Halldór Steinsson yfirmatreiðslumaður á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði var að elda grænmetis lasagne fyrir 200 manns, þegar blaðamaður Lifðu núna kíkti til hans í eldhúsið. Mataræðið á Heilsustofnuninni er grænmetisfæði með fiskívafi. Þegar Jónas Kristjánsson læknir stofnaði Náttúrulækningafélagið, hentu margir gaman að stefnu hans og það var gert grín að því að menn borðuðu „gras“ í Hveragerði. En stefna Jónasar hefur svo sannarlega orðið ofaná með árunum, enda fjölbreytt, hreint og heilsusamlegt fæði uppistaða hennar. Litið er á matinn í Hveragerði sem lið í meðferðinni sem þar fer fram.
Allar öfgar leiðinlegar
Halldór sem er sjálfur grænmetisæta sem borðar fisk, segist ekki fylgja ákveðinni stefnu í sinni matargerð. Hann segist hins vegar lesa mikið um mat og vera opinn fyrir öllu. „Mér finnst allar öfgar leiðinlegar“, segir hann. Sjálfur eldar hann mest úr hreinu hráefni og tvisvar í viku er fiskur á borðum. Tómatar, gúrkur og salat eru lífrænt ræktuð í gróðurhúsi sem stendur við stofnunina og nær allt brauð er bakað á staðnum úr grófu korni. Það er boðið uppá kökur annan hvorn sunnudag. Það var hefð að vera með kökur á hverjum sunnudegi, en nú hefur kökudögunum sem sagt verið fækkað.
Sumir vilja léttast en aðrir þyngjast
Maturinn á Heilsustofnun var sannarlega girnilegur þennan dag. Það eru til sýnis í matsalnum svokallaðir „viðmiðunardiskar“ sem sýna meðalskammt í einni máltíð. Þeir eru góðir fyrir þá sem vilja eða þurfa að léttast, en í Hveragerði kemur líka fólk sem þarf að þyngjast. „Ef menn borða of mikið þá þyngjast þeir“, segir Halldór. Stundum er því fleygt að gestir heilsustofnunar fari í bæinn í Hveragerði og fái sér hamborgara eða steik. Halldór gerir lítið úr því „Mér finnst fólk almennt ánægt með matinn hér. Ég held að það sé frekar fátítt að menn fari á Hótel Örk til að fá sér steik, frekar að einhver dæmi séu um að fólk fái sér pylsu í bænum“.
Tína jurtir úti í náttúrunni
Á Heilsustofnun eru hægt að fá alveg sérstaklega gott jurtate. Það er Jónas Grétarsson garðyrkjustjóri á staðnum sem blandar það og tínir jurtir úti í náttúrunni. Starfsfólkið fer svo árlega í ferðalag og tínir saman fjallagrös sem líka er notað í te. Fjallagrasate þykir til dæmis gott ef menn eru með einhver einkenni flensu og hreinsar hálsinn vel. En í fjallagrasateinu er einnig hungang og sítróna. Margir gestir eru mjög ánægðir með matinn og fyrir þá sem vilja er boðið reglulega uppá matreiðslunámskeið.
Erfitt að elda fyrir tvo
Halldór býr í Reykjavík og ekur Hellisheiðina fram og tilbaka í vinnuna. Aksturinn hefur verið erfiður í vetur og hann er búinn að keyra útaf og hefur líka fest bílinn. Það er í fyrsta sinn í þrjú ár sem það gerist. Halldór sem er alinn upp við venjulegan heimilismat, lærði matreiðslu á Vox, Hilton Hóteli. Hann segir ekki erfitt að elda fyrir 200 manns í einu. „Mér finnst hins vegar erfitt að elda fyrir tvo og þegar ég reyni það, enda ég yfirleitt á því að elda fyrir svona 10, alveg óvart“, segir hann og brosir.