Hóf nýjan starfsferil eftir að hann komst á eftirlaun

Eftir 45 ára feril í fjölmiðlum söðlaði Kári Jónasson fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins um, og fór í Leiðsöguskóla Íslands í Kópavogi. Þá var hann 67 ára gamall. Þaðan fór hann í ferðamálafræði í Háskóla Íslands, sem var fjarnám frá Hólum og útskrifaðist árið 2011. Þegar Lifðu núna hitti hann, var hann á leið í 10 daga ferð um landið með 16 Bandaríkjamenn. Hann segist alltaf hafa haft áhuga á ferðalögum og hafa átt jeppa til að fara á um landið árið 1963.   Hann segir að bakgrunnurinn úr fyrri störfum hafi nýst sér vel í leiðsögninni. Hann hafi fylgst vel með landhelgisdeilunum sem fréttamaður, eldgosum, stjórnmálum og fleiru. Það hafi komið sér vel að hafa fylgst svona vel með í þjóðlífinu.

Þurfa að kunna að segja nei

Kári fer sem leiðsögumaður í bæði stuttar og langar ferðir og hefur líka farið mikið í norðurljósaferðir. Hann segir að leiðsögumenn séu yfirleitt lausráðnir og vinni fyrir mörg fyrirtæki. Það sé það góða við starfið að geta sagt já eða nei við verkefnum. Þannig geti menn sniðið sér stakk eftir vexti. Það væri mikilvægt að kunna að segja nei. Hann hafi valið sér ensku sem tungumál í leiðsögninni, en í Leiðsöguskólanum þurfi allir að velja eitt tungumál.

Börn getin undir norðurljósum verða stórgáfuð

Norðurjósaferðir hafa verið mjög vinsælar meðal ferðamanna, einkum meðal eldra fólks frá Bretlandi og yngra fólks frá Asíulöndum, sérstaklega frá Japan. Það er þjóðtrú í Japan að ef börn séu getin undir norðurljósum verði þau stórgáfuð. Farið er í norðurljósaferðir um klukkan 20 á kvöldin og komið tilbaka klukkan tvö til þrjú að nóttu. En það er alls ekki öruggt að fólk sjái norðurljós í slíkri ferð. En kaupi menn miða, sem kostar á bilinu 5-6000 krónur, gildir hann í að minnsta kosti tvö ár, eða þar til menn sjái norðurljós.

Þarf að nota kraftinn sem býr í fólki

„ Mér finnst mikilvægt“ segir Kári, „að hafa eitthvað ákveðið að vinna að þegar maður eldist“. Honum finnst einnig mikilvægt að nota þekkingu og reynslu eldra fólks af atvinnulífinu, það sé fáránlegt að fólki sem hefur bæði þekkingu og reynslu sé kastað út af vinnumarkaðinum. Menn þurfi kannski ekki að vinna jafn stíft og áður, langar vaktir eða slíkt. „Það þarf að nota þann mikla kraft sem býr í þessu fólki og hann kemst til dæmis vel til skila í leiðsögumannsstarfinu. Mér skilst að í sumum fyrirtækjum sé fólki gert að hætta 65 ára. Hvers vegna? Það á að láta fólk vinna fyrir land og þjóð og nota sína þekkingu. Það má heldur ekki gleyma því hvað það sparar samfélaginu mikla fjármuni ef fólk sem hefur til þess getu, heldur áfram að vinna eftir að eftirlaunaaldri er náð“.

 

Ritstjórn júní 21, 2014 15:20