Grár skilnaður er ekkert grín!

Í Óskalandi er grár skilnaður í uppsiglingu. Þau Villi og Nanna hafa verið gift í fimmtíu ár og tilvera þeirra er orðin grá. Var kannski aldrei neitt sérlega litrík en nú eru þau komin í staðlaða íbúð fyrir eldri borgara, hannaða til þess að alzheimer-sjúklingar eigi auðvelt með að rata um, og sama rútínan er endurtekin á hverjum degi. Það er þar til Nanna biður einn daginn um skilnað yfir kvöldmatnum og Villi svarar bara: „Allt í lagi.“

Synir þeirra tveir eru alls ekki sáttir við að foreldrar þeirra skilji og mæta, ásamt kasóléttri eiginkonu þess eldri, til að reyna að telja þau ofan af vitleysunni. Af stað fer ófyrirsjáanleg atburðarrás og ýmis leyndarmál koma upp á yfirborðið.

Þau Eggert Þorleifsson og Sigrún Edda Björnsdóttir túlka þessi gráu hjón í sinni litlausu veröld frábærlega og þá sérstaklega þegar litrófið verður ögn fjölbreyttara. Jörundur Ragnarsson og Vilhelm Neto eru bæði fyndnir og sannfærandi fullorðin börn sem telja sig eiga rétt á að stjórnast svolítið í lífi foreldra sinna og Esther Talía Casey einstaklega flott mótvægi við þá í hlutverki tengdadótturinnar sem getur horft með aðeins meiri fjarlægð og hlutleysi á atburðarrásina. Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Fannar Arnarsson birtast svo í litlum en stórskemmtilegum hlutverkum og gera þeim góð skil.

Búningahönnun Urðar Jónsdóttur undirstrikar svo á snjallan hátt breytinguna sem verður á hjónunum og Börkur Jónsson nær að koma sérlega vel til skila eintóna veröld í eftirlaunaþorpinu.

Þetta er skemmtilega skrifað verk eftir bandarískan höfund, Bess Wohl, í þýðingu Ingunnar Snædal. Ingunni er einkar lagið að koma kímni til skila hvort sem það er í ljóðum eða þýðingum og henni tekst sérlega vel hér að gera orðaleiki fyndna og leika sér með tvíræðni tungumálsins.

Sýningin er fyndin og fjörug, minnir um margt á farsa og gæti flokkast sem slíkur ef aðeins meira væri um slapstick-atriði og undirtónninn væri ekki svona alvarlegur. Hér er nefnilega meira undir en einn grár skilnaður sem hristir upp í tveimur dekruðum drengjum. „Það er óskaland íslenskt sem yfir þú býrð“ orti Stephan G. Stephansson um föðurlandið sem hann saknaði alltaf og það er ekki tilviljun að gatan sem þau Villi og Nanna búa við heitir Óskaland. Öll gerum við okkur nefnilega ákveðnar væntingar, eigum okkur óskalönd í huganum. Það er bara misjafnt hvort þau eru raunverulega landfræðileg eða bundin við manneskjur, störf eða einhvers konar viðburði. Okkur langar, við höldum, við óskum en svo kemur að því að draumarnir rætast og þá eru þeir kannski ekki alveg eins og við ímynduðum okkur þá. Nú eða þeir renna okkur úr greipum og við verðum að sætta okkur við það sem við þó fengum og það gengur misvel. En hvað ef við getum talað betur saman og hlustað meira hvert á annað og breytt hjónabandinu, tilverunni og séð hann eða hana sem við fundum sem okkar óskaland? Kannski er það meira að segja frænka eldfjalls og íshafs, sifji árfoss og hvers, dóttir langholts og lyngmós, sonur landvers og skers.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 18, 2024 08:39