Það eru ótal margir sem hafa pantað sér fatnað frá netversluninni ASOS enda er hún ein sú stærsta á sínu sviði. ASOS tilkynnti nýlega að þar á bæ yrði bannað að selja fatnað sem framleiddur er úr mohair, silki, kasmír og fjöðrum frá og með janúar á næsta ári. Þetta er gert af dýraverndunarsjónarmiðum. Dýraverndunarsamtök um allan heim hafa mótmælt framleiðslu á fatnaði úr þessum efnum. Í tilkynningu frá ASOS segir að fyrirtækið telji það ekki ásættanlegt að dýr þjáist í nafni tískunnar eða vegna framleiðslu á snyrtivörum. Það sé heldur ekki ásættanlegt að dýrum sé slátrað sérstaklega til framleiða vörur sem seldar eru á vefsvæði ASOS. Frá og með næstu áramótum verði dýraafurðir sem notaðar eru til að framleiða vörur fyrir fyrirtækið að vera aukaafurðir sem falla til vegna framleiðslu á kjöti. Þetta gildi líka um skinn sem notuð eru í leðurframleiðslu.
Margir hafa undrað sig á hvers vegna ASOS ætlar að hætta að selja vörur sem framleiddar eru úr silki. En skýringin er sú að það þarf 6.600 orma til að framleiða 1 kíló af silki. Til að ná silkiþráðunum heilum eru ormarnir drepnir með því að setja þá í heitt vatn. Kasmír geitur eru mögur dýr en þær eru oft rúnar um miðjan vetur. Þetta veldur því að fjöldi geita drepst úr kulda og það segir ASOS að sé ekki hægt að sætta sig við.