Sambýlingurinn náði fullorðinsaldri í vikunni og er þar með orðinn löglegur lífeyrisþegi. Af því tilefni tókum við rútu frá litla hvíta fjallaþorpinu okkar sem liggur í 700 metra hæð uppi í Andalúsiu, og fórum í kaupstaðinn, Malaga við Miðjarðarhafið. Þetta er ekki langt ferðalag og kostar innan við 5 evrur á mann. Ferðamenn frá öllum heimshornum einkenndu borgina, útiveitingastaðir og suðrænar lundabúðir. Fín tilbreyting eftir þriggja vikna dvöl uppi í fjöllunum. Góður gististaður, góður matur og gott vín. Afmælið gat ekki verið betra.
Við fórum úr rútunni fyrir framan þorpsbúlluna og rötlum upp snartbratta brekkuna heim á leið. Mikið var gott að setjast á tröppurnar og segja „Hola“ við grannkonurnar. Gömlu karlarnir rölta fram og aftur og gera hosur sínar grænar fyrir konunum, sérstaklega henni Maríu, sem er sennilega um nírætt eftir útlitinu að dæma. Við tölum smá táknmál við þau og svo hekla ég. Myrkrið skellur á. Lífeyrisþegarnir fara og leggja sig, bæði þeir íslensku og þeir spönsku.
Lífið í þessari götu er umhugsunarefni. Hvít húsin mynda samfellda lágreista röð, sum hrörleg, önnur í þokkalegu lagi. Rafmagnslínuflækjur hanga utan á húsunum. Það kemur bíll upp brattann, stoppar, karl kemur út og dregur geit út úr skottinu og dregur hana inn í hús nágrannans. Við vitum ekki hvers vegna. Virðulegur herra kemur á hesti út úr þvergötu, heilsar með Hola og hverfur. Við vitum ekki hvers vegna. Við vitum heldur ekki hversu gamlir grannar okkar eru. Kannski eru þau á svipuðum aldri og við.
Ósjálfrátt vakna alls konar spurningar. Af hverju brosa grannar okkar undantekningalaust skörðóttu brosi og sumir alveg tannlausu brosi, þó svo að það sé tannlæknir í þorpinu ? Af hverju berst ekki matarilmur út á götuna á matmálstímum ? Hafa grannar okkar skroppið nýverið til Malaga til þess að fara út að borða eina kvöldstund eða hafa þeir heimsótt önnur lönd. Af hverju nota margir í þorpinu þumalputtann til þess að kvitta fyrir móttöku ellistyrksins ?
Þessar spurningar trufla mig og sambýlinginn og gera það að verkum að við upplifum okkur sem lúxus-par sem getum brosað vandræðalaus og farið inn á heimabankann og fengið það staðfest að við erum enn vel yfir núllinu þó að það sé farið að halla á seinni helming mánaðarins. Áleitna spurning er sú hvort við höfðum það kannski bara nokkuð gott á Íslandi – þrátt fyrir allt.