Guðný Guðmundsdóttir er á meðal fyrstu kvenna í heiminum til að vera ráðin konsertmeistari sinfóníuhljómsveitar og sú allra fyrsta á Íslandi en það var árið 1974, þá 26 ára, og þeirri stöðu hélt hún til 2010. Guðný er fædd 1948 en er hvergi nærri hætt að starfa við tónlist. Og svo hefur jóga verið stækkandi hluti af lífi hennar undanfarin ár.
Guðný segir að gífurlega margt hafi breyst í tónlistarheiminum frá því hún kom heim frá námi og nú eigi konur jafna möguleika á við karla á stöðu konsertmeistara. Hún kom beint frá Julliard tónlistarskólanum í Bandaríkjum, þar sem hún lauk Mastersprófi, og sótti um stöðu konsertmeistara hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hafði frétt af stöðunni og skellti sér í prufuspilið hér heima en hafði þá líka prufuspilað fyrir mjög góða stöðu í Bandaríkjunum. Hún átti kost á báðum stöðunum og þurfti að velja á milli þess að koma heim eða vera úti í hinum stóra heimi.
Hefur aldrei séð eftir að hafa valið Ísland
,,Ég hef aldrei séð eftir að hafa valið Ísland,“ segir Guðný. ,,Hér hef ég fengið að taka þátt í allri þeirri gífurlegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað frá því ég kom heim og það er ekkert smáræði. Þá hafði fjöldi frábærs tónlistarfólks hafið uppbygginguna og ég var svo heppin að fá að vera með. Við vorum þá langt á eftir öðrum löndum og ég tók þátt í grasrótarvinnunni. Áður var hæfileikaríkt fólk tekið nánast úr hafnarvinnu og sent til Danmerkur að læra á víólu,“ segir Guðný og hlær og nefnir sem dæmi Svein Ólafsson, þann frábæra víóluleikara sem varð síðar leiðandi víóluleikari. ,,En nú er öldin önnur.“
Bjó víða áður en hún kom heim
,,Ég hafði verið erlendis í sjö ár, fékk fjögurra ára styrk í Eastman tónlistarháskólanum í Rochester. Þaðan var ég send sem skiptinemi til Royal college of music í london til ársdvalar. Eftir það fór ég í tveggja ára mastersnám í Juilliard school of performing arts áður en ég kom heim Íslands.“
Ég komst fljótlega að því að lífið hér heima var svolítið ,,sveitó,“ segir Guðný og brosir. ,,Ég man t.d. að þegar vinir mínir komu að utan og fóru með mér í tónleikaferð um allt landið. Þá höfðum við öll búið í New York og ég fór með þau á veitingastaði hér og þar. Í morgunmat á hótelum var boðið upp á gervifranskar kartöflur og kokteilsósu ausið yfir allt. Einu sinni pöntuðum við spaghetti Milanese og þá var mér allri lokið. Þá kom fat með steiktu nautahakki í miðjuna á fatinu og spaghettíið allt í kring. Þetta var borið fram með Hunt´s tómatsósu í skálum með. En vinir mínir tóku bara þátt í þessu og hlógu með mér. Þetta átti eftir að breytast gífurlega mikið á stuttum tíma og nú erum við ,,best í heimi“ í þessu eins og svo mörgu öðru.“
Guðný kynntist jógafræðunum
Guðný kynntist jógafræðunum þegar hún var fengin til að spila á kyrrðardögum hjá Sigrúnu Olsen í Reykholti 1990 ásamt eiginmanni sínum. ,,Ég hafði auðvitað vitað að jóga væri til og reynt að lesa bækur um jóga en hafði sennilega ekki þolinmæði til að setja mig inn í fræðin. En svo datt ég inn í þetta þegar Sigrún bað okkur Gunnar um að spila fyrir fólkið sem sótti námskeiðið í Reykholti og okkur stóð til boða að taka þátt í því sem þar fór fram. Sigrún stofnaði Lótusblómið og var mikill frumkvöðull á þessu sviði en hún er því miður látin. Ég ákvað að prófa jógað og heillaðist alveg. Síðan var ég hjá Sigrúnu í jógatímum í mörg ár eftir þetta. Þegar hún hætti kynntist ég Ingunni Benediktsdóttur glerlistakonu sem var í árafjöld með jógatíma heima hjá sér. Þar var ég þangað til hún hætti, eða í næstum 20 ár, og þá sá ég að handan við götuna þar sem ég var að kenna var Jógasetrið hennar Auðar Bjarnadóttur. Hún er líka stórkostlegur jógakennari og með henni mjög góðir jógakennarar líka og þar hef ég verið síðastliðin þrjú ár. Ég hef komist að því að jógaiðkun er alger forsenda þess að mér líði vel í líkamanum,“ segir Guðný.
Stólajóga málið fyrir mig
Guðný segir hlæjandi frá því að hafa streist á móti því að fara í stólajóga lengi vel. ,,Ég hélt að þetta væri bara fyrir gamalt fólk en svo sá ég að það eru alveg jafn sterkar æfingar sem eru gerðar á stólum fyrir utan að maður sleppur við að vera alltaf að leggjast í gólfið og standa upp. Það verður erfiðara eftir því sem maður eldist en æfingarnar sjálfar eru alveg jafngóðar. Ég er alveg sannfærð um það að ef ég væri ekki í þessum æfingum tvisvar í viku auk þess sem ég geri einfaldar æfingar heima, helst á hverjum degi, þá væri ég með bakverki eins og svo margt tónlistarfólk. Fólk gleymir því að vöðvarnir styttast með aldrinum en beinin ekki og þá verður misræmi. Ég held bakinu alveg góðu með þessum æfingum, alveg sama hvað ég spila mikið og lengi. Svo er þetta svo mikil andleg upplifun líka. Jóga snýst ekki bara um æfingar heldur líka um það hvernig maður dvelur í núinu. ,,Óm“ hljóðið sem notað er þegar við kyrjum þýðir til dæmis ,,ég er“. Maður lærir m.a. að losa sig undan neikvæðum hugsunum sem ásækja mann, lærir að temja hugann með öndun og teygjum. Það eru örugglega fleiri góðir jógastaðir en þessir sem ég hef prófað hafa verið stórkostlegir og henta mér vel. Svo kyrja ég þegar ég er föst í umferðinni því það er svo róandi,“ segir Guðný og hlær. ,,Ég vona að skemmtilegur siður sem var fyrir covid, að setjast saman eftir jógatímana og drekka te og spjalla, verði tekinn upp aftur.“
Fram undan skemmtileg verkefni
Guðný er að kenna í MÍT (Menntaskóla í tónlist) og líka í Listaháskólanum þar sem hún er nú heiðursprófessor og kennir svokallaða ,,masterklassa“. Hún hefur líka ferðast og verið gestakennari í erlendum háskólum en það datt niður í Covid. Hún spilaði nýverið í Norðurljósum í Hörpunni á stórum tónleikum sem gengu mjög vel og svo er hún líka að fylgja nemanda sínum eftir sem er að fara að halda lokatónleika, svo dagarnir líða hratt.
Að lokum er Guðný með ,,gigg“ á Las Vegas með Geir Ólafssyni og jass-spilurum sem er verulega ólíkt því sem hún hefur verið að gera svo þessi lifandi tónlistarkona hefur nóg að gera og nýtur lífsins í botn.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar