Þrátt fyrir hlutfallslega lág opinber framlög til ellilífeyris kemur íslenska lífeyriskerfið vel út hvað tekjuhlutföll varðar í samanburði við Bretland, Holland, Danmörku og Svíþjóð. Það skýrist meðal annars af tvennu:
- Vernd gegn alvarlegri fátækt er náð með því að beina greiðslum almannatrygginga markvisst að láglaunafólki og þeim sem verst standa, en hinir fá lítið eða ekkert.
- Réttindakerfi starfstengdu lífeyrissjóðanna geta tryggt nægilegt lífeyrishlutfall, að vísu eftir lengri starfsævi en tíðkast í hinum löndunum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps sem bar saman íslenska lífeyrissjóðakerfið við lífeyrirssjóðakerfi landanna fjögurra. „Ísland er nú þegar með afgerandi hæst hlutfall ellilífeyris úr söfnunarkerfum, starfstengdum lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði. Í hinum löndunum fjórum kemur meirihluti lífeyris úr opinberum gegnumstreymiskerfum.
Ef reiknaður er út hugsanlegur lífeyrir einstaklings sem er nýkominn á vinnumarkað verður niðurstaðan sú, að hollenska kerfið skili bæði hæstu lífeyrishlutfalli og jöfnustu skiptingunni á greiðslum frá ríki annars vegar og lífeyrissjóðakerfinu hins vegar. Íslenska kerfið kemur þar næst á eftir.
Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk.
Á Íslandi er jöfnuður í tekjum meiri en í hinum löndunum, hér eru hlutfallslega færri undir fátæktarmörkum og lífeyrisþegar koma allvel út hvað þetta varðar í samanburði við aðra landsmenn og við lífeyrisþega hinna landanna.
Á Íslandi eru útgjöld til ellilífeyris sem hlutfall af landsframleiðslu mun minni en í hinum löndunum fjórum. Af umfjöllun tveggja erlendra rannsóknarstofnana um styrkleika og veikleika lífeyriskerfa nokkurra tuga erlendra ríkja má ætla að Ísland myndi fá háa einkunn í slíkum samanburði og líklega ná inn í eitt af efstu sætunum eða a.m.k. topp tíu,“ segir ennfremur í niðurstöðum starfshópsins. Hægt er að lesa skýrslu starfshópsins í heild hér