alls konar búsáhöld og þar er einnig að finna góða potta, flugbeitta hnífa, mandólín, grænmetiskvarnir og hvítlaukspressur. Nú svo má gleðja kokkinn með fallegum matreiðslubókum. Mikill fjöldi vandaðra íslenskra matreiðslubóka er að finna í bókabúðum en sú nýjasta er Stóra brauðtertubókin.
Í leit að bráð
Margir karlmenn hafa gaman af að veiða, bæði skotveiði og stangveiði. Ótalmargt smálegt er að finna í veiðibúðum sem gleðja mun þann sem alltaf er í leit að bráð. Nefna má flugubox, nýjar flugur, góðar línur, laxaháfa og annan búnað sem slitnar. Skotveiðimaðurinn getur alltaf notað skotabelti, leirdúfur til æfinga og gervifugla. Það eru líka til fjöldi bóka um veiði en í ár komu út Í veiði með Árna Bald og Við straumana.
Sagnfræðin heillar
Margir hafa mikinn áhuga á fortíðinni og í ár komu út Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson og Rauði krossinn á Íslandi: Hundrað ára saga.
Væntumþykjan allsráðandi
Ef ekkert af þessu fellur í kramið má alltaf hugsa út fyrir boxið og muna að allir hafa gaman af að heyra eitthvað fallegt um sjálfan sig. Það má skrifa helstu kosti eiginmanns, pabba eða afa á blað eða í litla bók og gefa honum. Það má líka gefa skriflegt loforð um samverustund á nýju ári, yfir hádegisverði, á rúntinum eða bara í stofunni heima.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.