Langflest sveitarfélög landsins leggja mikið uppúr þjónustu við þá sem eru 67 ára og eldri. Þar er heilsuefling ofarlega á blaði, en rannsóknir dr. Janusar Guðlaugssonar hafa sýnt mikilvægi hreyfingar og styrktarþjálfunar fyrir eldra fólk. Þannig halda menn heilsu fram eftir aldri og geta verið sjálfbjarga heima lengur en ella. Hafnarfjarðarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem leggur mikla áherslu á heilbrigði eldri kynslóðarinnar og hefur meðal annars efnt til heilsueflingar eldri borgara í samvinnu við Janus.
Sveitarfélög bjóða uppá ókeypis sund
Mörg sveitarfélög bjóða uppá ókeypis sund og í Reykjavík er auk þess vatnsleikfimi í eftirfarandi laugum. Laugardalslaug, Sundhöllinni, Breiðholtslaug, Grafarvogslaug, Árbæjarlaug og Vesturbæjarlaug. Það er einnig boðið uppá vatnsleikfimi í Sundlaug Seltjarnarness, Bjarnalaug á Akranesi og í Sjálandslaug í Garðabæ svo nokkur fleiri dæmi séu nefnd.
Frístundastyrkir fyrir börn, ungmenni og eldra fólk
Hafnarfjörður hefur þá sérstöðu að vera með frístundastyrki fyrir eldri borgara, sams konar og boðnir eru börnum og ungmennum. Markmiðið með niðurgreiðslunum er að gera eldri íbúum bæjarins kleift að taka þátt í íþrótta og tómstundastarfi óháð efnahag og að efla almennt heilbrigði og hreysti þessa aldurshóps. Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar segir að þetta sé liður í að koma í veg fyrir sjúkdóma og ótímabæra öldrun eldra fólks. „Við höfum verið með þetta til margra ára“, segir hún.
Hægt að fara í hvaða líkamsrækt sem er
Þetta er sama niðurgeiðsla og hjá börnum og ungmennum. 4 þúsund krónur á mánuði og 48 þúsund krónur yfir árið. „Við niðurgreiðum líkamsrækt og tómstundir fyrir alla þessa hópa“, segir Rannveig. „Menn geta notað þetta til að greiða fyrir verkefnið sem Janus er með, í golf, líkamsrækt eða hvað sem fólk vill gera. Það þarf bara að framvísa greiðslukvittunum. Þeir sem eru 67 ára og eldri fá ókeypis aðgang í sundlaugum bæjarins. Til að fá niðurgreiðsluna þurfa menn að eiga lögheimili í Hafnarfirði og sótt er um hana í þjónustuveri bæjarins í Strandgötu 6. Rannveig segir að eldra fólk hafi notfært sér þetta töluvert „Það hefur verið að aukast og það finnst okkur jákvætt“, bætir hún við.
Biðlisti eftir heilsueflingu Janusar
„Frístundastyrkurinn er mjög hvetjandi fyrir fólk“, segir Valgerður Sigurðardóttir formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði. Það fá hann allir sem stunda einhverja hreyfingu, þetta er mjög stórt skerf í heilsueflingu eldra fólks“. Valgerður segir að þeir sem taki þátt í Heilsueflingarverkefninu með Janusi séu allir mjög ánægðir. Hann hafi í haust ætlað að vera með 160 manna hóp í þjálfun og mælingum, en vegna þess hversu margir skráðu sig til leiks á kynningarfundi hjá Félgi eldri borgara, hafi Janus strax verið kominn með tvo hópa og biðlista. „Það er fylgst með fólki og þeim árangri sem það nær og allir eru mjög áhugasamir“, segir hún.
Skoðaðu þjónustuna í þínu sveitarfélagi í Upplýsingabanka Lifðu núna með því að smella hér.