Gripið til meiri takmarkana en faraldurinn krefst

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

 

Árið 2022 gekk í garð án mikilla tíðinda hérna hjá okkur, en í skugga kórónuveirunnar, sem enn er á kreiki. Þannig er útlit fyrir að þriðja árið í faraldrinum sé hafið. Sem betur fer hafa bólusetningarnar skilað þeim árangri að fæstir veikjast mikið, en fjöldi fólks er í einangrun og sóttkví. Ýmsir spá því að Covid muni ljúka með þeirri bylgju sem nú stendur yfir og vonandi rætast þær spár.

Það er fagnaðarefni á tímum þegar eldra fólki finnst að það njóti ekki sérstakrar virðingar í samfélaginu, að frá upphafi faraldursins hefur mjög mikil áhersla verið lögð á að vernda eldra fólk gegn smiti. Það hefur gengið vel og líklega eru nú flestir eldri borgarar landsins vel varðir, tví- og þríbólusettir. Það er vissulega ástæða til að þakka fyrir það.

Á móti kemur að eldra fólk sem bíður á Landspítalanum eftir dvöl á hjúkrunarheimilum hefur setið þar fast, sem hefur valdið því að á spítalanum er stöðugt hættu- eða neyðarástand. Ef 14 eru með Covid er voðinn vís, að ekki sé talað um ef 20 manns eru lagðir inn með sjúkdóminn. Það er ótrúlegt að það skuli hafa viðgengist árum, ef ekki áratugum saman að eldra fólk sem er tilbúið til að útskrifast liggi endalaust inni á spítalanum, þar sem það á engan veginn heima, vegna þess að það er hvergi til staður fyrir það. Stjórnvöld á hverjum tíma virðast hvorki hafa haft áhuga né getu til að bæta úr þessu ástandi. Þannig hefur þetta fyrirkomulag sem má að ákveðnu marki flokka undir vanrækslu eldra fólks, valdið því að grípa hefur þurft til enn frekari takmarkana en faraldurinn sjálfur hefur kallað á. Þetta hefur bitnað á fólki, fyrirtækjum og börnum og unglingum sem fá ekki að njóta þess félagslífs sem er þeim nauðsynlegt.

Stjórnvöld hafa haft næstum tvö ár til að bregaðst við ástandinu á spítalanum í faraldrinum en ekkert róttækt virðist hafa gerst fyrr en núna rétt fyrir jólin, þegar boð var sent út um að senda ætti 30 sjúklinga á Landspítalanum á aðrar stofnarnir, einkum á landsbyggðinni.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm í skerðingamáli Gráa hersins tveimur dögum fyrir jól. Sigríður J. Guðmundsdóttir, ein þeirra sem höfðaði málið gegn ríkinu fyrir hönd Gráa hersins, sagði í samtali við Lifðu núna um það leyti sem aðalmeðferð málsins fór fram: „Verður sigur í skerðingamálinu jólagjöfin í ár?“ Sú varð ekki raunin þar sem dómurinn sýknaði ríkið af kröfum Gráa hersins. Hann viðurkenndi þó að lífeyrir almannatrygginga væri varinn eignarrétti samkvæmt stjórnarská en taldi ríkið eigi að síður geta skert hann með þeim hætti sem gert er. Eftir stendur spurningin hvort gætt sé meðalhófs við skerðingarnar?

Það er ljóst að íslenska ríkið á heimsmet í skerðingum ellilífeyris. Þær eru til staðar í öðrum löndum en hvergi nema hér hefjast þær við tekjur sem eru við fátæktarmörk. Það hefur valdið gríðarlegri ólgu og óánægju meðal eldri borgara sem hefur staðið lengi og því er nauðsynlegt að fá úr þessu ágreiningsmáli skorið. Málinu verður að öllum líkindum haldið áfram og verður í næstu lotu áfrýjað til Landsréttar.

Vonandi eigum við sem erum að eldast gott ár framundan. Góð heilsa er forsenda þess að eldra fólk geti notið lífsins og verið sjálfbjarga sem lengst. Könnun á hag og líðan Íslendinga 67 ára og eldri var kynnt í byrjun síðasta árs. Þar kom fram að 89% þessa hóps telur sig við góða heilsu. Um 60% þeirra fer í gönguferðir oftar en einu sinni í viku. Flest sveitarfélög bjóða alls kyns heilsueflingu fyrir eldri borgara og það gera félög eldri borgara einnig. Það er til að mynda ókeypis í sund fyrir fólk 67 ára og eldra í langflestum sundlaugum landsins. Þrátt fyrir það segja 69% aðspurðra í áðurnefndri könnun að þeir fari aldrei í sund.

Þeir sem hafa átt erfitt með að tileinka sér nýja tækni geta líka glaðst, því það stendur til að gera átak á vegum stjórnvalda á þessu ári og halda námskeið í tölvufærni fyrir eldra fólk. Það breytir miklu að hafa netið til samskipta við fólk og til að afla sér upplýsinga um hvaðeina sem menn þyrstir í að vita. Samkvæmt könnuninni eiga 77% tölvu og um 70% þeirra nota hana daglega. Engu að síður er það nokkur hópur eldri borgara sem getur ekki notað tölvur sér til gagns og þá ekki heldur notað til dæmis heimabanka.

Lifðu núna vefritið hefur verið starfandi í sjö ár og er eina vefrit sinnar tegundar hér á landi. Á hverju ári fjölgar þeim sem lesa þar greinar, enda fjölgar því eftirlaunafólki sem hefur tölvutæknina á valdi sínu. Það má gera ráð fyrir að eftir 10 ár eða svo, verði fleiri og fleiri af eldri kynslóðinni komnir á vefinn og sæki þangað bæði félagsskap og fræðslu. Það er mikilvægt fyrir hreyfingu eldra fólks á Íslandi að búa sig undir það.

Ritstjórn Lifðu núna óskar lesendum sínum árs og friðar og þakkar samfyldgina á liðnu ári.

Erna Indriðadóttir janúar 3, 2022 06:47