Ragnar Arnalds fyrrum alþingismaður

,,Ég sit afar sjaldan auðum höndum, það er bara ekki minn lífsstíll,” segir Ragnar Arnalds, fyrrum alþingismaður sem er fæddur 1938. Hann hóf skólagöngu 1946 í Laugarnesskóla og þar voru bekkjarfélagar hans ekki óþekktari menn þingmennirnir Halldór Blöndal og Jón Baldvin Hannibalsson sem og Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins. Hann varð student frá MR 1958 og þremur árum síðar nær hann kjöri sem landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðubandalagið í Norðurvesturkjördæmi, aðeins 23 ára gamall, þá yngstur þingmanna. ,,Ég fór til Svíþjóðar eftir stúdentspróf og nam bókmenntir en kom svo heim og fór í lögfræðinám við HÍ þar sem Ólafur Jóhannesson var prófessor og við urðum báðir þingmenn Noðurlands vestra. Ólafi þótt ekki alltaf þægilegt að nemandi hans við HÍ væri að gagnrýna hann, bæði í kosningabaráttunni og á þingpöllum. Ég varð síðar mennta- og samgönguráðherra í ráðuneyti hans en áður var ég fjármálaráðherra í ráðuneyti Gunnars Thoroddsen. Ég sat á þingi til ársins 1999 að undanteknum árum 1967 – 1971, fyrir Alþýðubandalagið og Samfylkinguna.”

Hvað tók þá við?

,,Ég hef verið að skrifa bækur, aðallega skáldsögur, og reyndar einnig ævisögu mína. Það áhugamál hafði skotið rótum nokkru áður. Ég er enn á skrifa og kannski kemur eitthvað út eftir mig á næstu misserum, nægur er tíminn til skrifta.  Svo ég nefni eitthvað þá kom út fyrir um 10 árum bókin ,,Drottning rís upp frá dauðum” sem er ævintýralegt ferðalag til fortíðar og ber lesandann víða – frá Skotlandi til Orkneyja, Íslands, Englands, Þýskalands og Noregs. Ég bregð upp upp myndum af Evrópu miðalda í spennandi frásögn af miklum örlögum. Seint á 14. öld lagði Margrét konungsdóttir í Noregi upp í örlagaríka ferð. Átta ára gömul varð hún drottning Skotlands og hélt á fund væntanlegs brúðguma síns og jafnaldra, Játvarðar, krónprins Englands. Skotar og Englendingar biðu hennar þúsundum saman án árangurs – drottningin unga kom ekki í eigið brúðkaup.

Árið 2018 kom út skáldsagan ,,Keisarakokteillinn” sem fjallar á gamansaman hátt um fjármálahrunið. Keisarakokteillinn gerist í fjármálahruninu haustið 2008. Friðrik stórkaupmaður hefur fjárfest af miklum dugnaði í hlutabréfum bankanna undanfarin ár ásámt vini sínum, Bjarti söngvara. En snögglega blasir við þeim sú staðreynd að bankarnir eru komnir í þrot og hlutaféð er orðið verðlaust. Þeir ákveða því í örvæntingu sinni og fjármálavandræðum að rétta við fjárhaginn með því að senda unga stúlku til Parísar til að sækja þangað mikið magn af fíkniefnum. Í fyrstu gengur allt að óskum, en svo ..…

Ég var ritstóri Frjálsar þjóðar sem barðist gegn veru bandaríska hersins á Íslandi. Það var  áður en ég fór út til Svíþjóðar, en ég er enn harður herstöðvaandstæðingur. Ég barðist gegn því að Ísland sækti um inngöngu í Evrópurbandalagið á áttunda áratug síðustu aldar, og var með heimasíðu tengda þeirri baráttu, en þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð því afhuga lauk þeirri baráttu en ekki hjá Samfylkingunni svo þá sagði ég mig úr henni. Þá gekk ég í VG. Ég læt stundum sjá mig á fundum hjá VG, en ekki oft, þó enn hafi ég pólitískan áhuga.

Við hjónin áttum sumarbústað um 10 km frá Geysi og vorum þar talsvert eftir að þingmennsku lauk en eftir að ég fékk ekki að endurnýja ökuskírteinið var sjálfgert að selja hann. Það er mjög röng ákvörðun að láta ekki læknisvottorð ákveða hvort þú ert hæfur að aka bifreið heldur láta aldur þar ráða.

Ég hef lengi haft áhuga á skógrækt og held því áfram eftir því sem tök eru á. Allt frá 8 ára aldri hef ég stundað sund, þá fyrst í gömlu sundlaugunum í Laugardal og fer nú helst daglega í Kópavogslaugina, en nú fær maður ekki að mæta þar vegna Covid-19.”

Ragnar segist reyna að gæta að heilsunni eftir megni og auk þess að fara í sund stundar hann gönguferðir í næsta nágrenni þar sem hann býr í Kópavogi.

Ritstjórn apríl 14, 2021 06:56