Kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur á síðustu þremur áratugum nær tvöfaldast og í dag standa heimilin undir um 20% af öllum heilbrigðisútgjöldum með beinni greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu að því er kemur fram í nýrri skýrslu ASÍ um Kostnað sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu.
Í skýrslu ASÍ kemur fram að Samkvæmt rannsókn Eurostat er mun stærri hluti fólks sem sækir sér ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar hér á landi en í nágrannalöndunum. Samkvæmt nýjustu tölum eru um 3% Íslendinga sem segjast ekki hafa sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu vegna kostnaðar en innan við 0,5% á hinum Norðurlöndunum. Það veki líka athygli að mikill munur sé á svörum eftir tekjum en meðal tekjulægsta hópsins hér á landi eru um 6% sem hafa ekki sótt sér læknisþjónustu vegna kostnaðar en 0,6% meðal þeirra tekjuhæstu. Þegar skoðaðar séu tölur um tannlæknaþjónustu sé myndin enn verri en nærri fimmtungur tekjulægsta hópsins hér á landi segist ekki hafa sótt sér tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar. Í skýrslu ASÍ eru rakin nokkur raunveruleg dæmi um þann kostnað sem fólk þarf að bera af lyfja og læknisþjónustu. Lifðu núna valdi nokkur þessara dæma af handahófi.
Dýrt að missa heilsuna
65 ára kona með mikla liðagigt tekur verkja- og gigtarlyf og þarf meðferð hjá sjúkraþjálfara tvisvar í viku að jafnaði. Lyfjakostnaður hennar fyrir lyf sem SÍ tekur þátt í niðurgreiðslu á nam á árinu 2015, 62.000 krónum auk um 15.000 kr. kostnaðar vegna annarra lyfja sem ekki eru niðurgreidd. Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar á árinu nam ríflega 270.000 krónum. Heildarkostnaður sjúklings á árinu nam því um 350.000 krónum auk lækniskostnaðar sem hér er ekki tilgreindur.
Karlmaður á sextugsaldri sem greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum þarf tvisvar á ári að fara í eftirlit hjá sérfræðilækni ásamt myndgreiningu og blóðrannsóknum. Slíkt eftirlit er nauðsynlegt tvisvar á ári fyrstu árin eftir umrædda krabbameinsmeðferð og síðan árlega eftir það. Bein útgjöld vegna þessa eftirlits voru á árinu 2015: Lækniskostnaður 17.300, myndgreiningar 61.000 og blóðrannsóknir 4.600. Heildarkostnaður sjúklings vegna þessa eftirlits á árinu var því 82.900 krónur.
67 ára karlmaður sem greindist með blöðruhálskrabbamein haustið 2015 hefur síðan þá farið í aðgerð, myndgreiningu og fengið lyf vegna sjúkdómsins. Meðferð er ólokið. Bein útgjöld einstaklingsins á fimm mánaða tímabili frá september 2015 voru. Lækniskostnaður 45.000, myndgreining 7.400 og lyf 30.900. Heildarkostnaður sjúklings á fimm mánaða tímabili var því 83.300.
Heyrnartækin kosta sitt
Verð á heyrnatækjum er mjög breytilegt og getur samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ verið á bilinu 130.000-500.000 krónur fyrir parið. Ef miðað er við millidýrt heyrnatæki sem kostar um 300.000 krónur má því gera ráð fyrir að beinn kostnaður einstaklings vegna tækjanna sé um 200.000 krónur þegar tekið hefur verið tillit til almennrar niðurgreiðslu til heyrnaskertra.
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun hjá 25 tannlæknum á Höfuðborgarsvæðinu í upphafi árs 2016 og bar saman verðskrár þeirra við gildandi viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Niðurstaðan var sú að gjaldskrár tannlækna voru í lang flestum tilvikum að meðaltali 150-200% hærri en viðmiðunargjaldskrá Sjúkratrygginga. Þegar skoðaður er munur á lægsta verði tannlækna í könnuninni samanborið við viðmiðunargjaldskránna nemur sá munur í flestum tilvikum 50-100%. Af þessu er ljóst að þrátt fyrir að sjúklingar leiti ódýrustu tannlæknaþjónustu á markaði er munurinn á þeirri gjaldskrá sem Sjúkratryggingar miða endurgreiðslur sínar við og raunverulegri gjaldtöku tannlækna á markaði verulegur og endurgreiðslur til aldraðra og öryrkja því í reynd hlutfallslega mun lægri en reglur Sjúkratrygginga segja til um.
Skýrsluna í heild er hægt að nálgast hér.